Aukaverkanir

Almennt: 
Öll áhrif sem lyf hefur umfram þau sem lækna sjúkdóm eða slá á einkenni hans eru aukaverkanir. Öll lyf geta valdið aukaverkunum. Lyfjameðferð byggist þess vegna alltaf á því að ávinningur af notkun þeirra vegi meira en hugsanleg áhætta af meðferðinni. Aukaverkanir lyfja geta verið misalvarlegar og misjafnt er hversu stóra skammta þarf til að valda þeim. Æskilegast er að læknandi skammtar séu mun minni en þeir skammtar sem valda aukaverkunum, en þetta er raunin í flestum tilfellum. Lyf sem valda alvarlegum aukaverkunum í skömmtum sem eru litlu stærri en læknandi skammtar eru vandmeðfarin og fylgst er reglulega með sjúklingum meðan lyfið er tekið. Dæmi um slíkt lyf er litíum. Áður en lyf eru sett á markað þurfa þau að uppfylla ýmis skilyrði og lúta ströngu eftirliti. Allar aukaverkanir sem koma fram meðan lyf eru í prófunum eru skráðar og skráning aukaverkana heldur áfram eftir að lyfið er komið á markað. Ef alvarlegar aukaverkanir koma fram síðar á ferlinu eru forsendur fyrir notkun lyfsins endurskoðaðar. Orsakir aukaverkana Flestar aukaverkanir lyfja eru fyrirsjáanlegar, þ.e. hafa sama verkunarmáta og læknandi áhrif lyfsins. Þessar aukaverkanir eru til dæmis blóðþrýstingsfall af völdum lyfja sem notuð eru við of háum blóðþrýstingi eða of mikil lækkun blóðsykurs vegna lyfja við sykursýki. Hægt er að koma í veg fyrir þessa tegund aukaverkana með réttri notkun lyfja og réttum skömmtum. Í sumum tilfellum eru aukaverkanir einstaklingsbundnar og þá er sjaldan hægt að sjá þær fyrir. Þetta eru til dæmis ofnæmiseinkenni eða verkanir sem rekja má til einstakra erfðaeiginleika. Enn aðrar aukaverkanir koma aðeins fram eftir notkun lyfja í langan tíma. Þetta eru aukaverkanir sem stafa af aðlögun líkamans að lyfinu. Dæmi um slíkar aukaverkanir eru síðkomnar hreyfitruflanir (tardive dyskinesia) hjá sjúklingum sem þurfa að taka sefandi geðlyf árum saman. Síðustu flokkar aukaverkana eru aukaverkanir sem koma fram eftir mjög langan tíma, t.d. aukin hætta á krabbameini, og aukaverkanir sem koma fram þegar notkun lyfs er hætt. Í seinna tilvikinu er yfirleitt um það að ræða að líkaminn hefur aðlagast áhrifum lyfsins og þarf að tíma til að laga sig að því að lyfið sé ekki lengur til staðar. 

Skráning aukaverkana 
Skráning aukaverkana og tíðni þeirra gefur ekki alltaf nákvæmar upplýsingar um það hvort einstaklingur sem tekur lyfið má búast við þeim. Nokkrar ástæður eru fyrir því. Lyf eru fyrst prófuð á tiltölulega litlum hópi sjúklinga sem þurfa mest á lyfinu að halda og eru í flestum tilfellum mjög sjúkir. Í þessum prófunum getur stundum verið erfitt að greina milli einkenna sjúkdóms og aukaverkana lyfsins. Til þess að greina aukaverkanir og meta tíðni þeirra þarf tiltölulega stóran hóp sjúklinga. Alvarlegar aukaverkanir eru þó áberandi og finnast mjög fljótlega, en líklegast er að vægar aukaverkanir sem líkjast einkennum algengra kvilla uppgötvist ekki. Þær kröfur sem eru gerðar um rannsóknir á lyfjum áður en þau eru sett á markað verða stöðugt strangari. Þetta hefur í för með sér að skráning aukaverkana er nákvæmari fyrir nýrri lyf en fyrir þau eldri og listi þeirra aukaverkana sem hafa sést verður oft mjög langur.
 
Aukaverkanir 
Þau einkenni sem eru talin upp hér eiga aðeins við algengustu aukaverkanir hvers lyfs og þær alvarlegustu. Ekki er ástæða til að telja upp vægar aukaverkanir sem litlar líkur eru á að komi fram. Markmiðið með þessum hluta er að fólk geti lesið sér til um þær aukaverkanir sem algengast er að komi fram og hvenær er ástæða til að hafa samband við lækni. Það skal hins vegar brýnt fyrir öllum að hafa samband við lækni eða lyfjafræðing og leita frekari upplýsinga um leið og þeim þykir ástæða til.

Lyfjafræðingur getur svarað almennum spurningum um lyf, hvernig er best að taka þau og hvaða lyf má ekki taka saman en betra er að leita ráða læknis ef spyrja þarf um sérstök atriði varðandi meðferðina eða einkenni sjúkdóms.