Fræðsla og forvarnir

Fræðsla og forvarnir > Kynsjúkdómar > Greinar > Lekandi
Lekandi
Lekandi er sýking sem orsakast af bakteríu (Neisseria gonorrhoeae). Lekandi hefur verið á undanhaldi undanfarin ár, bæði á Íslandi og í grannlöndum okkar, en er enn nokkuð algengur, m.a. í Austur-Evrópu, Afríku og sumum Asíulöndum. Þeir fáu sem greinst hafa hérlendis undanfarin ár hafa sýkst erlendis. Án öflugra kynsjúkdómavarna má gera ráð fyrir að lekandi haldi innreið sína að nýju hér á landi. Smitleiðir Smit verður við snertingu slímhúða, oftast við samfarir. Þannig getur sýking orðið annars staðar en á kynfærum, t.d. í endaþarmi, koki og augum, komist bakterían í snertingu við þessa staði.

Einkenni Einkenni lekanda koma venjulega fram 3–5 dögum eftir samfarir þar sem smit átti sér stað. Stundum líður lengri tími þar til einkenni koma fram. Fimmtungur karla fær engin einkenni. Einungis helmingur kvenna fær einkenni sjúkdómsins. Hjá körlum veldur sýking bólgu í slímhúð þvagrásar, stundum gulgrænni graftarútferð og sviða við þvaglát. Hjá konum veldur hún bólgu í slímhúð leghálsins, stundum graftarkenndri útferð og jafnvel sviða við þvaglát.

Fylgikvillar Ef ekki er brugðist skjótt við sjúkdómnum er hætta á að lekandassýkillinn breiðist út til eggjaleiðara hjá konum og valdi þar bólgu og ófrjósemi. Hjá körlum getur þvagrásarbólgan leitt til eistnabólgu og stundum ófrjósemi. Fyrir kemur, einkum hjá konum, að bakterían komist út í blóðið og valdi langdregnum hita, liðbólgum og húðútbrotum.

Greining Lekandi er oftast greindur með þvagprófi en stundum þarf að taka strok með baðmullarpinna frá þvagrás hjá körlum og frá leghálsi hjá konum. Hjá báðum kynjum eru strok tekin frá augum, koki og endaþarmi ef ástæða er til. Svar fæst venjulega innan viku frá því að sýni er tekið.

Meðferð Meðferð lekanda er yfirleitt einföld. Oftast nægir aðgefa penísillíntöflu sem tekin er í eitt skipti. Ef viðkomandi hefur ofnæmi fyrir penísillíni er hægt að gefa önnur sýklalyf. Stundum er lekandasýkillinn ónæmur fyrir penísillíni. Eru þá gefin önnur sýklalyf sem ráða niðurlögum bakteríunnar. Því er mikilvægt að sýni sé sent til ræktunar og næmi bakteríunnar kannað þannig að rétt meðferð verði gefin.

Efni fengið af heimasíðu Landlæknis birt með góðfúslegu leyfi.

Sóttvarnalæknir Landlæknisembættinu september 2001

  • Greinar
  • Spurt og svarað
Þriðjudagurinn 7. agúst 2007
Almennt um kynsjúkdóma

Hvað er kynsjúkdómur? Sjúkdómar sem smita við samfarir nefnast kynsjúkdómar. Smit á sér oftast stað við beina snertingu slímhúða. Sýklar sem valda kynsjúkdómum lifa einungis við líkamshita og deyja ...

Meira