Fréttir

Lyfjaskammtarinn, íslensk hönnun
Föstudagurinn 4. janúar 2013

RemindMe lyfjaskammtarinnSamkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni tekur um helmingur alls fólks lyfin sín á rangan hátt. Þetta getur m.a. falist í því að lyfin eru tekin í of stórum eða of litlum skömmtum á röngum tíma eða þau gleymast alveg. Þetta vandamál, sem kallast skortur á meðferðarheldni lyfjagjafa, getur haft slæm áhrif á heilsu sjúklinga, valdið aðstandendum þeirra áhyggjum og kostar íslenska heilbrigðiskerfið háar fjárhæðir á ári hverju. Í dag er það að hluta til leyst með lyfjaskömmtun. Algengasta form lyfjaskömmtunar á Íslandi er lyfjaskömmtun í rúllum. Sú aðferð leysir þó vandamálið ekki að fullu. Hópur verkfræðinema kom auga á þetta og einsetti sér að finna frekari lausn á því. Nú í sumar hefur sprotafyrirtækið Eski Tech, sem stofnað var af þessum verkfræðinemum, unnið að þróun lyfjaskammtarans RemindMe sem er hannaður sem viðbótarlausn við hinar hefðbundnu lyfjarúllur. Skammtarinn, sem er sjálfvirkur, kemur í veg fyrir að sjúklingur taki lyfin sín of semma með því að takmarka aðgang að næsta skammti þar til á að taka hann. Skammtarinn sér einnig um að minna fólk á að taka lyfin sín með ljós- og hljóðmerki. Síðast en ekki síst sendir RemindMe sjúklingum, aðstandendum þeirra eða umönnunaraðilum sms ef skammtur hefur ekki verið fjarlægður úr tækinu að ákveðnum tíma liðnum. 
Eski Tech vinnur nú að frekari þróun skammtarans og vonast til að geta komið honum á markað hér á landi á næsta ári.