Heilsa og vellíðan

Heilsa og vellíðan > Steinefni og snefilefni > Greinar > Magnesíum
Magnesíum
Í líkamanum eru 20-28 grömm af magnesíum og helming þess er að finna í beinum.

Heiti Magnesium sulfate, magnesium gluconate, magnesium citrate.

Uppspretta Magnesíum er í mörgum fæðutegundum en oftast í fremur litlu magni. Magnesíum er t.d. í brauði, pasta, hrísgrjónum, ýmsu grænmeti eins og spergilkáli og spínati, baunum en einnig finnst magnesíum í kjöti, fiski og mjólkurvörum. Vatn getur innihaldið magnesíum en það fer þó mikið eftir því hvaðan vatnið kemur. Þar sem magnesíum, líkt og önnur steinefni, tapast við matreiðslu er ákjósanlegast að nota sem minnst vatn og sjóða matinn í sem stystan tíma.

Verkun
- Magnesíum er steinefni sem sérhver fruma líkamans þarf á að halda. Um helmingur magnesíumbirgða í líkamanum er inni í frumunum en hinn helmingurinn er í beinunum. Aðeins 1% af magnesíum í líkamanum er að finna í blóðinu.
- Magnesíum tekur þátt í yfir 300 lífefnafræðilegum ferlum í líkamanum.
- Magnesíum er eitt af aðalefnunum sem líkaminn notar til að byggja og styrkja bein.
- Magnesíum tekur þátt í framleiðslu próteina og hefur áhrif á orkulosun frá vöðvum líkamans. Magnesíum stuðlar því að eðlilegri vöðva- og taugastarfsemi. Jafnframt skiptir magnesíum máli við stjórnun á líkamshita og á stöðugleika hjartans.

Notkun - verkun
- Við magnesíumskorti.
- Við mígrenihöfuðverk.
- Við heyrnartapi sem stafar af hávaða.
- Minnkar líkur á myndun nýrnasteina.
- Við háþrýsting.
- Til að fyrirbyggja tíðaverki.
- Við pirringi í fótum.

Magnesíumskortur Skortur á magnesíum er mjög sjaldgæfur en gæti hans þá er orsökin venjulega sú að of mikið magn magnesíums tapast með þvagi eða vegna einhvers kvilla í meltingarfærum. Eldra fólki, sykursjúkum og áfengissjúklingum er hættara við magnesíumskorti en öðrum. Skortseinkenni lýsa sér fyrst og fremst í: - rugli, - minnkaðri matarlyst, - þunglyndi, - vöðvasamdrætti og vöðvakrömpum, - óeðlilegum hjartslætti, - skjálfta og - krampa.

Ráðlagðir dagkammtar

Ungbörn < 6 mán  ---
Ungbörn 6-11 mán 80 mg*
Ungbörn 12-23 mán 85 mg
Börn 2-5 ára 120 mg
Börn 6-9 ára 200 mg
Karlar 10-13 ára 280 mg
Karlar > 14 ára  350 mg
Konur 10-13 ára 280 mg
Konur > 14 ára 280 mg
Konur á meðgöngu  280 mg
Konur með barn á brjósti 280 mg
*mg = milligrömm

Aukaverkanir
- Getur valdið linum hægðum.
- Engar aðrar aukaverkanir þekktar nema um ofskömmtun sé að ræða.

Milliverkanir
- Sýklalyf (tetracýklínsambönd, kínólónsambönd og súlfónýlúrea sambönd).
- ACE hemjarar.
- H2-blokkarar.
- Ýmis þvagræsilyf.
- Getnaðarvarnarlyf.
- Dígoxín.
- Fenýtóín.
- Sínk.
Frábendingar Einstaklingar með nýrnasjúkdóma eða hjartasjúkdóma ættu ekki að taka inn magnesíum nema að höfðu samráði við lækni.

Heimildir: H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 76-77.

NIH, National Institutes of Health, Office of dietary supplements, USA

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.

(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).  • Greinar
  • Spurt og svarað
Föstudagurinn 10. agúst 2007
- Almennt

Steinefni eru ólífræn efni og nauðsynleg mönnum og dýrum. Þau verða að berast líkamanum á einn eða annan hátt frá umhverfinu eins og t.d. með fæðu. Steinefni gegna mikilvægu hlutverki í margþætt...

Meira
Fleiri greinar Meira