Að taka inn lyf

Að taka inn lyf > Getnaðarvarnir > Greinar > Neyðargetnaðarvarnir
Neyðargetnaðarvarnir
Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur

Neyðargetnaðarvörn er getnaðarvörn, sem kemur í veg fyrir getnað og þungun eftir óvarðar samfarir. Óvarðar samfarir eru samfarir, þar sem getnaðarvarnir eru ekki notaðar eða þær taldar hafa brugðist. Neyðargetnaðarvörn er ekki fóstureyðing heldur kemur í veg fyrir egglos eða hefur áhrif á að frjóvguð eggfruma nái að taka sér bólfestu í leginu.

Helstu tegundir neyðargetnaðarvarna eru tvenns konar:

1. Hormónatöflur eða “daginn eftir pillan” (Norlevo eða Postinor)

2. Lykkjan (Mirena [hét áður Levonova])

Algengast er að taka hormónatöflur eða “daginn eftir pilluna”.

Neyðargetnaðarvörn eins og “daginn eftir pillan” er neyðarúrræði og er algjörlega óviðeigandi sem almenn getnaðarvörn. Þessi valkostur er þó nauðsynlegur til að koma í veg fyrir óæskilegan eða ótímabæran getnað, sérstaklega hjá unglingsstúlkum. Neyðargetnaðarvörn er veitt flestum þeim konum sem þess óska og þurfa á henni að halda.

Neyðargetnaðarvörn veitir ekki vörn gegn HIV sýkingu (alnæmi [AIDS]), klamydíu eða öðrum kynsjúkdómum.

Postinor og/eða Norlevo hormónatöflur fást í apótekum og eru afgreiddar af lyfjafræðingum. Stutt viðtal fylgir afgreiðslunni þar sem farið er yfir hversu langt er síðan samfarir áttu sér stað, hvar konan er stödd í tíðahringnum, hvort hún taki önnur lyf og fleira í þeim dúr auk þess sem hún fær almennar ráðleggingar. Af þessum ástæðum er æskilegt að konan komi sjálf og tali við lyfjafræðinginn en sendi ekki einhvern fyrir sig. Enginn þarf að fara hjá sér við að biðja um neyðargetnaðarvörn og fullur trúnaður ríkir milli lyfjafræðings og skjólstæðings, jafnvel þó um sé að ræða unglingsstúlkur undir lögaldri.

Lykkjan er notuð þegar meira en 5 sólarhringar eru liðnir frá óvörðum samförum eða ef konan vill gjarnan nota lykkjuna sem áframhaldandi getnaðarvörn. Lykkjan er yfirleitt ekki sett upp hjá konum sem ekki hafa átt barn. Það er kvensjúkdómalæknir sem ávísar lykkjunni og setur hana í leg konunnar.

Ef um kynferðisafbrot er að ræða ætti viðkomandi kona að fara á neyðarmóttöku vegna nauðgana þar sem henni er gefin kostur á neyðargetnaðarvörn, læknisskoðun, áfallahjálp o.fl..

Postinor

Innihaldsefni: Levonorgestrelum 1500 microg.

Umfjöllun: Postinor er getnaðarvörn sem er notuð eftir samfarir, oft kölluð „daginn eftir pilla“. Ekki er hægt að fullyrða um öryggi þessarar getnaðarvarnar en það er þó minna en við notkun venjulegra getnaðarvarnartaflna. Postinor er aðeins hugsuð í neyðartilvikum og hún er algerlega óviðeigandi sem almenn getnaðarvörn. Lyfið á ekki að nota oftar en einu sinni innan hvers tíðahrings og er eingöngu ætlað konum með reglulegar blæðingar.

Levónorgestrel er samtengt hormón með sömu áhrif í líkamanum og kvenhormónið prógesterón. Ekki er nákvæmlega vitað hvernig Postinor virkar en gert er ráð fyrir að levónorgestrel komi í veg fyrir egglos og valdi breytingum á slímhúð legsins sem veldur því að frjóvguð eggfruma nær síður að hreiðra þar um sig. Leghálsslímið þykknar og sáðfrumur eiga erfitt með að komast upp leghálsinn.

Notkun: Taka skal 1 töflu, eins fljótt og hægt er, helst innan 12 klukkustunda og ekki seinna en 72 klukkustundum eftir óvarðar samfarir. Kona sem kastar upp innan þriggja klst. eftir að hafa tekið töflurnar á strax að taka aðrar tvær töflur. Postinor má taka hvenær sem er á tíðahringnum, ef konan er ekki komin fram yfir áætlaða tíðablæðingu.

Til athugunar: Eftir inntöku Postinor getur orðið bið á næstu tíðablæðingu eða hún komið fyrr en venjulega. Konum er ráðlagt að fara í kvenskoðun og í þungunarpróf 3 vikum eftir notkun lyfsins, hvort sem tíðablæðing hefur orðið eða ekki. Eftir notkun neyðargetnaðarvarnarinnar er ráðlagt að nota getnaðarvörn án hormóna (t.d. verjur, hettu eða þess háttar) þar til næsta tíðablæðing hefst.

Norlevo

Innihaldsefni: Levonorgestrelum 750 microg.

Umfjöllun: Norlevo er getnaðarvörn sem er notuð eftir samfarir, oft kölluð „daginn eftir pilla“. Ekki er hægt að fullyrða um öryggi þessarar getnaðarvarnar en það er þó minna en við notkun venjulegra getnaðarvarnartaflna. Norlevo er aðeins hugsuð í neyðartilvikum og hún er algerlega óviðeigandi sem almenn getnaðarvörn. Lyfið á ekki að nota oftar en einu sinni innan hvers tíðahrings og er eingöngu ætlað konum með reglulegar blæðingar.

Levónorgestrel er samtengt hormón með sömu áhrif í líkamanum og kvenhormónið prógesterón. Ekki er nákvæmlega vitað hvernig Norlevo virkar en gert er ráð fyrir að levónorgestrel komi í veg fyrir egglos og valdi breytingum á slímhúð legsins sem veldur því að frjóvguð eggfruma nær síður að hreiðra þar um sig. Leghálsslímið þykknar og sáðfrumur eiga erfitt með að komast upp leghálsinn.

Notkun: Taka skal 2 töflur í einu, eins fljótt og hægt er, helst innan 12 klukkustunda og ekki seinna en 72 klukkustundum eftir óvarðar samfarir. Kona sem kastar upp innan þriggja klst. eftir að hafa tekið töflurnar á strax að taka aðrar tvær töflur. Norlevo má taka hvenær sem er á tíðahringnum, ef konan er ekki komin fram yfir áætlaða tíðablæðingu.

Til athugunar: Eftir inntöku Norlevo getur orðið bið á næstu tíðablæðingu eða hún komið fyrr en venjulega. Konum er ráðlagt að fara í kvenskoðun og í þungunarpróf 3 vikum eftir notkun lyfsins, hvort sem tíðablæðing hefur orðið eða ekki. Eftir notkun neyðargetnaðarvarnarinnar er ráðlagt að nota getnaðarvörn án hormóna (t.d. verjur, hettu eða þess háttar) þar til næsta tíðablæðing hefst.

Mirena (hét áður Levonova)

Innihaldsefni: Levonorgestrel, losunarhraði 20 microg á sólahring.

Umfjöllun: Mirena nefnist “lykkjan” eða "hormónalykkjan" í daglegu tali. Levónorgestrel veldur breytingum á slímhúð legsins með þeim afleiðingum að frjóvguð eggfruma nær síður að hreiðra þar um sig. Leghálsslímið þykknar og sáðfrumur eiga erfitt með að komast upp leghálsinn.

Notkun: Mirena er sett upp í legið af lækni og getnaðarvörnin er virk í 5 ár. Konan þarf að koma í skoðun 4-12 vikum eftir uppsetningu og einu sinni á ári eftir það. Lykkjan er sett í legið innan 7 daga frá upphafi tíðablæðinga eða í fyrsta lagi 6 vikum eftir fæðingu barns. Óski konan eftir að nota sömu getnaðarvörn áfram að 5 árum liðnum má setja nýja lykkju upp á sama tíma og sú gamla er fjarlægð.

Hvenær veitir Mirena öryggi: Mirena er örugg getnaðarvörn frá fyrsta degi.

Til athugunar: Þegar lykkjan er sett upp eða fjarlægð geta í fyrstu komið fram verkir og blæðingar sem síðan líða hjá sé allt eðlilegt. Lykkjan hentar ekki konum sem ekki hafa eignast barn.

(Texti yfirfarinn í  október 2008; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).
  • Greinar
  • Spurt og svarað
Fimmtudagurinn 2. agúst 2007
Getnaðarvarnartöflur - "pillan"

Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingur Um þrjár megingerðir er ræða: - Einfasa getnaðarvörn - Tvífasa getnaðarvörn - Þrífasa getnaðarvörn. Þessar töflur fást venjulega sem 3*21 daga skamm...

Meira