R Öndunarfæra­lyf

Þessum flokki tilheyra lyf sem er ætlað að hafa áhrif á öndunarfærasjúkdóma og ofnæmi.

R Öndunarfæralyf

Þessum flokki tilheyra lyf sem er ætlað að hafa áhrif á öndunarfærasjúkdóma og ofnæmi.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Þessum flokki, öndunarfæralyfja, tilheyra lyf sem er ætlað að hafa áhrif á öndunarfærasjúkdóma og ofnæmi. Þar er að finna neflyf, astmalyf, ofnæmislyf og hósta- og kveflyf. Einnig eru hér lyf sem bæta lungnastarfsemi fyrirbura, en þau lyf eru eingöngu notuð innan veggja sjúkrahúsa. Nokkur mismunandi lyfjaform fyrirfinnast. Hin helstu eru nefdropar, nefúðalyf, mixtúrur, töflur, hylki, innúðalyf og innúðaduft. Astmalyfin skipa stærsta hópinn, bæði berkjuvíkkandi og bólgueyðandi astmalyf. Mörg lyfin, einkum háls-, nef-, hósta- og kveflyf, sem og nokkur ofnæmislyf, er hægt að nálgast án lyfseðils í apótekum.

Saga
Nokkur lyfin hafa þekkst í fjölda ára, eins og sum nef-, ofnæmis- og kveflyf svo og nokkur astmalyf. Önnur eru alveg ný. Þróun í astma- og ofnæmislyfja hefur verið hvað hröðust á undanförnum árum og þar hafa astmalyfin vinninginn. Mörg ný astmalyf og astmalyfjaform hafa komið fram undanfarið. Þau eru auðveldari í notkun og gefa nákvæmari og betri skömmtun en hin eldri. Almenn þekking á astma hefur aukist til muna síðustu ár, sömuleiðis kennsla og fræðsla um rétta notkun lyfjanna. Hvor tveggja á líka stóran þátt í árangursríkari meðferð á astmasjúklingum.

Sjá einnig undirflokka.

Verkunarmáti
Lyfin hafa ýmist beina verkun á öndunarfærin eða kerfisbundna verkun, og þá í þeim tilfellum þegar lyfið er tekið inn í töfluformi eða sem mixtúra. Astmalyf til innöndunar berast beint í lungun og hafa þar staðbundna verkun.

Sjá undirflokka.

Algengar aukaverkanir
Algengar aukaverkanir sem fylgja lyfjunum eru af ýmsum toga. Neflyfjum fylgja aukaverkanir sem lýsa sér í staðbundinni ertingu eða þurrki í nefi og hálsi ásamt óþægilegu bragði eða lykt. Oft kemur til dæmis hnerri strax á eftir nefúðun. Stórir skammtar skapa hættu á sveppasýkingu í nefi og koki. Langtímanotkun ákveðinna nefúðalyfja getur auk þess leitt til langvarandi bólgu í nefi og þess vegna á ekki að nota þau nema í skamman tíma í senn. Helstu aukaverkanir astmalyfja eru skjálfti, óþægilegur hjartsláttur og höfuðverkur. Hæsi og hósti geta gert vart við sig. Eftir notkun bólgueyðandi astmalyfja (steralyfja) til innöndunar kemur stundum sveppasýking í munn og kok. Nauðsynlegt er því að skola munn og kok vel með vatni eftir notkun lyfjanna. Öðrum lyfjum í þessum flokki, s.s. ofnæmis- og kveflyfjum, fylgja stundum aukaverkanir eins og munnþurrkur, þreyta, svimi, sljóleiki og óþægindi frá meltingarvegi.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Mikilvægt er að fylgja vel leiðbeiningum um notkun lyfjanna, hvort sem um er að ræða leiðbeiningar frá lækni eða leiðarvísi lausasölulyfja.

Rétt notkun astmalyfja er sérstaklega þýðingarmikil og í upphafi á að fá góða kennslu í því hvernig eigi að nota þau. Astmalyfin eru til í ýmsum lyfjaformum og þeim fylgir hjálpartæki, svonefndir úðabelgir, sem fást bæði fyrir börn og fullorðna. Nauðsynlegt er að skola munn og kok vel með vatni eftir að bólgueyðandi astmalyf (steralyf) hafa verið tekin til innöndunar til að koma í veg fyrir sveppasýkingu í munni og koki. Best er að nota berkjuvíkkandi astmalyfin á undan þeim bólgueyðandi, séu þau notuð saman á annað borð. Þá komast þau síðarnefndu betur ofan í lungun og hafa þar af leiðandi kröftugri áhrif.

Sjá einnig undirflokka.

Hvað ber að varast
Langtímanotkun ákveðinna neflyfja getur leitt til langvarandi bólgu í nefi og þess vegna á ekki að nota þau lengur en í 10 daga í senn. Lesa ætti því fylgiseðil lyfjanna ávallt vel.

Mörg lyfin hérna eru merkt með rauðum aðvörunarþríhyrningi sem segir það að þau hafi slævandi áhrif. Þeim sem í hlut eiga ber skylda að taka mark á slíkum merkingum og gæta fyllstu varúðar við akstur bifreiða og stjórnun annarra vélknúinna ökutækja. Þetta á þó alltaf við því ekki eru öll lyf sem geta haft slævandi áhrif merkt með rauðum þríhyrningi.

Sum lyf, eins og nokkur hjartalyf, geta valdið hósta og hann þarf að greina frá öðrum hósta. Þeir sem hafa greinst með gláku og eru illa haldnir af þvagtregðu eiga að forðast lyf í þessum flokki, einkum og sér í lagi ofnæmislyf (R06).

Sjá einnig undirflokka.

Undirflokkar
Allur texti hér á undan á við öll lyf í þessum flokki. Allt sem á sérstaklega við einstaka undirflokka kemur hér á eftir:

R01 Neflyf

Neflyf eru í fyrsta undirflokki öndunarfæralyfja. Þeim er ætlað að vinna á nefstíflu, nefrennsli, kláða og bólgur í nefi, bæði árstíðabundnar og langvinnar ofnæmisbólgur í nefi. Einnig flokkast hér lyf við aukinni slímmyndun í nefi, kinnholum og nefkoki. Sum lyfin má nota í stuðningsmeðferð við miðeyrnabólgu ef hún stafar af stíflu í kokhlust.

Verkunarmáti lyfjanna er margvíslegur. Einhver lyf valda því að æðar í nefslímhúðinni dragast saman. Við það minnka bólgur í henni og það dregur úr slímmyndun. Önnur lyf hindra það að bólguvaldandi efni úr mastfrumum losna og koma með þeim hætti í veg fyrir ofnæmisviðbrögð. Nokkur lyfin hindra áhrif histamíns í líkamanum, en histamín er boðefni sem veldur helstu einkennum ofnæmis. Sum lyfin eru svokallaðir barksterar, en þeir bæla myndun efna sem framkalla bólgur og virkja ónæmiskerfið. Barkasterar hafa almennt sömu áhrif og svokallaðir sykursterar sem myndast í nýrnaberki. Þá fyrirfinnast lyf sem draga úr bólgum í nefi og slá á einkenni nefkvefs, óháð því hvort sjúkdómurinn er af völdum ofnæmis eða ekki. Margir barksterar eru líka notaðir í astmalyf (flokkur R03) og húðlyf (flokkur D07). Enn finnast lyf í þessum flokki sem eru bæði notuð til meðferðar og til að fyrirbyggja ofnæmisbólgur í nefslímhúð.

Varast ætti að nota sum lyfin lengi og ekki þykir ráðlegt að hafa þau um hönd lengur en í tíu daga í senn vegna hættu á langvarandi bólgu í nefi. Þetta er mismunandi á milli lyfja og því ætti alltaf að lesa vel fylgiseðla lyfjanna.

R02 Hálslyf

Til þessa annars undirflokks falla sýklaeyðandi lyf til staðbundinnar meðferðar á vægum sýkingum í munni og hálsi.

R03 Lyf við teppusjúkdómum í öndunarvegi

Í þessum þriðja undirflokki eru astmalyf, notuð við astma og langvinnri berkjubólgu með eða án lungnaþembu. Verkun astmalyfja er mismunandi og þau er að finna í ýmsum formum, flest lyfjanna eru þó annað hvort innúðalyf eða innúðaduft.

Astmi er algengur öndunarfærasjúkdómur, bæði hjá börnum og fullorðnum. Hjá astmasjúklingum er slímhúðin í lungnaberkjunum viðkvæm fyrir ertingu og hún bólgnar auðveldlega upp við áreiti og gefur um leið frá sér aukið slím. Um leið getur krampi komið fram í vöðvanum sem liggur utan um berkjurnar. Þetta samspil bólgu og vöðvasamdráttar veldur astmaeinkennunum og loftið á erfiðara um vik að streyma inn og út um lungun. Margvíslegar orsakir liggja að baki astmaeinkennum. Þau verða til dæmis til vegna þess að einstaklingar hafa ofnæmi fyrir ýmsu, s.s. rykmaurum eða köttum, eða þá að tóbaksreykur og sterk lykt kalla á ofnæmið. Líkamleg áreynsla getur orðið ofnæmisvaldur, auk þess sem astmaeinkenni geta komið fram í kjölfar sýkinga í öndunarfærum eða kvefs. Slíkar veirusýkingar í öndunarfærum og hálsi eru til að mynda algengasta orsök astma hjá litlum börnum. Astmasjúklingar geta reynt að forðast ýmislegt í umhverfinu sem veldur astmaköstum, en oftast nægir það ekki og lyfjameðferð reynist óhjákvæmileg. Helstu markmið með meðferð við astma eru þau að fyrirbyggja astmaköst og gera einstaklingum kleift að lifa eðlilegu lífi.

Astmalyfin skiptast í nokkra undirflokka. Fyrsta má telja lyf til innúðunar og þau hafa berkjuvíkkandi áhrif. Hér er um að ræða lyf sem valda vöðvaslökun í lungnaberkjum, víkka með því móti öndunarveginn og það gerir öndun auðveldari um vik. Sum lyfin eru skjótvirk, þau slá fljótt á astmaeinkennin en hafa að öðru leyti ekki áhrif á sjálfan sjúkdóminn. Þau eru því aðeins notuð við astma eftir þörfum. Önnur lyf eru langvirk og þau henta því alls ekki sem neyðarlyf við astmaeinkennum heldur í stuðningsmeðferð, ásamt bólgueyðandi astmalyfjum, við langvinnum og erfiðum astmasjúkdómi. Berkjuvíkkandi lyfin eru líka til í töflum, mixtúru og sem stungulyf og þá hafa þau almenna verkun en ekki staðbundna eins og innúðalyfin. Þessi lyf gætu til dæmis hentað vel sjúklingum sem vakna upp á nóttunni vegna astmaeinkenna.

Annar undirflokkur astmalyfja til innúðunar hefur að geyma svonefnda barkstera. Um er að ræða lyf sem bæla myndun á efnum sem framkalla bólgur og virkja ónæmiskerfið. Barksterar hafa almennt sömu áhrif og svokallaðir sykursterar sem myndast í nýrnaberki. Þessi lyf draga úr flæði á bólgueyðandi efnum til lungna með þeim afleiðingum að bólgur í loftvegum og lungum hjaðna eða hverfa alveg. Með þessu móti slá þau á astmaeinkenni, óháð því hvort sjúkdómurinn er af völdum ofnæmis eða ekki. Lyfin eru notuð þegar um erfiðan sjúkdóm eða viðvarandi einkenni er að ræða, og þá yfirleitt sem fyrirbyggjandi viðhaldsmeðferð.

Berkjuvíkkandi og bólgueyðandi astmalyf eru oft notuð saman og er þá best að nota berkjuvíkkandi astmalyfin á undan þeim bólgueyðandi. Þá komast hin síðarnefndu betur ofan í lungun og hafa kröftugri áhrif.

Berkjuvíkkandi og bólgueyðandi lyf er einnig að finna saman í einu lyfi, sem nefnist samsett lyfjameðferð. Lyfið er ekki ætlað til upphafsmeðferðar á astma, heldur er það notað til meðferðar á astma þegar ekki næst nægilega góð stjórn á sjúkdómnum með því að nota bólgueyðandi lyf og berkjuvíkkandi eftir þörfum.

Í þriðja undirflokki má að lokum finna lyf sem vinna gegn astmaeinkennum með því að draga úr áhrifum ákveðinna boðefna í líkamanum, eða þeirra sem valda astma þegar þau verða of virk, t.d. vegna ofnæmis. Þessi lyf hafa að auki bólgueyðandi áhrif. Lyfin henta best við hefðbundnum astma svo og astma af völdum áreynslu eða ofnæmis. En þau eru seinvirk og vegna þessa eru þau ekki notuð við bráðum astmaköstum, miklu frekar til að fyrirbyggja astma og í viðhaldsmeðferð. Lyfin eru til í töflum og þau geta einfaldað viðhaldsmeðferð þegar innúðalyf hentar sjúklingi illa og auk þess í viðbótarmeðferð hafi önnur astmalyf ekki borið fullnægjandi árangur.

R05 Hósta- og kveflyf

Þessum fjórða undirflokki tilheyra hóstastillandi og slímlosandi lyf, ásamt blöndum þeirra og ennfremur andhistamínlyf (ofnæmislyf). Slímlosandi lyfin minnka seigju slíms og eru aðallega notuð við langvinnri berkjubólgu og berkjuútvíkkun með seigri slímmyndun. Hóstastillandi lyfin eru oft í blöndu með andhistamínum, saman hafa þau ofnæmishemjandi verkun og eru notuð við þurrum hósta án slímmyndunar.

Hósti er taugaviðbragð sem verður til vegna ertingar í koki eða annars staðar í öndunarveginum og það er líkamanum eðlislægt að hreinsa slím, framandi agnir eða ertandi efni úr öndunarveginum. Í raun réttu ætti ekki að reyna að draga úr hóstaviðbragðinu með lyfjum, en sé hóstinn þurr, harður og ertandi eða raskar jafnvel nætursvefni geta þau komið að góðum notum. Sum lyf geta valdið hósta, t.d. nokkur hjartalyf, og hann verður að kunna að að greina frá öðrum hósta. Mörg lyfin í þessum flokki fást án lyfseðils í apótekum.

R06 Andhistamínlyf til altækrar notkunar

Í þessum fimmta undirflokki eru svokölluð ofnæmislyf og þau eru notuð til að vinna á móti ýmsum ofnæmisviðbrögðum, svo sem árstíðabundnu ofnæmiskvefi og ofnæmisbólgum í nefi, útbrotum og kláða, þar á meðal langvinnum ofsakláða, ofsabjúgi, lyfjaútbrotum, snertiofnæmi, skordýrabiti o.fl. Hérna flokkast líka lyf sem hafa áhrif á ógleði og uppköst og eru notuð við ferðaveiki, s.s. sjóveiki, bílveiki og flugveiki. Sum lyfin í flokkinum má nota sem svefnlyf og róandi lyf.

Verkunarmáti flestra lyfjanna sem hér hafa verið talin er að blokka svonefnd histamín H1-viðtæki. Á þann hátt hindra lyfin að histamínið hafi áhrif, en histamín er það efni sem veldur helstu einkennum ofnæmis í líkamanum.

Flest lyfin hérna eru merkt með rauðum aðvörunarþríhyrningi. Það þýðir að gæta þurfi varúðar við akstur bifreiða og stjórnun annarra vélknúinna ökutækja við notkun þeirra. Ekki er algilt að lyf sem geta haft áhrif á árverkni séu merkt með rauðum þríhyrningi og því skal alltaf fylgjast með áhrifum nýrra lyfja fyrstu dagana af inntöku.

Mörg lyfin fást í takmörkuðu magni án lyfseðils í apótekum. Þeir sem hafa greinst með gláku og eru illa haldnir af þvagtregðu eiga að forðast lyf í þessum undirflokki.

R07 Önnur öndunarfæralyf

Þessum sjötta undirflokki tilheyra lyf sem lækka yfirborðsspennu í lungnablöðrum. Það gerir það að verkum að lungnablöðrurnar haldast betur opnar og lungnastarfsemi eykst til muna. Lyf þessi eru einkum notuð í meðferð á öndunarerfiðleikum hjá fyrirburum, en líka sem fyrirbyggjandi meðferð hjá fyrirburum sem eru taldir vera í mikilli hættu á að fá öndunarerfiðleika. Lyfin eru eingöngu notuð á sjúkrahúsum og af sérfræðingum í barnalækningum.


Nýjungar

Kappkostað er að finna sérhæfðari lyf en nú eru til og að einfalda lyfjagjöf í lyfjaheiminum í dag, sérstaklega hvað viðkemur astmalyfjum. Með því að komast að nákvæmri orsök sjúkdóms í öndunarfærum gefur það auga leið að hægara er um vik að þróa lyf með öfluga, sérhæfða verkun og nota á sjúkdóminn. Á markaðinn eru sífellt að bætast við ný lyf, astmalyf sem önnur. Lyfjunum fylgir oft breytt form, lyfjaform sem er æ auðveldar að nota, enda leggja þau sitt af mörkum til að gera lyfjameðferðina nákvæmari en ella. Yfirlýst markmið er að gefa sjúklingum lyf sem sjaldnast, með því má ná fram betri meðferðarfylgni hjá þeim og um leið skilar lyfjameðferðin betri árangri.