S Augn- og eyrnalyf

Öll lyf sem fara í augu og eyru flokkast hérna. Þetta eru dropar og smyrsli sem borin eru beint í augu og eyru.

S Augn- og eyrnalyf

Öll lyf sem fara í augu og eyru flokkast hérna. Þetta eru dropar og smyrsli sem borin eru beint í augu og eyru.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Öll lyf sem fara í augu og eyru flokkast hérna. Þetta eru dropar og smyrsli sem borin eru beint í augu og eyru. Hér er að finna augnlyf við gláku, ofnæmi og verkjum, lyf notuð fyrir og eftir aðgerðir, lyf við bólgum og sýkingum og gervitár. Eyrnalyf eru við exemi í hlust, verkjum, sýkingum og bólgum, svo að eitthvað sé nefnt.

Saga
Atrópín var einangrað úr plöntunni Atropa belladonna 1832 og var þá fyrst notað í augu í lækningaskyni. Lyfið víkkar ljósopið í auganu og er notað við gláku, en sé það gefið í æð eykur það hjartslátt og slakar á sléttum vöðvum. Núna, tæpum 200 árum eftir að lyfið var fyrst notað, stendur það ennþá fyrir sínu og er þó nokkuð algengt, bæði sem glákulyf og vegna áhrifa þess á hjarta og slétta vöðva.
Pílókarpín er annað lyf og á, eins atrópín, langa sögu að baki. Það var einangrað úr Pilocarpus tegund 1875 og tveimur árum síðar kom í ljós að hægt væri að nota efnið til að minnka þrýsting í auga. Allar götur síðan hefur pílókarpín verið notað við gláku og með góðum árangri. Úrval glákulyfja er fjölbreytt nú til dags og þótt nýrri lyfin hafi komið að einhverju leyti í staðinn fyrir pílókarpín og atrópín standa þau ennþá fyllilega fyrir sínu. Þróun lyfja við kvillum í augum og eyrum helst í hendur við þróun annarra lyfja, s.s. sýkla- og húðlyfja, sem ætluð eru við sömu kvillum en annars staðar í líkamanum. Hérna er þó undanskilin meðferð við gláku.

Verkunarmáti
Lyfin hafa áhrif á augu og/eða eyru. Verkun þeirra er mjög staðbundin sem segir það að lyfin hafi lítil sem engin áhrif annars staðar í líkamanum. Þar sem lyfin koma öll hvert úr sinni áttinni er ekki um að ræða einn ákveðinn verkunarmáta sameiginlegan öllum lyfjunum, heldur hefur hvert þeirra sinn háttinn á með verkun.

Til að minnka pirring og sviða sem augndropum fylgir eru þeir látnir vera með sama saltstyrk og táravökvi. Þá kallast þeir ísótónískir.

Sjá undirflokka.

Algengar aukaverkanir
Aukaverkanir eru ekki algengar af þessum lyfjum og eru þær oftast lítilvægar ef þær koma upp. Einna helst ber þá á sviða, roða og ertingu og einnig ofnæmi fyrir lyfjunum hefur líka gætt. Augndropar geta valdið þokusýn eða annarri brenglun á sjón á meðan á notkun stendur.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Þegar augndropar eru gefnir er ágætt að halla aftur höfðinu og toga gætilega neðra augnlokið út á við. Droparnir eru þá látnir drjúpa í augað og forðast á að snerta stútinn á glasinu. Þegar lokið er við að dreypa í augu er ráðlagt að þrýsta létt á innri augnkrók með fingurbroddi til að varna því að droparnir renni niður í nefið um táragöngin.

Augndropar, utan gervitára, eru almennt ekki seldir í lausasölu vegna þess hversu viðkvæm augun eru. Áður en meðferð hefst með dropum verður að liggja fyrir greining á því hvað ami að.

Við gjöf á eyrnadropum hefur það borið góðan árangur að liggja á hlið og snúa veiklaða eyranu upp og síðan eru eyrnadroparnir látnir drjúpa inn í hlustina. Eftir lyfjagjöfina er ráðlegt að liggja kyrr í um 30 sekúndur á meðan lyfið dreifist inn um eyrnaganginn. Þurfi að meðhöndla bæði eyrun er farið eins að með hitt eyrað. Oft er mælt með því að væta bómull með lyfinu og setja að síðustu fyrir eyrnaganginn, en slíkar ráðleggingar fara eftir því um hvaða lyf er að ræða.

Hvað ber að varast
Ekki má láta endann á dropateljaranum snerta augað eða augnumgjörðina. Augndropar geta mengast af bakteríum og þær valdið sýkingum í augum sé ekki rétt að farið. Notkun mengaðra augndropa veldur alvarlegum skemmdum á augum og gæti leitt til blindu. Flest augn- og eyrnalyf eru rotvarin en þrátt fyrir það er ekki æskilegt að nota lyfin lengur en í 1 mánuð eftir að umbúðir lyfjanna hafa verið rofnar. Þegar meðhöndlaðar eru augn- og eyrnasýkingar er mikilvægt að halda meðferð áfram í tvo daga eftir að einkenni hverfa. Oft getur sýkingin enn verið til staðar þótt sjúklingur sé orðinn einkennalaus. Sýkingin gæti þá blossað aftur upp sé hætt of snemma að taka lyfin. Margir hafa ofnæmi fyrir rotvarnarefnum og í slíkum tilfellum er mikilvægt að láta lækni vita af því til þess að honum gefist tóm til að velja lyf sem inniheldur ekki rotvörn. Rotvörnina benzalkonklóríð er að finna í mörgum augnlyfjum og hún skemmir linsur.

Undirflokkar

S01 Augnlyf

Flokkurinn er sundurleitur og á það eitt sameiginlegt að lyfin eru öll fyrir augu. Hér er að finna sýklalyf, veirulyf, barkstera, bólgueyðandi lyf, ljósopsvíkkandi lyf, glákulyf, ofnæmislyf ásamt gervitárum.

Sýklalyf og veirulyf eru sett beint í auga til að vinna á sýkingum. Til eru margar gerðir sýklalyfja, öll mismunandi breiðvirk. Lyf er valið með tilliti til þess hvers eðlis sýkingin er og hvaða tegund baktería eða veira veldur sýkingunni. Sýklalyfin hafa ólíkan verkunarmáta eftir því hvaða tegund af lyfi á í hlut, en þau verka á tvennan hátt. Annað hvort drepa þau bakteríuna eða þau hamla vöxt hennar. Einungis eitt veirulyf er á markaði hérna og það er notað við Herpes sýkingum. Það kemur til af því að sýkingar af völdum veira eru mun óalgengari en sýkingar af völdum baktería. Batamerki sjást mjög skjótt eftir að byrjað er að meðhöndla augnsýkingar, það tekur yfirleitt ekki nema 2-3 daga að ná bata. Sýkla- og veirulyf eru tiltölulega laus við aukaverkanir og þau eru örugg í notkun. Helst má nefna sviða og roða í augum.

Barksterar eru notaðir við bólgusjúkdómum í augum, eins og eftir áverka eða vegna ofnæmiseinkenna. Þá má ekki nota eingöngu sé augnsýking til staðar af því að þá getur sýkingin blossað upp af meiri krafti en áður. Til eru blöndur barkstera og sýklalyfja og til þeirra er gripið í þeim tilvikum þegar sýking og bólga fara saman, en líka sé aðeins um bólgu að ræða og hætta er á sýkingu. Barksterar bæla myndun á efnum sem kalla fram bólgur og þeir virkja ónæmiskerfið. Almennt hafa þeir sömu áhrif og svokallaðir sykursterar sem myndast í nýrnaberki. Lyf þessi draga úr flæði á bólgumyndandi efnum til augnanna og bólgan í augunum minnkar. Þá hafa lyfin, auk bólgueyðandi áhrifa, kláðastillandi og ofnæmishemjandi verkun. Augnlyf, sem innihalda barkstera, geta orðið þess valdandi að þrýstingur í auganu hækkar. Þegar slík lyf eru notuð til langs tíma ætti að fylgjast vel augnþrýstingi.

Bólgueyðandi lyf eru notuð í augu til að bólgur hjaðni eftir augnaðgerðir, en þau eru líka sem fyrirbyggjandi meðferð fyrir aðgerðir. Langvinnar bólgur og verkir í auga þar sem ekki er um sýkingu að ræða, eru líka meðhöndlaðar með bólgueyðandi lyfjum og oft getur meðferð varað lengi. Bólgueyðandi lyf stöðva framleiðslu á bólgumyndandi prostaglandínum, en prostaglandín verður til þegar vefur verður fyrir áreiti. Aukaverkanir fylgja lyfjunum. Þær eru sviði í auga, þokusýn, sem varir í skamman tíma eftir lyfjagjöf og ljósfælni.

Gláka er sjúkdómur í sjóntauginni sem einkennist af hækkuðum augnþrýstingi og skemmdum í sjóntaug og sjónsviði. Gláka er ein aðal orsök blindu í heiminum og er næst algengasti blinduvaldandi sjúkdómur á Íslandi. Því er mjög mikilvægt að greina og meðhöndla gláku. Í flestum tilfellum er hægt að koma í veg fyrir alvarlega sjónskerðingu og blindu af hennar völdum. Mörg lyf eru skráð og í notkun hér á landi við gláku. Sum þeirra hafa verið á markaði og í notkun lengi, eins og pílókarpín, en önnur eru alveg ný. Hin nýrri eru meira í notkun núna en oftar en ekki hefur þurft að grípa til eldri lyfjanna náist ekki fullnægjandi árangur með þeim nýrri eða að þau sé ekki hægt að nota einhverra ástæðna vegna. Nýjustu lyfin á markaðnum þarf einungis að gefa einu sinni á dag og það þykir mikill kostur þar sem hin eldri lyf eru gefin frá tvisvar og allt upp í 5 sinnum á dag. Lyfin stuðla þó öll að lækkuðum augnþrýstingi og það gera þau með því að minnka framleiðslu á augnvökva eða auka frárennsli hans úr auganu með einum eða öðrum hætti. Svokölluð samlegðaráhrif nást sé fleiri en eitt lyf notað samtímis sem ekki hafa sama verkunarmáta. Í lækningu á gláku hefur það gefið góða raun að nota fleiri en eina tegund dropa í einu, og á markaðinum er að finna ýmsar blöndur glákulyfja. Helstu aukaverkanir glákulyfja eru erting í auga, sviði og bólga. Sjóntruflana getur orðið vart, eins og þokusýnar, sjónstillingarvandræði og náttblindu ásamt höfuðverk, þreytu og ofnæmi fyrir lyfjunum. Augnlitur getur breyst í sumum tilfellum. Fyrir augnaðgerðir og við augnskoðun, þar sem viðkomandi má ekki hreyfa augun, eru gefnir augndropar sem víkka ljósop og valda sjónstillingarlömun, augnvöðvarnir lamast tímabundið og ekki er hægt að hreyfa augað. Hafa ætti í huga að áhrif þessara augndropa gætir í einhverjar klukkustundir og allt að sólarhring eftir aðgerð og bannað er að aka bifreið á meðan áhrifa lyfsins gætir.

Ofnæmisviðbrögð í augum er nokkuð algengt vandamál og er helsta orsök þess frjókornaofnæmi, en ofnæmi fyrir öðru, s.s. ryki eða dýrum, geta líka komið fram í augum. Ofnæmið lýsir sér í blóðhlaupnum augum, tárarennsli og kláða. Oft dugar að meðhöndla ofnæmið með augndropum, en droparnir eru líka oft notaðir samhliða annarri meðferð. Best er að taka ofnæmislyf fyrirbyggjandi þegar vitað er um ofnæmisvaldinn nærri og koma með þeim hætti í veg fyrir ofnæmisviðbrögð. En að sjálfsögðu er líka hægt að taka lyfin eftir að einkennin hafa komið í ljós og stuðla með því að bata. Verkunarmáti flestra lyfjanna er að blokka svonefnda histamín H1-viðtaka. Á þann hátt hindra lyfin áhrif histamíns, en histamín er það efni sem veldur helstu einkennum ofnæmis í líkamanum. Einnig eru til ofnæmislyf sem hindra losun á histamíni úr frumum svo að ofnæmiseinkenni koma ekki fram og líka lyf með æðaherpandi verkun sem minnka tárarennsli og bólgu. Barkstera má líka nota við ofnæmi, þeir draga úr bólgum og hemja ofnæmið. Ofnæmislyf eru tiltölulega laus við aukaverkanir. Helst væri hægt að nefna ofnæmi fyrir lyfjunum eða ertingu í augunum í stuttan tíma eftir að lyfin hafa verið gefin.

Það sem oft er kallað augnþreyta lýsir sér gjarnan með særindum, sviða og kláða og stafar oft á tíðum af augnþurrki. Helsta orsök þurrks í augum er skortur á táravökva og við honum er hægt að stemma stigu við með gervitárum.

Gervitár innihalda ekki virk efni heldur vatnsleysanlegar fjölliður, þær valda ekki ertingu en eru rakagefandi og mýkjandi fyrir yfirborð augans. Til eru nokkrar gerðir gervitára sem eru misseig. Því seigari sem droparnir eru því lengur haldast þeir í augunum, en það dregur dilk á eftir sér af því að þá er hættara við ertingu af þeirra völdum. Hægt er að fá allar gerðir gervitára í lausasölu bæði með og án rotvarnar. Sár á hornhimnu geta komið vegna linsunotkunar, bruna eða af öðrum ástæðum. Þau þarf sérstaklega að meðhöndla leiki hætta á hornhimnuskemmdum af þeirra völdum. Græðandi smyrsli eru þá borin í auga sem flýta fyrir því að sárin grói. Óþol með augnkláða og verkjum gætu komið í kjölfarið.

S02 Eyrnalyf

Eyrnalyf á markaðnum eru mun færri en augnlyfin. Flokkurinn samanstendur af blöndum sýklalyfja og staðdeyfandi lyfja, sýklalyfja og barkstera ásamt verkjalyfjum. Þessi lyf eru meðal annars notuð við miðeyrnabólgu, hljóðhimnubólgu, sýkingu í hlust og exemi í eyra.

Sýklalyf í blöndum með barksterum eru notuð við bólgum og exemi í hlust þar sem sýking er til staðar eða hætta er á sýkingu. Barksterar bæla myndun á efnum sem virkja ónæmiskerfið og framkalla bólgur og barksterarnir hafa almennt sömu áhrif og sterahormón sem myndast í nýrnahettunum. Barksterar eru notaðir við ýmsum húðkvillum, s.s. til að draga úr bólgu í húð, við exemi og psoriasis, og líka við ofnæmisútbrotum og kláða í húð.

Staðdeyfilyf ásamt sýklalyfjum deyfir sýkt svæði og slær á pirring og verki í eyranu. Staðdeyfilyf hindra það að taugar sendi frá sér boð og með þeim hætti koma þau í veg fyrir það að boð um sársauka berist frá deyfða vefnum.

Lyf í eyru eru að mestu laus við aukaverkanir, en þó ber að nefna ofnæmi fyrir innihaldsefnum svo og sviða sem gæti fylgt lyfjagjöf.

S03 Augn- og eyrnalyf, blönduð lyf

Sum lyf eru þannig úr garði gerð að þau má nota bæði í augu og eyru. Hér er um að ræða barkstera og barkstera í blöndu með sýklalyfjum. Hið sama gildir um þessi lyf og lyfin í flokkum S01 og S02.