Af hverju fáum við rúsínuputta?

Almenn fræðsla Húð

Náttúruleg olía sem kallast sebum þekur húð okkar. Olían er framleidd í fitukirtlum sem liggja nálægt hársekkjunum. Sebumolían verndar húðina, gefur henni raka og gerir hana vatnshelda ef svo má að orði komast.

Ef við erum lengi í heitu eða köldu baði skolast sebumolían af. Þá er yfirborð húðarinnar ekki lengur vatnshelt og vatnið hefur greiðan aðgang að ystu lögum húðarinnar. Þetta ferli kallast osmósuflæði. 

Eftir langt bað líta puttar og tær út eins og rúsínur vegna þess að húðin hefur drukkið í sig vatn líkt og svampur. Vatnið sem kemst inn í húðina eftir að sebumolían hefur verið skoluð af veldur því að húðin bólgnar sumstaðar og verður hrukkótt. Fyrst verða þó húðin á lófum og iljum hrukkótt því að þar vantar kirtla sem gefa frá sér serbumolíu. Húðin á fingrunum verður hins vegar ekki eins og sveskjur þegar við förum í stutta sturtu, þvoum okkur um hendurnar eða erum úti í rigningu því töluverðan langan tíma þarf til þess að þvo sebumolíuna alla af sér.

Greinin fengin af Vísindavefunum.

Mynd: Fredrick Suwandi frá Unsplash