B1-vítamín

Vítamín

  • B1-vitamin

B1-vítamín, eða Tíamín, er að finna í flestum próteinríkum fæðutegundum, þó aðallega í kjöti, heilhveiti, rúgmjöli og öðrum kornmat.
Meginhlutverk tíamíns tengist nýtingu kolvetna og orkumyndun.

Heiti
Tíamín, thiamine, aneurin, anti-neuritic-vitamin.

Uppspretta
Tíamín er að finna í flestum próteinríkum fæðutegundum, þó aðallega í kjöti, heilhveiti, rúgmjöli og öðrum kornmat. Tíamín skemmist við suðu.

Verkun
Meginhlutverk tíamíns tengist nýtingu kolvetna og orkumyndun. Tíamín tekur þátt í nokkrum lykilefnahvörfum sem fram fara í taugavef, hjarta, við myndun rauðra blóðkorna og efnahvörfum sem tengjast viðhaldi sléttra og rákóttra vöðva. Frumur taugakerfisins nærast einkum á kolvetnum og þær eru háðar tíamíni til þess að geta notað kolvetnið sem orkugjafa. Taugafrumurnar verða þess vegna fyrst og mest fyrir barðinu á tíamínskorti.

Notkun - verkun

  • Fælir burt flugur og önnur skordýr vegna þess hve lyktarsterkt það er.
  • Við tíamínskorti.
  • Gagnast í meðferð þegar um er að ræða sérstaka tegund blóðleysis.
  • Vitað er um ákveðnar truflanir í taugakerfi sem geta orsakast af tíamínskorti.
  • Rannsóknir hafa sýnt að í sumum tilfellum hefur hjartaáfall stafað af svæðisbundnum tíamínskorti í hjartanu.


Ráðlagðir dagskammtar

Ungabörn < 6 mán   ---
Ungabörn 6-11 mán 0,4 mg*
Ungabörn 12-23 mán 0,5 mg
Börn 2-5 ára 0,6 mg
Börn 6-9 ára 0,9 mg
Karlar 10-13 ára 1,1 mg
Karlar 14-30 ára 1,4 mg
Karlar 31-60 ára 1,3 mg
Karlar > 60 ára 1,2 mg
Konur 10-13 ára 1,0 mg
Konur 14-17 ára 1,2 mg
Konur 18-60 1,1 mg
Konur > 60 ára 1,0 mg
Konur á meðgöngu 1,5 mg
Konur með barn á brjósti 1,6 mg

mg = milligrömm

B 1-vítamín skortur
Fyrstu einkenni eru þreyta, lystarleysi og einbeitingarskortur. Önnur einkenni eru truflanir í taugakerfi, meltingarkerfi og hjarta- og æðakerfi. Á Vesturlöndum eru alvarleg einkenni sem hafa komið fram vegna skorts á tíamíni fátíð. Skortur á vítamíninu sem nær til taugakerfisins hefur áhrif á hvort tveggja, úttauga- og miðtaugakerfið (skammstafað ÚTK og MTK). Frá ÚTK geta einkennin birst í ýmsu eða allt frá skyntruflunum til lömunar en helstu einkenni frá MTK eru slen og minnisleysi. Áhrif tíamínskorts á meltingarkerfið lýsir sér í lystarleysi og hægðartregðu. Áhrif tíamínskorts á hjarta og æðakerfi getur verið lækkaður blóðþrýstingur, hraður hjartsláttur og hjartsláttartruflanir. Óhófleg áfengisneysla getur orsakað tíamínskort og valdið svokölluðum Wernicke-Korsakoff sjúkdómi sem lýsir sér meðal annars í sjóntruflunum, trufluðum augnhreyfingum, truflun á andlegu jafnvægi og skertu skammtímaminni.

B 1-vítamín eitrun
Vítamínið er vatnsleysanlegt og því eru eitranir af völdum þess óþekktar.

Aukaverkanir
Aukaverkanir af tíamíni eru afar fáar því það er vatnsleysanlegt og skilst því greiðlega út úr líkamanum. Ofnæmi gegn tíamíni er þekkt.

Milliverkanir

  • Sýrubindandi lyf 
  • Ýmis sýklalyf 
  • Getnaðarvarnartöflur geta framkallað tíamínskort 
  • Alkóhól hindrar frásog og eyðir tíamínbirgðum í líkamanum 
  • Önnur efni, eins og östrogen, koffein og önnur efni í kaffi, vinna gegn tíamíni og geta í framhaldi af því valdið skorti og einkennum sem honum fylgja.

Frábendingar
Engar þekktar.

Heimildir
H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 31-34.

R. Marcus, A. M. Coulson. Water-soluble vitamins, the Vitamin B Complex and Ascorbic Acid. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill, New York. Bls. 1555-1558.

www.landlaeknir.is

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.

(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).