B2-vítamín

Vítamín

  • B2-vitamin

B2-vítamín, eða Ríbóflavín, frásogast vel úr fæðu að öllu jöfnu en einungis 15% þess nær að frásogast sé vítamínsins neytt í töfluformi á fastandi maga. 

Heiti
Ríbóflavín, laktóflavín, G-vítamín.

Uppspretta
Ríbóflavín frásogast vel úr fæðu að öllu jöfnu en einungis 15% þess nær að frásogast sé vítamínsins neytt í töfluformi á fastandi maga. Takmarkað magn ríbóflavíns er geymt í líkamanum, einkum í lifur, hjarta og nýrum. Fæðutegundir sem innihalda mest af ríbóflavíni eru mjólk, mjólkurafurðir, lifur, grænmeti, ávextir og brauð. Ríbóflavín er hitaþolið svo að lítið tapast af því við suðu matvæla.

Verkun

  • Orkumyndun. Ríbóflavín tekur þátt í efnahvörfum frumna sem hjálpa við að losa orku úr fitu, kolvetnum og próteinum. 
  • Áhrif á augu. Ríbóflavín er nauðsynlegt augunum. Það ver augun fyrir útfjólubláum geislum og tekur þátt í að stjórna ljósmagninu inn í augun.

Notkun - verkun

  • Við ríbóflavínskorti. 
  • Til að fyrirbyggja skort á ríbóflavíni.


Ráðlagðir dagskammtar

Ungabörn < 6 mán   ---
Ungabörn 6-11 mán 0,5 mg*
Ungabörn 12-23 mán 0,6 mg
Börn 2-5 ára 0,7 mg
Börn 6-9 ára 1,1 mg
Karlar 10-13 ára 1,3 mg
Karlar 14-17 ára 1,7 mg
Karlar 18-30 ára 1,6 mg
Karlar 31-60 ára 1,5 mg
Karlar 61-74 ára 1,4 mg
Karlar >75ára 1,3 mg
Konur 10-13 ára 1,2 mg
Konur 14-17 ára 1,4 mg
Konur 18-30 ára 1,3 mg
Konur >31 ára 1,2 mg
Konur á meðgöngu 1,6 mg
Konur með barn á brjósti 1,7 mg

*mg = milligrömm

Eftir því sem líkaminn eyðir meira af orku því meira þarfnast hann ríbóflavíns og það segir að þörfin fyrir ríbóflavín er í réttu hlutfalli við orkuþörf líkamans.

B 2-vítamín skortur
Alkóhólistar eru í áhættuhópi hvað varðar ríbóflavínskort. Skortur á ríbóflavíni hefur aðallega áhrif á húð og slímhúð. Einkenni ríbólflavínskorts eru m.a. blóðhlaupin augu og augnþreyta. Önnur einkenni eru særindi í hálsi, sprungur í munnvikum og á vörum auk sárrar tungu, exem á andliti og á og við kynfæri, blóðleysi, taugaverkir. Þegar ríbóflavínskortur er fyrir hendi er oftast um að ræða skort á fleiri B-vítamínum og jafnvel járni og því getur reynst erfitt ef ekki ómögulegt að greina hvaða vítamínsskortur veldur tilteknum einkennum.

B 2-vítamín eitrun
Ekki þekkt.

Aukaverkanir
Engar þekktar.

Milliverkanir
Sýklalyf á borð við súlfalyf (dæmi Eusaprim®, Trimezol® og Trimetoprim Meda® o.fl.) geta valdið ríbóflavínskorti ef þau eru notuð í langan tíma. Konur sem taka inn getnaðarvarnarlyf þurfa aukið magn af ríbóflavíni.

Frábendingar
Engar þekktar.

Heimildir
H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995. Mál og menning, Reykjavík. Bls. 35-37.

R. Marcus, A. M. Coulson. Water-soluble vitamins, the Vitamin B Complex and Ascorbic Acid. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill, New York. Bls. 1558-1559.

www.landlaeknir.is

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.

(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).