Bólusetningar

Ferðir og ferðalög

  • Bolusetning

Það er ávallt nauðsynlegt að vera vel bólusettur en það er sérstaklega mikilvægt þegar ferðast er til útlanda.

Almennt má segja að vegna ferða til landa eins og Norðurlandanna, Suður-Evrópu, Madeira, Kanaríeyja, Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Japan þurfi ekki sérstaka bólusetningu. Hins vegar er rétt að leita læknisráða ef þú ert með langvarandi sjúkdóm eins og hjartasjúkdóm, astma, nýrnasjúkdóm eða sykursýki.

Vegna ferða til hitabeltislanda er alltaf ráðlegt að leita læknis, helst a.m.k. 2 mánuðum áður en lagt er í ferðina, til þess að hægt sé að framkvæma nauðsynlegar bólusetningar.

Sérstök ástæða er til að minna á endurnýjun bólusetningar gegn stífkrampa og mænusótt hafi það ekki verið gert fyrr. Mikilvægt er að huga að bólusetningum í tíma því lítið gagn er að bólusetningu sem gefin er brottfarardag.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um bólusetningu á öllum heilsugæslustöðvum landsins og hjá Heilsuvernd, Glæsibæ. Á þessum stöðum eru bólusetningar einnig framkvæmdar.

Einnig má lesa sér betur til um  bólusetningar ferðamanna á vefsíðu Embættis landlæknis.