Glitbrá

Náttúruvörur

  • Glitbra

Glitbrá er lágvaxinn, fjölær runni sem vex villtur í suðvestanverðri Evrópu og víðar í tempraða beltinu, en barst með landnemum til Norður-Ameríku sem ræktuðu hann til skrauts og til lækninga. Einkum notuð til að koma í veg fyrir mígreni.

Fræðiheiti Tanacetum parthenium (L.) Schulz bip. Gengur stundum undir heitunum Chrysanthemum parthenium (L.) Bernh. eða Matricaria parthenium L.
Ætt: Körfublómaætt Aseraceae (Compositae).

Enskt heiti
Feverfew.

Einkunn
2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) í kaflanum "Gagnleg áhrif á notanda: niðurstöður rannsókna".

Hvað er Glitbrá?
Glitbrá er lágvaxinn, fjölær runni sem vex villtur í suðvestanverðri Evrópu og víðar í tempraða beltinu, en barst með landnemum til Norður-Ameríku sem ræktuðu hann til skrauts og til lækninga. Þar vex þessi runni nú víða á ökrum, með vegum og á óræktarsvæðum. Plantan ber gul og hvít blóm sem minna á blóm baldursbrár. Gulgræn laufblöðin eru notuð til lækninga.

Notkun
Evrópumenn til forna, einkum Grikkir, kunnu að meta eiginleika glitbrár og notuðu hana til þess að lækna sótthita, höfuðverk, liðagigt, tíðaverki og annan sársauka og eymsli. Þessi planta gengur einnig undir enska heitinu "febrifuge plant", dregið af latneska orðinu "febrifuga", og það gefur til kynna að plantan hafi verið mikils metin sem hitastillandi meðal, en þetta latneska orð merkir bókstaflega að reka sótthita á brott. Í eina tíð tíðkaðist að gefa langt leiddum ópíumneytendum glitbrá sem mótlyf. Í Norður-Ameríku var glitbrá ræktuð bæði til skrauts og lækninga, líkt og verið hafði í Evrópu, en smám saman fækkaði þeim sem notuðu hana.

Árið 1978 kom út skýrsla þar sem fullyrt var að glitbrá gæti komið í veg fyrir mígreni. Þetta varð til þess að rífa plöntuna upp úr því gleymskunnar dái sem hún hafði sokkið í. Í kjölfar þessarar skýrslu og fleiri, sem greina frá svipuðum niðurstöðum um notagildi glitbrár við að halda mígreni í skefjum, hefur plantan öðlast tryggan aðdáendahóp meðal þeirra sem þjást af mígreni. Einkum hafa Evrópubúar nýtt sér glitbrá til að koma í veg fyrir þessi yfirþyrmandi höfuðverkjarköst, en einnig til að minnka ógleði, uppköst og fleiri fylgikvilla. Margir tyggja einfaldlega nokkur fersk blöð af plöntunni daglega.

Kjarnar úr glitbrá eru líka þekktir fyrir að lina kvilla sem eru gjarnan meðhöndlaðir með magnýli, svo sem astma, tíðaverki, liðagigt og húðbólgu. Í pöntunarlistum yfir náttúrulyf er glitbrá auglýst sem lyf sem stuðlar að almennri vellíðan. Sumir grasalæknar mæla jafnvel með henni við taugaspennu. Í Mexíkó og víðar er hún nýtt til þess að fæla burt skordýr. Sumir telja hina lyktsterku plöntu geta hreinsað loft. 1

Helstu lyfjaform
Hylki, laufblöð (fersk og frost- eða hitaþurrkuð), fljótandi kjarni, tafla, drykkur. Í mörgum tilvikum er hið beiska bragð plöntunnar falið með því að bæta sætuefnum við.

Algeng skammtastærð
Til að koma í veg fyrir mígreni eru tvö laufblöð tuggin daglega eða tvær 400 millígramma töflur teknar inn þrisvar á dag. Gæði taflnanna eru mismunandi, en skammtur sem inniheldur 250 míkrógrömm af partenólíði er talinn hæfilegur dagskammtur. Hæfilegur skammtur af fljótandi kjarna úr laufblöðum er fjórir til átta millílítrar.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Svo virðist sem að glitbrá hafi ekki hitastillandi áhrif, en framkvæma þarf ítarlegri rannsóknir þar að lútandi. Rannsóknir sem hafa verið gerðar til að staðfesta niðurstöður um að glitbrá lini liðagigtarverki hafa valdið vonbrigðum. Árið 1989 var gerð tvíblind, lyfleysustýrð rannsókn á fjörutíu og einum einstaklingi. Niðurstöður hennar voru þær að jurtin bætti ekki gigtareinkenni hjá þeim sem tóku 70-86 millígrömm daglega í sex vikur. 2 Einstaklingarnir fengu að halda áfram að taka sín venjulegu bólguhemjandi lyf sem voru ekki sterar meðan á rannsókninni stóð. Vísindamenn töldu að rekja mætti jákvæðar niðurstöður í dýratilraunum um liðagigt til þess að glitbrá hindrar losun skaðlegra efna úr hvítfrumum í bólgnum liðum og húð. 3 Hefðbundin notkun glitbrár gegn öðrum kvillum hefur enn ekki verið rannsökuð klínískt að undanskilinni notkun við höfuðverk.

Mígrenisjúklingar virðast þó hafa fundið raunhæft vopn í baráttunni við hinn leiða kvilla. Jákvæðar niðurstöður hafa fengist í ítarlegum glasatilraunum, dýratilraunum og tveimur rannsóknum á mönnum sem voru framkvæmdar á síðustu áratugum síðustu aldar. Niðurstöður gefa til kynna að tiltölulega smáir og daglegir skammtar af þurrkuðum laufblöðum (60-82 millígrömm) dragi úr tíðni, alvarleika og fylgikvillum mígrenihöfuðverkja. 4 Glitbrá virðist ekkert hafa að segja gegn mígreniköstum ef efnið er tekið eftir að köstin hefjast. Þessir eiginleikar plöntunnar komu skýrt fram í klínískum rannsóknum þar sem hún var borin saman við áhrif lyfleysu. Í einni slíkri rannsókn frá 1985 voru sautján einstaklingar sem höfðu að eigin frumkvæði borðað nokkur fersk laufblöð af glitbrá daglega til þess að koma í veg fyrir mígreniköst. 5 Þegar níu þeirra voru látnir skipta yfir í lyfleysu án þess að vita af því varð marktæk aukning á tíðni og alvarleika mígrenieinkenna, svo sem höfuðverkja, ógleði og uppkasta. Þeir sem héldu áfram að taka glitbrárhylki án þess að vita af því urðu hins vegar ekki varir við neinar breytingar á ástandi sínu.

Hin klíníska rannsóknin var vel útfærð, tveggja ára rannsókn og skýrsla um niðurstöður hennar kom út árið 1988. Meginniðurstaða hennar var sú að meðal 59 mígrenisjúklinga sem fengu mígrenikast a.m.k. einu sinni í mánuði fækkaði köstum hjá þeim sem fengu glitbrá um nær fjórðung að meðaltali í samanburði við þá sem fengu lyfleysu. 6Þessir einstaklingar fengu ekki að taka nein önnur lyf (nema getnaðarvarnatöflur) meðan rannsóknin stóð yfir. Einnig bar minna á uppköstum sem fylgikvilla, en lengd kastanna var um það bil sú sama.

Ítarlegar rannsóknir á fyrirbyggjandi verkun glitbrár á mígreni í mönnum hófust þegar breskt heilsutímarit greindi frá manni sem hafði þjáðst af mígreni í mörg ár en losnaði við sjúkdóminn þegar hann var 68 ára gamall og hafði tuggið þrjú laufblöð af glitbrá daglega í tíu mánuði. Vísindamenn einangruðu partenólíð fyrst í lok 6. og byrjun 7. áratugar síðustu aldar, en partóleníð er innihaldsefnið sem flestir þakka hemjandi verkun glitbrár á mígreni. Efnafræðilega er partenólíð úr flokki seskvíterpenlaktóna. Rannsóknir á glitbrá gefa til kynna að partenólíð, og ef til vill önnur seskvíterpenlaktón, hamli losun efnasambanda sem kallast serótónínmótpeptíð úr blóðflögum, en slík efnasambönd, sem losna í mígreniköstum, vekja ef til vill sársaukann sem fylgir þeim vegna þess að þau þrengja æðar. Serótónínmótpeptíðin eru einnig talin hamla losun prostaglandína úr hvítfrumum, sem er hugsanlega annar þáttur í að kveikja mígrenikast, og þau eru ennfremur talin eiga þátt í að bæta liðagigt og sóra (psoríasis), þótt frekari rannsókna sé þörf varðandi sjúkdómana sem síðast voru nefndir. Sum seskvíterpenlaktón búa jafnvel yfir krampahemjandi verkun og partenólíð lækkar e.t.v. sársaukaþröskuldinn.

Þeir sem þjást af mígreni ættu að gera sér grein fyrir því að rétt skammtastærð gæti hugsanlega skipt sköpum, einkum þegar haft er í huga hversu lélegar sumar glitbrárvörur frá Norður-Ameríku eru að gæðum. Í sumum sýnum er mjög lítið af hinu þýðingarmikla partenólíði. Sérfræðingar telja að vörur unnar úr glitbrá þurfi að innihalda að minnsta kosti 0,2 % partenólíð, sem samsvarar 250 míkrógrömmum. 7 Kanadísk rannsókn frá 1991 leiddi í ljós að engin amerísk vara úr glitbrá innihélt þetta lágmark. 8 Í könnun á sýnum sem voru tekin úr vörum sem fengust í heilsuvörubúð í Louisiana-ríki var ekki hægt að greina neitt partenólíð í tveimur af hverjum þremur sýnum. 9 Einnig er mikill munur á styrkleika og krafti ferskrar glitbrár og þurrkuðum afurðum plöntunnar. 10 Taka ber fram að hinir algengu spennuhöfuðverkir greina sig frá mígrenihöfuðverkjum á ýmsan hátt, þ.m.t. orsök. Glitbrá hefur að öllum líkindum eingöngu áhrif á mígreni.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Glitbrá virðist vera tiltölulega skaðlaus þegar hún er notuð í ráðlögðum skömmtum, þótt bíða þurfi niðurstaðna úr langtímarannsóknum svo að hægt sé að draga óyggjandi ályktanir, einkum eftir langvarandi notkun. Um 10-18 % einstaklinga, sem hafa tekið þátt í rannsóknum til þessa, hafa fundið fyrir aukaverkunum. Af þeim eru sár í munni algengust (10-12 %). Allt að 7 % einstaklinga sem tóku þátt í rannsókn þar sem m.a. átti að tyggja fersk laufblöð fengu svo mikil sár á tungu og góm, auk bólgu í varir, að þeir hættu að nota lyfið. 11 Heilkenni fráhvarfseinkenna eftir glitbrárnotkun hafa verið greind og meðal einkenna eru taugaórói, spennuhöfuðverkur, stirðleiki liða og þreyta. 12

Ekki er ráðlegt að taka glitbrá ef viðkomandi er með ofnæmi fyrir öðrum körfublómategundum. Barnshafandi konur og konur með börn á brjósti ættu að forðast glitbrá þar sem hún virðist meðal annars auka tíðablæðingar, þótt ekki sé vitað hvers vegna. 13 Ýmislegt bendir til þess að lyfið vinni gegn blóðþynningarlyfjum, svo sem varfaríni og heparíni, og er frekari rannsókna þörf. 14

Meginheimildir
Bradley, P.C., ritstjóri, British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Plant Drugs, 1. bindi. Bournemouth (Dorset), England: British Herbal Medicine Association, 1992. Castleman, M. The Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines. NewYork, NY: Bantam Books, 1995. Der Marderosian, A. og L. Liberti. Natural Product Medicine: A Scientific Guide to Foods, Drugs, Cosmetics. Philadelphia: George F. Stickley, 1988. Duke. J.A. CRC Handbook of Medicinal Herbs. Boca Raton, FL: CRC Press, 1985. Hallowell, M. Herbal Healing: A Practical Introduction to Medicinal Herbs. Garden City Park, NY:1994. Lawrence Review of Natural Products (St. Louis: Facts and Comparisons, september 1994). Mindell, E., Earl Mindell´s Herb Bible. New York: Simon & Schuster/Fireside, 1992. Newall, C. A., et al. Herbal Medicines: A Guide for Health-Care Professionals. London: The Pharmaceutical Press, 1996. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/ PharmaceuticalProducts Press, 1994. Tyler, V.E., L.R. Brady og J.E. Robbers, ritstjórar. Pharmacognosy. Philadelphia: Lea & Febiger, 1988. Weiner, M.A. og J.A. Weiner. Herbs that Heal: Prescription for Herbal Healing. Mill Valley, CA: Quantum Books, 1994. Weiss, R.F. Herbal Medicine, þýðing A.R. Meuss úr 6. þýsku útgáfunni. Beaconsfield, England: Beaconsfield Publishers, Ltd., 1988.

Tilvísanir
1. Lawrence Review of Natural Products (St. Louis: Facts and Comparisons, september 1994). 2. M. Pattrick et al., Annals of the Rheumatic Diseases, 48(1989): 547-549. 3. P.C. Bradley, ritstjóri, British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Plant Drugs, 1. b. (Bournemouth [Dorset], England: British Herbal Medicine Association, 1992. S. Heptinstall et al., The Lancet, I (1985): 1071-1074. 4. D.V.C. Awang, HerbalGram, (nr. 29) 66(1993): 34?36. 5. E.S. Johnson et al., British Medical Journal of Clinical Research Education, 291 (6495) (1985): 569-573. 6. J.J. Murphy et al., The Lancet, ii (1988):189-192. 7. V.E. Tyler, Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. (Binghamton, NY: Haworth Press/ Pharmaceutical Products Press, 1994.) 8. D.V.C. Awang et al., Journal of Natural Products, 54(1991): 1516-1521. 9. J. Castaneda-Acosta et al., Journal of Natural Products, 56 (1993): 90-98. 10. R.W. Barsby et al., Planta Medica, 59(1) (1993):20-25. 11. D.V.C. Awang, Canadian Pharmaceutical Journal, 122(5) (1989):266-270. E.S. Johnson et al., British Medical Journal, 291 (1985): 569. 12. Johnson, sama heimild. 13. Awang, HerbalGram, sama heimild. 14. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.