K-vítamín

Vítamín

  • K-vitamin

K-vítamín tilheyrir hópi fituleysanlegra vítamína. Það safnast þó ekki fyrir í líkamanum heldur er því breytt í skautaðra efni sem skilst út úr líkamanum með þvagi og galli. K-vítamín er m.a. nauðsynlegt fyrir myndun storkuþátta í lifrinni.

K-vítamín tilheyrir hópi fituleysanlegra vítamína. K-vítamín safnast þó ekki fyrir í líkamanum heldur er því breytt í skautaðra efni sem skilst út úr líkamanum með þvagi og galli.

Heiti
K-vítamín.

Uppspretta
Örverur í meltingarveginum framleiða K-vítamín innan vissra marka. Finnst í grænum laufum, s.s. spínati, tómötum og jurtaolíum. Finnst líka í mjólkurvöru með mjólkursýrugerlum því að gerlarnir auka framleiðslu K-vítamíns í bakteríuflóru þarmanna.

Verkun
K-vítamín er nauðsynlegt fyrir myndun storkuþátta í lifrinni en þeir stuðla að blóðstorknun. Það hjálpar einnig til við eðlilega beinmyndun í líkamanum, hægir á beinhrörnun með því að draga úr kalktapi.

Notkun - verkun

  • Við blæðingum í ungabörnum. 
  • Við K-vítamín skorti. 
  • Við blæðingum vegna inntöku segavarnarlyfja, s.s. warfaríns.


Ráðlagðir dagskammtar
Manneldisráð Íslands hefur ekki gefið út ráðlagða dagskammta fyrir K-vítamín en eftirfarandi upplýsingar eru fengnar erlendis frá:

Ungbörn <1 árs  5-10 mcg
Börn 1-10 ára 15-30 mcg
Karlar 45-80 mcg
Konur 45-65 mcg
Konur á meðgöngu 65 mcg
Konur með barn á brjósti 65 mcg

mcg = míkrógrömm (µg)

K-vítamín skortur
Skortur á K-vítamíni er sjaldgæfur en kemur helst fram ef viðkomandi hefur verið með langvarandi niðurgang eða neytt hægðalosandi lyfja í lengri tíma. Þetta stafar af því að K-vítamín er framleitt af örverum í þörmum. Þeir sem neyta ekki fjölbreyttrar fæðu eiga það á hættu að fá K-vítamín skort. Langvarandi sýklalyfjameðferð getur einnig valdið K-vítamín skorti. Einkenni K-vítamínskorts eru auknar tilhneigingar til að blæða, t.d. blæðing frá meltingarvegi og marblettir.

K-vítamín eitrun
Ofnæmisviðbrögð eins og útbrot og kláði hafa komið fram hjá þeim sem hafa neytt stórra skammta af K-vítamíni.

Aukaverkanir
Sum afbrigði K-vítamíns valda ertingu í húð og öndunarfærum.

Milliverkanir
Segaleysandi/blóðþynnandi lyf, s.s. Aspirin Actavis® og Kóvar® o.fl.

Frábendingar
Sjúklingar í blóðþynnandi meðferð ættu ekki að taka inn K-vítamín.

Heimildir
H.P. Rang, M.M. Dale og J.M. Ritter. Pharmacology 4th edition. 1999 Churchill Livingstone, Edinburgh. Bls. 314-315.

R. Marcus, A.M. Coulston, Fat-soluble vitamins. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill, New York. Bls. 1582-1585, 1549.

G. Samuelsson. Drugs of Natural Origin, a textbook of Pharmacognosy 4th revised edition. 1999 Apotekarsocieteten, Stockholm. Bls. 291.

H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 28-30.

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.