Kamilla

Náttúruvörur

  • Kamilla

Kamilla er einær jurt sem líkist baldursbrá. Hún ber gul blóm og hefur sérstakan ilm. Blómin eru þurrkuð áður en þau eru notuð til lækninga. 

Fræðiheiti
Matricaria chamomilla, L., en einnig þekkt sem Matricaria recutita og Chamomilla recutita (L.) Rauschert.
Ætt: Körfublómaætt Asteraceae (Compositae)

Önnur heiti
Kryddbaldursbrá.

Ensk heiti
German chamomile, genuine chamomile, hungarian chamomile.

Einkunn
2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) í kaflanum "Gagnleg áhrif á notanda: niðurstöður rannsókna".

Hvað er kamilla?
Til eru tvær megintegundir kamillu - annars vegar þýsk eða ungversk, Matricaria chamomilla, og hins vegar rómversk ( Chamaemelum nobile L., samheiti Anthemis nobilis L.). 1 Hér verður einungis fjallað um þá fyrrnefndu, sem er algengari á heimsmarkaði og er efnafræðilega ólík hinni síðarnefndu sem er einkum notuð í Bretlandi. Kamilla er einær jurt sem líkist baldursbrá. Hún ber gul blóm og hefur sérstakan ilm. Blómin eru þurrkuð áður en þau eru notuð til lækninga. Við gufueimingu myndast rökgjörn, bláleit olía.

Notkun
Svo virðist sem þeir séu fáir kvillarnir sem hafa ekki verið meðhöndlaðir með bolla af heitu kamillutei í aldanna rás. Frá því á dögum Forn-Rómverja hefur jurtin einkum verið notuð til lækninga sem róandi og sefandi heitur drykkur gegn meltingartruflunum (magakrömpum, vindgangi) eða til að örva meltingu, sefa kvíða eða streitu, bæta svefn, lækka sótthita, halda sárum í skefjum, minnka tíðaverki eða aðra krampa, veita viðnám gegn sýkingu samfara minniháttar sjúkdómum og draga úr gigtarverkjum. Kamilla er um þessar mundir líklega mest selda jurtateið í Norður-Ameríku. Evrópumenn telja kamillu allra meina bót. 2 Umbúðir með seyði úr kamillu, áburður og aðrar vörur til útvortis notkunar eru gjarnan ráðlagðar til að örva gróanda sára og draga úr bólgu sem fylgja gjarnan húðkvillum á borð við exem og gyllinæð. Um aldir hefur ljóshært fólk skolað hár sitt með kamillu til að viðhalda gljáa hársins og draga fram gullin litbrigði þess. Kamilluilmkjarnaolía er í margs konar hárskoli, baðolíum, húðkremum og öðrum snyrtivörum og hún er einnig notuð sem bragðefni í matvæli og drykkjarvörur.

Helstu lyfjaform
Til notkunar innvortis: Hylki, kjarni, seyði (úr þurrkuðum blómum), tinktúra.
Til notkunar útvortis: Baðblöndur, umbúðir (gerðar með sterku jurtaseyði), kjarni, áburður, smyrsl.

Algeng skammtastærð
Te er oftast gert úr 2-3 kúffullum teskeiðum af þurrkuðum blómum í bolla af vatni og er notað bæði í umbúðir og drykki. Tinktúra er tekin í ½-1 teskeiðarskömmtum allt að þrisvar á dag. Hálsskol er búið til með því að bæta 10 dropum af vökvakjarna í eitt glas af vatni.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Miklar og nákvæmar rannsóknir sem hafa verið gerðar á undanförnum áratugum gefa til kynna að hefðbundin notkun kamillu hafi oftar en ekki verið skynsamleg. Af nokkrum virkum innihaldsefnum plöntunnar er líklega mikilvægast flókin, blá ilmkjarnaolía sem samanstendur aðallega af seskvíterpenalkóhóli kallað alfa-bísabólól (bísabólól) og svolitlu af efninu kamasúleni. Í blómhnöppum kamillu eru um 0,5 % olía.

Greind hafa verið bólgueyðandi og krampasefandi áhrif bísabólóls sem skýrir hvers vegna jurtin róar ólgu í maga en líklega sefar efnið slétta vöðva sem klæða maga og þarma að innan og róar bólgna vefi. Sýnt hefur verið fram á þessa eiginleika með klassískum dýratilraunum þar sem bólgur voru rannsakaðar 3 og glasatilraunum þar sem krampar voru rannsakaðir. 4 Í þurrkuðum blómhnöppum eru efnasambönd sem heita flavónóíð en vitað er að þau örva verkun bísabólóls auk þess sem þau hafa sjálf bólgueyðandi og krampasefandi áhrif. 5 Ennfremur hefur verið sýnt fram á að kamasúlen, sem finnst einnig í blómhnöppunum, hefur bólgueyðandi og jafnvel ofnæmishemjandi verkun í dýrum. 6 Kamilluvörur sem eru seldar í Þýskalandi eru oft staðlaðar með tillit til kamasúlen- og bísabólólinnihalds. 7 Rottutilraunir gefa til kynna að bísabólól veiti vörn gegn sótthita 8 sem er oft fylgifiskur bólgusjúkdóma. Þýsk heilbrigðisyfirvöld leyfa notkun kamillublómates og annarra lyfjablandna gegn krampa í meltingargangi og liðagigt og öðrum bólgusjúkdómum. 9 Krampasefandi eiginleikar skýra e.t.v. hvers vegna löng hefð er fyrir því að nota jurtina sem róandi lyf en lítið finnst af upplýsingum um þetta efni og svo virðist sem jurtin hafi ekki verið prófuð í þessum tilgangi.

Þýsk yfirvöld leyfa einnig kamillute gegn magasári. Tilraunir á rottum gefa til kynna að bísabólól bæði hamli myndun magasára og flýti gróanda sára sem hafa þegar myndast. 10

Kamilla kemur ef til vill einnig í veg fyrir sýkingu og flýtir gróanda sára með því að halda tilteknum sjúkdómsvaldandi örverum í skefjum, svo sem bakteríunni Staphylococcus aureus og sveppnum Candida albicans (algeng orsök sveppasýkinga í leggöngum). 11 Samkvæmt rannsókn sem var gerð 1985 á ýmsum plöntum örva fjölsykrur ónæmiskerfið. 12 Bólgueyðandi verkun bísabólóls stuðlar ef til vill einnig að því að sár gróa fyrr. Efnið dregur líklega að frumur sem taka þátt í að byggja upp nýjan vef og orsaka örmyndun. 13 Lítil, tvíblind, klínísk rannsókn sýndi að kamilla stuðlaði marktækt að því að minnka stærð áverka og hún olli því að fyrr hætti að vessa úr sárum en ef hún var ekki notuð. 14 Í rannsókn sem var gerð á naggrísum greru brunasár marktækt hraðar þegar bísabólól var borið á þau. 15 Krem sem innihalda kjarna úr blómum hafa jákvæð áhrif á exem. 16 Á grundvelli þessara og annarra niðurstaðna leyfa þýsk stjórnvöld notkun kamilluvara gegn staðbundnum bakteríusýkingum í húð og í munnskol (gert úr seyði) gegn bólgum í munni og gómum. 17

Ekki má þó gleyma takmörkunum á notkun kamillu. Ilmkjarnaolían er ekki vatnsleysanleg, þannig að þótt mjög sterkt kamillute sé gert á réttan hátt dragast aðeins 10-15 % af þessari olíu út í vökvann. 18 Heilkjarni og aðrar sterkar lyfjablöndur eru ekki auðfengnar, þótt það geti skilað tilætluðum árangri að drekka kamillute reglulega að staðaldri. 19 Kaupendur fá kamillu með mestu gæðum ef keyptar eru vörur sem innihalda heila blómhnappa frá viðurkenndum framleiðanda. 20 Forðast skal duftvörur eða vörur sem innihalda mikið af stönglum og öðrum plöntuhlutum.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Kamilla er víða talin örugg ef hún er notuð í ráðlögðum skömmtum bæði útvortis og innvortis. 21 Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið hefur sett hana á skrá yfir jurtir sem eru taldar öruggar til neyslu. Þeir sem eru hins vegar haldnir ofnæmi fyrir öðrum körfublómategundum ættu að forðast kamillu vegna hættu á víxlverkunum og möguleika á að öðrum efnum hafi verið bætt við sem geta hugsanlega verið ofnæmisvaldandi. 22 Aðeins hefur verið tilkynnt um fimm tilfelli ofnæmis gegn kamilluplöntum í heiminum öllum (millli 1982 og 1987) sem hafa verið tengd Matricaria recutita. 23 Neysla stórra skammta af þurrkuðum blómum getur valdið uppköstum. 24

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útgáfa.Washington, D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Balch, J.F. og P.A. Balch. Prescription for Nutritional Healing: A Practical A to Z reference to Drug-Free Remedies Using Vitamins, Minerals, Herbs & Food Supplements. 2. útgáfa. Garden City Park, NY: Avery Publishing Group, 1997. Blumenthal, M., J. Gruenwald, T. Hall og R. S. Rister, ritstjórar. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Bradley, P.C., ritstj. British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Plant Drugs. 1. bindi. Bournemouth (Dorset), England: British Herbal Medicine Association, 1992. Castleman, M. The Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines. New York: Bantam Books, 1995. Der Marderosian, A. og L. Liberti. Natural Product Medicine: A Scientific Guide to Foods, Drugs, Cosmetics. Philadelphia: George F. Stickley, 1988. Duke, J.A. CRC Handbook of Medicinal Herbs. Boca Raton, FL: CRC Press, 1985. Foster, S. Chamomile: Matricaria recutita & Chamaemelum nobile. American Botanical Council Botanical Series 307. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis. Facts and Comparisons, mars 1991. Leung, A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Foods, Drugs, and Cosmetics. 2. útgáfa. New York: John Wiley & Sons, 1996. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Tyler, V.E. The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993. Weiss, R.F. Herbal Medicine, þýðing A.R. Meuss, úr 6. þýsku útgáfunni. Beaconsfield, England: Beaconsfield Publishers, Ltd., 1988.

Tilvísanir
1. American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útgáfa.(Washington, D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996). 2. V.E. Tyler, The Honest Herbal. (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993). 3. V. Jakovlev et al., Planta Medica, 35 (1979): 125. 4. H.B. Forster et al., Planta Medica, 40 (1980): 309. 5. American Pharmaceutical Association, sama heimild. 6. P. Stern og R. Milin, A rzneimittel-Forschung, 6 (1956):445. 7. Forster, sama heimild. 8. A. Der Marderosian og L.Liberti, Natural Product Medicine: A Scientific Guide to Foods, Drugs, Cosmetics. Philadelphia: George F. Stickley, 1988. 9. M. Blumenthal, J. Gruenwald, T. Hall og R. S. Rister, ritstjórar. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. 10. I. Szelenyi et al., Planta Medica, 35 (1979): 218. 11. A.Y. Leung og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Foods, Drugs, and Cosmetics. 2. útgáfa. (New York: John Wiley & Sons, 1996). 12. H. Wagner et al., Arzneimittel-Forschung, 35 (1985):1069-1075. 13.P.C. Bradley, ritstj. British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Plant Drugs. 1. bindi. (Bournemouth [Dorset], England: British Herbal Medicine Association, 1992). 14. H.J. Glowania et al., Zeitschrift für Hautkranheiten, 62 (1987):1262-1271. 15. O. Isaac, Planta Medica, 35 (1979): 118. 16. Bradley, sama heimild. 17. Blumenthal et al., sama heimild. 18. N.R. Farnsworth og B.M. Morgan, Journal of the American Medical Association, 221(1972): 410. Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis. Facts and Comparisons, mars, 1991). 19. Tyler, The Honest Herbal, sama heimild. 20. V.E. Tyler, Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994). 21. S. Habersang et al., Planta Medica, 37 (1979): 115. 22. S. Foster, Chamomile: Matricaria recutita & Chamaemelum nobile. American Botanical Council Botanical Series 307. 23 Tyler, Herbs of Choice, sama heimild. 24. Der Marterosian og Liberti, sama heimild.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.