Histamín - ofnæmisboðefnið

Ofnæmi

  • Histamin

Það boðefni sem veldur ofnæmisviðbrögðum, s.s. kláða, roða og bólgum, kallast histamín.

Histamín hefur margvísleg hlutverk, t.d. í ónæmiskerfinu, meltingarfærum og miðtaugakerfinu, og er að finna í öllum vefjum líkamans - þó í mismiklu magni.

Eins og gildir almennt um boðefni hefur histamín áhrif á starfsemi fruma með því að setjast á viðtaka á yfirborði þeirra. Histamínviðtakarnir eru þó ekki allir eins, og mismunandi undirtegundir þeirra eru á mismunandi stöðum í líkamanum. Þekktar eru 3 megingerðir histamínviðtaka, sem kallast H1, H2 og H3. H1 viðtakar miðla t.d. ofnæmisviðbrögðum meðan H2 viðtakar stjórna magasýruseyti. Hægt er að hanna lyf sem hafa meiri sækni í eina tegund viðtaka en aðrar og fá þannig fram sérhæfð áhrif. Sum ofnæmislyf koma í veg fyrir ofnæmisviðbrögð með því að setjast á H1 viðtaka og hindra að histamín nái að virkja þá. Magalyf á borð við Asýran virka á sambærilegan hátt á H2 viðtaka í maga.

Ein hvimleiðasta aukaverkun fyrstu ofnæmislyfjanna sem virka á H1 viðtaka er sljóleiki. Þessi aukaverkun stafar af því lyfin hindra einnig H1 viðtaka í heila, þar sem histamín gegnir örvandi hlutverki. Reyndar hafa sum lyf í þessum flokki verið notuð sem róandi lyf einmitt vegna þessa, en þegar nota á lyfin við ofnæmi er æskilegt að vera laus við þessi áhrif.

Heilinn er að vissu leyti verndaður fyrir áhrifum lyfja. Æðaveggir í þeim æðum sem liggja um heilann eru ekki jafn gegndræpir og æðaveggir annars staðar í líkamanum, þ.e. efni í blóði sleppa síður yfir æðaveggina þar en annarsstaðar. Eldri ofnæmislyfin sleppa flest yfir þennan blóð-heila-þröskuld, en nýrri ofnæmislyf hafa verið valin sérstaklega með tilliti til þess að þau sleppi ekki yfir og því hafa þau síður sljóvgandi áhrif en þau eldri.

Samanburðarrannsóknir á nýrri ofnæmislyfjum hafa flestar bent til þess að áhrif þeirra á ofnæmi séu sambærileg. Valið á milli þeirra byggist því aðallega á aukaverkunum þeirra, milliverkunum við önnur lyf og hversu fljótt þau byrja að verka. Einnig getur verið ákveðinn persónubundinn munur á því hvernig lyfin verka, sem getur verið að einhverju leyti bundinn arfgerð. Enn sem komið er er engin einföld og ódýr leið til að sjá þetta fyrir, og því getur þurft að prófa nokkur lyf til að finna það sem hentar best í hverju tilfelli.

Ýmir Vésteinsson, lyfjafræðingur.