Hiti

Algengir kvillar

  • Hiti

Sótthiti er óeðlilega hár líkamshiti. Hann er ekki sjúkdómur heldur einkenni sjúkdóms sem oftast má rekja til sýkingar.

Sótthiti er óeðlilega hár líkamshiti. Hann er ekki sjúkdómur heldur einkenni sjúkdóms sem oftast má rekja til sýkingar. Ef líkamshitinn er 37,5°C eða hærri getur það bent til sýkingar en slík hækkun hita getur líka stafað af líkamlegri áreynslu. Mældu þig því aftur, helst að morgni áður en þú ferð á fætur. Ung börn fá oftar hita en fullorðnir. Ekki er óalgengt að börn fái 39-40°C hita ef þau kvefast til dæmis.

Þannig mælir þú þig
Mældu þig áður en þú ferð fram úr á morgnana. Þú getur hvort sem er mælt hitann í munni eða endaþarmi. Nákvæmara er að mæla hitann í endaþarmi en í munni. Mælirinn smýgur betur inn ef þú berð á hann örlítið smyrsli. Sýndu varkárni þegar þú mælir hita í barni. Settu hitamælinn ekki of djúpt inn. Einnig eru til eyrnahitamælar. Eðlilegur líkamshiti er dálítið mismunandi eftir einstaklingum en hann er jafnan mjög stöðugur hjá hverjum og einum. Eðlilegur líkamshiti mældur með munnmæli að morgni er 35,8°C-37,0°C hjá körlum og 35,6°C-37,2°C hjá konum. Líkamshitinn er að jafnaði 0,5°C hærri að kvöldi en að morgni. Yfirleitt mælist heldur lægri hiti með munnmæli en endaþarmsmæli en sá munur er þó mjög misjafn hjá hverjum og einum. Þegar þú mælir þig berðu saman niðurstöðuna við þinn eðlilega líkamshita. Til að komast að honum, mældu þig í nokkur skipti kvölds og morgna þegar þú ert heilbrigður.

SPURNINGAR OG SVÖR

Hvenær á ég að leita til læknis?

  • Ef hitinn varir lengur en í eina viku.
  • Ef sá sem er með hita er sljór eða illa haldinn á annan hátt.
  • Ef hitinn gengur niður eftir nokkra daga en blossar svo upp aftur.
  • Ef barn yngra en 3ja mánaða fær háan hita.
  • Ef þú ert óviss um hvað skuli gera.

Hvað get ég gert?
Forðastu að reyna á þig þegar þú ert með hita. Liggðu þó ekki í rúminu ef þú treystir þér til þess að vera á fótum. Ef þú ert með kvef og liggur í rúminu er meiri hætta en ella á sýkingu í eyrum og afholum nefsins (ennis- og kinnholum). Kappklæddu þig ekki og liggðu ekki undir heitri sæng.

  • Hafðu svalt í herberginu.
  • Drekktu mikinn vökva, það er mjög mikilvægt þegar fólk er með hita.
  • Láttu þér ekki verða kalt fyrstu dagana sem þú ert hitalaus.
Get ég fengið lyf án lyfseðils?

Verkjastillandi lyf sem fást án lyfseðils slá jafnframt á hita. Þau innihalda parasetamól, íbúprófen, naproxen eða asetýlsalisýlsýru. Gættu þess að fylgja leiðbeiningum um skammtastærð nákvæmlega.

Gefðu ekki börnum og unglingum yngri en 16 ára asetýlsalisýlsýru við hita nema ráðfæra þig við lækni fyrst.

Gefðu barni sem er yngra en 12 ára ekki íbúprófen lengur en í 3 daga án samráðs við lækni.

Fáðu faglega ráðgjöf hjá lyfjafræðingi um val á lyfjum og notkun þeirra.