Hvítblæði

Krabbamein

  • Hvitblaedi

Hvítblæði (leukemia) er stjórnlaus skipting og fjölgun hvítu blóðkornanna. 

Til eru bráðvinn (acute) og langvinn (chronic) hvítblæði. Hvor flokkur um sig er kenndur við þá frumutegund sem er ríkjandi hverju sinni, þ.e. eitilfrumugerð (lymphoid)og mergfrumugerð (myeloid). Rúmlega 30,000 tilfelli greinast árlega í Bandaríkjunum.

I. Bráðahvítblæði (AML og ALL)
Tíðni AML fer vaxandi uppúr fertugu. 60% tilfella af ALL eru í börnum.

Áhættuþættir
Talið er að efnasambönd svo sem benzene sem fylgja iðnaði og mengun eigi hlut að máli. Fyrri saga um lyfja- og geislameðferð eykur vafalaust hættu á AML seinna meir og ýmsir erfðasjúkdómar s.s. Down´s syndrome.

Einkenni
Þreyta, marblettir, blæðingar, hiti og sýkingar eru algeng einkenni í upphafi og eru rakin til blóðleysis, blóðflögufæðar og vanhæfra hvítra blóðkorna. Ýmsar truflanir geta orðið á blóðstorku.

Sjúkdómsgreining
Grunur vaknar um hvítblæði ef hvítublóðkornin í blóðinu eru hærri en eðlilegt getur talist. Greiningin er yfirleitt staðfest með beinmergsástungu.

Meðferð
Meðferð byggir á lyfjameðferð og jafnvel beinmergsflutningi. Í völdum tilvikum er beitt afbrigði A-vitamins (all-trans-retinoic acid).

II. Langvinn hvítblæði (CML og CLL)
CML getur orðið í fólki á öllum aldri. CLL er algengari í eldra fólki.

Áhættuþættir
Erfða- og umhverfisþættir kunna að koma við sögu.

Einkenni
Þreyta, marblettir, blæðingar, hiti og sýkingar eru algeng einkenni í upphafi og eru rakin til blóðleysis, blóðflögufæðar og óstarfhæfra hvítra blóðkorna. Ýmsar truflanir geta orðið á blóðstorku. Eitlastækkanir eru stundum áberandi í CLL, sem og lifrar- og miltisstækkun.

Sjúkdómsgreining
Greiningin er staðfest með beinmergsástungu.

Meðferð

Meðferð þessara meina er mjög háð tegund og stigi. Hún getur falist í reglubundnu eftirliti án lyfjameðferðar, lyfjameðferð og í sumum tilvikum beinmergsflutningi.

Sigurður Böðvarsson, læknir.