Nefrennsli og nefstífla

Algengir kvillar

  • Nefrennsli

Stíflað nef stafar af því að blóðflæði eykst til slímhúðar nefsins. Þá bólgnar slímhúðin og varnar því að loft komist eftir öndunarveginum. Þessu fylgir oft nefrennsli. 

Stíflað nef stafar af því að blóðflæði eykst til slímhúðar nefsins. Þá bólgnar slímhúðin og varnar því að loft komist eftir öndunarveginum. Þessu fylgir oft nefrennsli. Nefstífla getur átt sér mismunandi orsakir.

Nefrennsli vegna ofnæmis

Stíflað nef, þunnt nefrennsli og kláði í nefi á vorin eða sumrin eru algeng einkenni frjónæmis (frjókornaofnæmis). Ef vart verður við óþægindin allt árið um kring getur orsökin verið t.d. ofnæmi fyrir ryki eða dýrum.

Nefrennsli vegna kvefs

Það er algengt að fólk fái þunnfljótandi nefrennsli og sé með stíflað nef þegar það kvefast. Þetta stafar af veiru sem veldur bólgu í slímhúð nefsins.

Nefstífla á meðgöngu

Hormónabreytingar geta aukið blóðrennsli í slímhúð líkamans. Þess vegna finna margar konur fyrir nefstíflu öðru hverju á meðgöngu.

Nefstífla ungbarna

Ungbörn eru stundum með nefstíflu sem ekki verður rakin til þrota í slímhúð. Stundum stafar þetta af því að nefslím eða hor hefur þornað og lokað nefgöngunum. Þetta má leysa upp með 5-20 dropum af saltvatnslausn og þerra síðan úr nefinu.

Aðrar orsakir

Sumt fólk er með sérlega viðkvæma slímhúð og fær gjarnan nefrennsli og stíflað nef til dæmis vegna ryks, ilmvatns, reyks eða hitabreytinga. Aðrar orsakir nefstíflu geta einnig verið skekkja í miðnesinu eða separ í nefi.
Langvarandi notkun nefdropa eða nefúða getur valdið stöðugum þrota í nefslímhúðinni og erfitt getur reynst að losna við hann.

SPURNINGAR OG SVÖR

Hvenær á ég að leita til læknis?

  • Ef þú ert með hita (hærri en 38°C), nefrennsli og stíflað nef lengur en í fjóra daga.
  • Ef þú ert með stíflað nef lengur en í þrjár vikur.
  • Ef þú ert með nefrennsli og finnur jafnframt fyrir verk í kinnbeini, enni eða eyrum.

Hvað get ég gert?

Snýttu þér með mjúkri pappírsþurrku svo þú verðir ekki aum(ur) í nefinu. Hafðu hátt undir höfði og efri hluta líkamans meðan þú sefur, því að þá minnkar þrotinn í slímhúðinni og loftvegurinn opnast. Gott er til dæmis að láta lítið barn sofa í burðarstól, bílstól eða í hallandi stöðu í barnavagni.

Get ég fengið lyf án lyfseðils?

Þú getur keypt nefdropa og nefúða án lyfseðils til þess að meðhöndla nefrennsli og nefstíflu sem fylgir kvefi. Þessi lyf draga úr þrotanum í slímhúð nefsins. Full verkun fæst mjög fljótt og varir í 6-10 klst. Nefdropar og nefúði fást í mismunandi styrkleika og eru ýmist ætluð fullorðnum eða börnum. Textinn á umbúðunum segir til um hversu mikið á að nota fyrir hvern aldursflokk. Ekki skal nota þessi lyf lengur en 10 daga í senn. Ef þú notar þau lengur getur slímhúðin vanist þeim og hætt er við að þú fáir langvinna nefstíflu sem erfitt reynist að losna við. Nezeril, Naso-ratiopharm, Otrivin, Otrivin Menthol og Otrivin Comp eru til sem nefúðalyf með skammtaúðara. Nezeril fæst einnig sem nefdropar í einnota skammtahylkjum. Nefúði eða nefdropar sem inniheldur saltvatnslausn, s.s. Miwana eða Sinomarin sem inniheldur sótthreinsaðan sjó getur komið að gagni til þess að leysa upp seigt slím eða væta of þurra nefslímhúð. Þú getur sjálf(ur) búið til og notað saltvatnslausn með því að setja 1 sléttfullt kryddmál (1/5 úr teskeið eða 1 mL) af matarsalti í 100 mL (1 dL) af vatni.

Við nefrennsli og nefstíflu sem fylgir ofnæmi er hægt að fá Livostin, Nasofan, Kalmente og Mometason nefúða án lyfseðils. Livostin er notað við ofnæmisnefbólgum og Nasofan, Kalmente og Mometason er ætlað til fyrirbyggjandi meðferðar og meðferðar við árstíðabundinni ofnæmisbólgu í nefi (þ.m.t. ofnæmiskvefi) og langvarandi nefslímubólgu.

Fáðu faglega ráðgjöf frá lyfjafræðingi um val á lyfjum og notkun þeirra í næsta apóteki Lyfju eða á netspjalli Lyfju.

Spurt og svarað

KvefEftir 10 daga notkun á Otrivin, getur maður skipt yfir í Nezeril þ.s. það á ekki að vera sama lyfið? 
Skoða nánar