Tíðaverkur

Algengir kvillar

Verkir sem fylgja tíðum (blæðingum) eru algengt og oft mikið vandamál, einkum hjá ungum konum.

Verkir sem fylgja tíðum (blæðingum) eru algengt og oft mikið vandamál, einkum hjá ungum konum. Verkjanna gætir helst í neðri hluta líkamans og leiða þeir oft út í nára og eftir innanverðum lærunum eða út í mjóhrygginn. Talið er að verkirnir stafi af krampa í vöðvum legsins. Sumar konur finna fyrir höfuðverk og ógleði og kasta jafnvel upp meðan tíðir vara. Tíðaverkir verða jafnan vægari þegar kemur á þrítugsaldurinn, eða eftir fyrstu þungun. Notkun getnaðarvarnataflna dregur oft úr tíðaverkjum. Þegar egglos verður, á miðjum tíðahring, geta konur fundið fyrir lítilsháttar verkjum sem vara skamma stund.

SPURNINGAR OG SVÖR

Hvenær á ég að leita til læknis?

  • Ef tíðir breytast og verða sársaukafyllri.
  • Ef þú hefur farið eftir þeim ráðum sem hér eru gefin og þau koma ekki að gagni.

Hvað get ég gert?
Liggðu með bogin hné en hafðu fæturna ekki beina. Hitapoki við neðri hluta líkamans getur linað verkina. Róleg ganga getur stuðlað að því að lina krampann og dregið þannig úr verkjunum.

Get ég fengið lyf án lyfseðils?

Ef tíðaverkirnir eru mjög sárir getur þú tekið verkjalyf sem þú getur keypt án lyfseðils. Lyf sem innihalda íbúprófen eru sennilega besti kosturinn, þ.e. Íbúfen, Ibuxin, Íbúprófen Portfarma eða Alvofen Express. Annar kostur er naproxen, s.s. Naproxen Mylan, Alpoxen eða Naproxen-E Mylan eða díklófenak sem er í lyfinu Voltaren Dolo. Ef þú ert með magasár eða hefur verið með það, ert með astma eða ert viðkvæm fyrir asetýlsalisýlsýru mátt þú ekki taka lyf sem innihalda íbúprófen eða naproxen. Þess í stað skaltu taka lyf sem innihalda parasetamól, t.d. Panodil eða Paratabs. Ef blæðingar eru mjög miklar er rétt að forðast að taka töflur sem innihalda asetýlsalisýlsýru, því að hún hægir á blóðstorknun.