Náttúrulyf

Náttúruvörur

Mig langar til að heyra um það hvort nota megi Ginko Biloba eftir hjartaaðgerð sem var gerð fyrir 4 árum, um er að ræða þrekleysi, mikið rugl á blóðþrýstingi og höfuðverki.

Ginkgo biloba hefur verið notað við blóðflæðisvandamálum, t.d. þegar blóðflæði út í útlimi er slæmt. Það hefur einnig verið notað gegn alzheimer og tinnitus sem er sífellt suð í eyra. Það er almennt ekki notað við of háum blóðþrýstingi. Höfuðverkurinn getur verið afleiðing af of háum blóðþrýstingi.

Gingko biloba má ekki taka með blóðþynnandi lyfjum eins og Kóvar, Hjartamagnýl, Hjarta-aspirin, ASA-ratiopharm, Aspirin, Pradaxa, Plavix, Clopidogrel, Eliquis, Grepid, Ticlid, Xarelto og fleiri. Það þarf líka að gæta varúðar þegar Gingko er tekið með bólgueyðandi lyfjum eins og Íbúfen, Naproxen og Voltaren eða Vóstar, lyfjum sem innihalda risperidon, t.d. Risperdal, Ríson og hjartalyfi sem heitir Cordarone.

 Ég mæli með því að þú talir við lækni og fáir lyf við of háum blóðþrýstingi. Ef þú ert á lyfjum þarf að yfirfara og endurmeta lyfjagjöfina svo meðferðin skili þeim árangri sem ætlast er til, þ.e. blóðþrýstingur innan marka. Mér finnst líklegt að höfuðverkurinn minnki þegar blóðþrýstingurinn er kominn á gott ról. Ég get ekki fullyrt að Gingko Biloba muni duga þér eitt og sér.