Ofvirkni/Athyglisbrestur

Lyfjainntaka

Sonur minn var að byrja á Conserta en hann á svo erfitt með að kyngja töflum. Það stendur í fylgiseðlinum að það megi hvorki tyggja töflurnar né skera þær niður. Eyðileggur það virkni lyfsins ef taflan er skorin niður? Eru þið með einhver ráð við þessu.

Það er rétt að það má hvorki tyggja, mylja eða skipta Concerta töflunum heldur verður að gleypa þær í heilu lagi með glasi af vökva (vatni). Lyfið virkar ekki eins og það á að gera ef taflan er ekki gleypt í heilu lagi. Þetta er vegna forðahönnunar Concerta töflunnar en lyfið er í skel sem er hönnuð þannig að hún gefur frá sér lyfið með jöfnum hraða. Ef taflan er skemmd virkar ekki þessi forðahönnun. Athugaðu að töfluskelin skilst út úr líkamanum og það þarf því ekki að hafa áhyggjur af því þótt stundum verði vart við eitthvað sem líkist töflu í hægðum.

Hvað varðar ráð til að gleypa töfluna þá er misjafnt hvað virkar fyrir hvern og einn og þið gætuð þurft að prófa ykkur áfram. Til dæmis má "fela" töfluna í mat sem er "sleipur" á einhvern hátt, t.d. hunang, hnetusmjör, eplamauk, banana, jógúrt, brauðmola, jafnvel gúmmíhlaupbangsa eða eitthvað annað sem ykkur dettur í hug. Annað ráð er að setja töfluna í munninn og drekka vatnið svo með röri. Það skapar ákveðið flæði sem hjálpar sumum að kyngja töflunni. Öðrum finnst gott að æfa sig á einhverju öðru en sjálfri töflunni, t.d. bara agnarlitlum bitum af einhverjum mat. Svo getur skipt máli hvar taflan er sett á tunguna. Prófið að setja hana framar, aftar, til hliðar eða undir tunguna og athugið hvað virkar best. Tungan getur nefninlega óvart farið upp og lokað fyrir kynginguna og þá getur staðsetningin skipt máli. Það hjálpar líka sumum að drekka aðeins áður en taflan er tekin, jafnvel skola aðeins hálsinn með vatni fyrst. Síðan má líka prófa að láta barnið tyggja einhverja fæðu og setja svo töfluna í munninn áður en kyngt er þannig að taflan fari niður með matnum.