Húðvandamál

Húðsjúkdómar

Strákurinn minn 15 ára er með töluvert af bólum í andliti og hefur heyrt að Decutan sé áhrifaríkt á bólur. Er lyfið eitthvað hættulegt eða miklar aukaverkanir sem þarf að hafa áhyggjur af? Eru einhver önnur sem kæmu til greina? Eða eitthvað annað sem þið getið ráðlagt mér?

Já, Decutan er lyf við slæmum bólum en er yfirleitt ekki notað sem fyrsta val, m.a. vegna aukaverkana. Algengustu aukaverkanirnar eru húðþurrkur, þurrar slímhúðir t.d. á vörum, varabólga, slímhúðum nefs (blóðnasir) og augum (tárubólga). Decutan er vansköpunarvaldandi lyf og konur á lyfinu mega ekki verða ófrískar. Það skiptir auðvitað minna máli fyrir drengi þar sem áhrif á frjósemi eða slíkt eru ekki til staðar. Þetta skýrir það hins vegar að vel er fylgst með allri notkun lyfsins og það er almennt ekki gefið við bólum nema annað hafi verið reynt fyrst. 

Sem dæmi um lyf gegn bólum, önnur en Decutan, eru t.d. sýklalyf til inntöku eins og Doxylin og sýklalyf til notkunar útvortis eins og Dalacin eða Zineryt en það eru fljótandi áburðir. Fleiri krem eru til, t.d. Duac, Epiduo, Differin og Skinoren. Það er misjafnt hvaða lyfjum húðlæknar ávísa og fer eftir ástandi viðkomandi einstaklings. 

Ég mæli með því að þið pantið tíma hjá húðsjúkdómalækni/heilsugæslulækni og skoðið hvað er best að gera.