Getnaðarvarnarpillan

Getnaðarvarnir

Ég er að taka Yaz-getnaðarvarnarpilluna og var að velta því fyrir mér hvort ég get byrjað strax á næsta spjaldi. Ég tek semsagt 24 bleikar og svo 4 sem er ekkert í. Langar að geta frestað blæðingum í viku. Er hægt að byrja strax á næsta spjaldi? 
Var að velta því líka fyrir mér hvort það sé eðlilegt að vera á miklum blæðingum og alveg í 7-10 daga?

Þetta stendur í texta Lyfjastofnunar um Yaz:
Til að seinka blæðingum skal kona halda strax áfram með aðra YAZ þynnupakkningu án þess að taka lyfleysutöflur úr fyrri pakkningunni. Hún má taka töflur og fresta blæðingum eins lengi og hún vill þar til virku töflurnar úr seinni þynnupakkningunni eru búnar. Við frestun á blæðingum geta orðið milliblæðingar eða blettablæðingar. Eftir lyfleysutímabilið er svo byrjað aftur að taka YAZ reglulega.

Þannig að þú sleppir þessum fjórum töflum sem ekkert er í og ferð beint í næsta spjald. Þá ertu örugg með getnaðarvörn og ferð að öllum líkindum ekki á túr þó að hjá sumum konum geti komið fram milliblæðingar.

Ég á erfitt með að svara seinni spurningunni með já-i eða nei-i. Það getur alveg verið eðlilegt að blæðingar taki 7-10 daga en ef það blæðir mikið í þennan tíma og í hvert skipti getur konan fengið einkenni blóðleysis. Ef þér finnst að það blæði óeðlilega mikið og lengi þá mæli ég með því að þú ræðir það við lækninn þinn. Þú nefnir ekki hvað þú ert búin að vera lengi að taka Yaz en það getur tekið nokkra tíðahringi (spjöld) að koma reglu á blæðingarnar.