Gaviscon

Sýrubindandi lyf | Verðflokkur: 0 | Lausasölulyf

Virkt innihaldsefni: Algínsýra Álhýdroxíð Natríumhýdrógenkarbónat

Markaðsleyfishafi: Nordic Drugs

Algínsýra er efni sem hindrar það að innihald magans flæði til baka og upp í vélinda. Algínsýra binst sýru í maga og myndar hlaupkenndan massa með magainnihaldinu. Magainnihaldið verður því meira þykkfljótandi og slettist síður upp í vélinda. Algínsýra er notuð við bólgum í maga vegna offramleiðslu magasýru og líka við bólgum í vélinda vegna uppflæðis magainnihalds. Algínsýra er hér í samsetningu með sýrubindandi saltsamböndum, álhýdroxíði og natríumhýdrógenkarbónati sem draga enn frekar úr áhrifum magasýrunnar.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Mixtúra og tuggutöflur til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
Fullorðnir og börn eldri en 2ja ára: 1-3 tuggutöflur eða 10-20 ml af mixtúru eftir máltíðir og fyrir svefn. Börn 6 mán-2ja ára: 5-10 ml af mixtúru á dag eftir þörfum. Börn yngri en 6 mánaða. 1-2 ml af mixtúru á dag fyrir hvert kg líkamsþyngdar. Gefið börnum í nokkrum skömmtum eftir hverja máltíð. Tyggja skal töflurnar áður en þeim er kyngt.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Innan við 15 mín. frá inntöku.

Verkunartími:
Minnst 2 klst.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum upprunalegum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Slepptu þeim skammti sem gleymdist og taktu lyfið þegar einkenna verður vart. Ef lyfið er tekið að kvöldi fyrir svefn skaltu taka lyfið um leið og þú manst eftir því, en sleppa skammtinum ef það er ekki fyrr en daginn eftir.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Hætta má töku lyfsins þegar einkenni eru ekki lengur til staðar.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Ef teknir eru mjög stórir skammtar eða ef vart verður við einhver óvenjuleg einkenni skal hafa samband við lækni.

Langtímanotkun:
Algínsýra er venjulega notuð í skamman tíma í senn. Langtímanotkun er þó án vandkvæða.


Aukaverkanir

Engar þekktar. Eins og almennt gildir um lausasölulyf eru aukaverkanir sjaldgæfar þegar farið er eftir reglum um notkun og venjulegar skammtastærðir eru notaðar.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Útbrot, kláði, bjúgur        

Milliverkanir

Æskilegt er að láta a.m.k. 2 klst. líða frá inntöku lyfsins og inntöku annarra lyfja.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú sért með skerta nýrnastarfsemi
  • þú takir einhver önnur lyf

Meðganga:
Engin þekkt áhætta er af notkun lyfsins á meðgöngu. Ekki taka nein lyf á fyrstu 3 mánuðum meðgöngu nema í samráði við lækni.

Brjóstagjöf:
Engin þekkt áhætta er af notkun lyfsins samhliða brjóstagjöf.

Börn:
Minni skammtar eru notaðir. Mælt er með notkun mixtúru fyrir börn 2ja ára og yngri.

Eldra fólk:
Venjulegar skammtastærðir.

Akstur:
Lyfið hefur ekki áhrif á aksturshæfni.

Áfengi:
Í litlum skömmtum hefur áfengi ekki áhrif á verkun lyfsins.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.