„Áhyggjur og kvíði hættuleg fyrirbæri“

Viðtal

  • Nadia_01

Nadia KATRÍN Banine fer í gegnum lífið með jákvæðni og gleði að leiðarljósi. Hún selur og stíliserar fasteignir og flýgur um háloftin sem flugfreyja á milli þess sem hún sinnir reiðmennsku, dætrunum og ástinni. Hún er einnig ein þeirra fjölmörgu kvenna sem greinst hafa með krabbamein í brjósti. Hér lýsir Nadia áfallinu við að greinast, bataferlinu, breyttum lífsstíl og sýn hennar á lífið í kjölfar veikindanna.

Nadia_02Nadia greindist með brjóstakrabbamein árið 2010. Hún fann stórt ber í brjósti sjálf og hvetur allar konur til að þreifa reglulega sjálfar. Aðeins átta mánuðum áður hafði hún farið í brjóstamyndatöku og ekkert hafði fundist.

„Við reglulega skoðun hjá mér fann ég sjálf frekar stórt ber í brjóstinu. Ég fór strax til læknis sem sagði mér að alls ekki allar tegundir brjóstakrabbameina sjáist á myndum. Það er gríðarlega mikilvægt að passa sig á þessu falska öryggi og þreifa reglulega sjálf. Sem betur fer gerði ég það,“ segir Nadia glaðlega. „Ég fór í aðgerð og annað brjóstið var fjarlægt, því næst tók við brjóstauppbygging hjá aðalsérfræðingi okkar á því sviði, Kristjáni Skúla Ásgeirssyni. Þar sem að brjóstið var fjarlægt var ekkert eftir til að geisla og fór ég því hvorki í lyfja- né geislameðferð eftir aðgerðina. Aftur á móti valdi ég ákveðna eftirmeðferð þar sem ég tók hormónabælandi lyf og -sprautur. Í því fólst að framkalla hjá mér breytingaskeið.“Nadia_03

Nadia er hugsi og þarf að rifja upp ferlið. „Mér finnst svo langt síðan ég stóð í þessu, það er svo ótalmargt gott sem hefur gerst síðan. En það sem mér fannst erfiðast í þessu ferli var allt þetta val og ákvarðanir sem ég þurfti að taka. Allt í einu stóð ég frammi fyrir því að þurfa að vega og meta sjálf hvaða meðferð væri heppilegust fyrir mig. Það fer eftir því hvaða leið er farin hversu miklar líkur eru á að meinið taki sig upp aftur. Ég fór á endanum í hormónaletjandi meðferð sem var töflumeðferð í fimm ár og samhliða henni sprautumeðferð í tvö ár. Mér fannst algjör martröð að þurfa að taka þessa ákvörðun,“ segir Nadia og heldur áfram.

„Mín upplifun af heilbrigðiskerfinu var sú að ég þurfti að fylgja hlutunum mikið eftir sjálf  og taka ábyrgð á eigin bataferli. Ég fékk ýmsa kvilla meðan á þessu stóð og var það mikið í mínum höndum að ýta á eftir frekari rannsóknum. Til dæmis á meðan töflumeðferðinni stóð byrjaði að blæða mikið hjá mér. Ég leitaði til læknis og samkvæmt ráðleggingum bæði frá kvensjúkdóma- og krabbameinslækninum mínum var ég látin hætta á töflunum tímabundið. Svo leið og beið og aldrei heyrði ég meira frá læknunum. Áður en ég vissi af var ég búin að vera lyfjalaus í fjóra mánuði. Þá helltust yfir mig áhyggjur og slík streita er aldrei góð, ekki síst fyrir manneskju í miðjum veikindum. En þá reyndist það erfiðara en allt að fá tíma aftur hjá krabbameinslækninum mínum. Endaði það svo að ég fór til annars læknis. Það kom mér í opna skjöldu að í raun hefði ég bara getað setið heima afskiptalaus ef ég hefði ekki verið vakandi fyrir þessu sjálf. Enginn fylgdi mínu ferli eftir og kannaði hvort ég ætti ekki að byrja að taka töflurnar á ný. Á þessu augnabliki fann ég á eigin skinni að það heldur enginn annar utan um þig og þín veikindi nema þú sjálf. Það getur verið stressandi tilhugsun en það er líka bara veröldin eins og hún er,“ segir Nadia og bætir við að þetta utanumhald hafi breyst töluvert á undanförnum fimm árum. „Nú skilst mér að það sé teymi inni á spítalanum sem haldi utan um þá sem greinast.“

Nadia sótti sér hvorki andlegan stuðning innan kerfisins á meðan veikindunum stóð né eftir þau. „Þegar við verðum fyrir áfalli er mikilvægt að tala um tilfinningar sínar, upplifun og reynslu. Sumum reynast ýmsir stuðningshópar og samtök vel en ég sótti mér aldrei neinn stuðning út fyrir mitt eigið net, hvorki í Kraft né aðra stuðningshópa. Aftur á móti talaði ég mikið um áfallið við mína nánustu og sótti kraft til þeirra. Það reyndist mér best. En fyrir fólk sem hefur dræmt net í kringum sig er frábært að geta sótt stuðning til ýmissa samtaka og stuðningshópa,“ segir hún og ítrekar hve einstaklingsbundið ferli það er að greinast með krabbamein og að hver og ein verði að finna hjá sjálfri sér hvernig hún tæklar baráttuna.Nadia_05

Hvernig vannst þú úr áfallinu þegar þú greindist?

„Það var eiginlega magnað. Þegar ég sat inni hjá lækninum og hann sagði mér frá greiningunni fannst mér eins og ég færðist úr eigin líkama. Það var eins og ég væri komin út úr sjálfri mér og væri áhorfandi að samtali mínu við lækninn. Ég var auðvitað í áfalli. Í lok viðtals ráðlagði læknirinn mér að taka einhvern með mér í næsta viðtal til hans þar sem ég myndi líklega ekki muna neitt af því sem hann segði. Það reyndist hárrétt og var ég fegin að hafa mömmu mína mér við hlið í næsta viðtali. Ég er sannfærð um nauðsyn þess að hleypa tilfinningunum út þegar manni eru tjáðar slíkar fréttir. Það er svo mikilvægt að byrgja ekki þessar tilfinningar inni. Í raun fyndist mér að allir ættu að taka einn dramadag á ári, það er lífsnauðsynlegt að gráta og blása reglulega. En þegar allt kemur til alls þá er það að fá krabbameinsgreiningu verkefni sem þarf að ráðast í, eins klisjulega og það kann að hljóma,“ segir Nadia. Hún segir mikilvægt að fólk sem greinist með krabbamein hugi vel að bæði líkamlegri og andlegri líðan og festist ekki í sorginni. „Það er nauðsynlegt að leyfa öllum þessum hugsunum sem dúkka upp að fljúga í gegnum hausinn. Þessi „af hverju þurfti ég að lenda í þessu“ spurning og vangaveltur í svipuðum dúr eru órjúfanlegur hluti af ferlinu. Sú hugsun að ætla að harka þetta af sér, ekki láta þetta hafa áhrif á sig og halda ótrauð áfram, eru mögulega verstu viðbrögð sem hægt er að sýna.“

Nadia vill meina að nauðsynlegt sé að skoða sinn persónulega lífsstíl með gagnrýnum augum í kjölfar veikinda líkt og hún gekk í gegnum. „Ef sú sem greinist gerir engar breytingar á lífsstíl sínum eða andlegri vellíðan þá er líklegra að sjúkdómurinn taki sig upp aftur. Sjö, níu, þrettán,” segir Nadia og bankar þrisvar í borð og bætir við að nú séu sex ár síðan hún greindist.

Nadia telur kvíða, áhyggjur og hennar brjóstakrabbamein haldast í hendur. „Ég fór á athyglisverðan fyrirlestur um samband kvíða og krabbameins og ræddi mikið um hann við krabbameinslækninn minn. Á meðan veikindum mínum stóð kynntist ég mörgum konum í sömu stöðu. Nánast undantekningalaust fannst mér þær hafa lent í einhvers konar áfalli áður en þær greindust; gjaldþroti, makamissi, barnsmissi, skilnaði eða öðru áfalli sem mögulega kom þessu af stað. Svo þegar ég sótti þennan fyrirlestur fannst mér þetta tóna sterkt við upplifun mína. Þar kom fram að hluti af ónæmiskerfi okkar samanstandi af svokölluðum drápsfrumum (e. killer cells). Ef líkaminn er undir miklu álagi, upplifir kvíða og hefur ekki stjórn á honum þá framleiðir líkaminn meira endorfín. Á meðan líkaminn framleiðir stresstengda hormóna getur hann ekki framleitt þessar drápsfrumur. Talið er að annan hvern dag hjá flestum manneskjum, ráðist krabbameinsfrumur á líkamann og oftast eyðast þær. Ef drápsfrumurnar eru of fáar ná krabbameinsfrumurnar frekar bólfestu og stækka. Talandi um þetta samband þá er mikilvægt að athuga að stress getur verið af hinu góða og er ekki það sama og djúpstæður kvíði og áhyggjur. Mér hefur verið sagt að fólk sem til dæmis vinnur stressandi störf eins og lögreglumenn eða flugumferðarstjórar sé ekki hættara við að fá krabbamein en öðrum. Að sjálfsögðu er ekkert eitt rétt hvað þetta varðar en þessi skýring höfðaði sterkt til mín. Mín upplifun er að það er gríðarlega mikilvægt að keyra sig ekki út í vinnu og halda að það felist sigur í því að vinna mikið eða yfir sig. Kvíði getur hreinlega verið lífshættulegur.“

Þegar Nadia er spurð hvort hún tengi eigin veikindi við kvíða og áhyggjur er svarið játandi.

„Ég var í tvö hundruð prósent starfi, einstæð móðir og nýskilin. Ég á erlendan barnsföður svo að læknisheimsóknir, foreldraviðtöl og flest það sem við kom dætrum mínum lenti meira á mér og svo bættust við peningaáhyggjur sem fylgja oft svona aðstæðum. Þar að auki var ég ekki í góðu sambandi á þessum tíma. Ég get algjörlega tengt við að hafa upplifað persónulegt áfall í einkalífinu og ekki svo löngu síðar fann ég ber í brjóstinu. Það var mjög ógnvænlegt þegar ég áttaði mig á því.“

Eftir að Nadia greindist gerði hún drastískar breytingar á eigin lífsstíl.Nadia_04

Hún byrjaði á að minnka starfshlutfall sitt úr tvö hundruð prósent niður fyrir hundrað prósent, venti kvæði sínu í kross og flutti út á land. „Ég byrjaði á að taka „hláturinn lengir lífið - línuna” alla leið“, segir Nadia og brosir. „Friends-seríurnar urðu mitt meðal en ég horfði á um tvo þætti á dag eingöngu til að hlæja. Ég ákvað að láta mér líða vel og fann hvernig ég varð öll léttari, bjartsýnni og jákvæðari. Ég fór í reiðmennskunám á Hvanneyri, sem er alhliða nám fyrir hestafólk sem vill kynnast sportinu. Svo bý ég svo vel að æskuvinkona mín og hennar maður reka hrossaræktarbú austur í Landeyjum. Stóð mér því til boða einn góðan veðurdag að leigja hús á næsta bæ við þau. Ég stökk á það tækifæri og flutti þangað með stelpurnar mínar fjórum árum eftir að ég greindist. Þær gengu í skóla á Hvolsvelli, tóku skólabílinn og við lifðum góðu sveitalífi. Þetta líf líktist því að búa með fjölskylduna í útlöndum; fjölskylduböndin þéttust og lífið varð einfaldara. Í borginni er mikið áreiti, ég er stöðugt að keyra, sækja, skutlast og hraðinn er mikill. Á þessum tíma fór ég í bæinn þegar ég átti að  fljúga, þar sem ég vann og vinn enn í hlutastarfi sem flugfreyja hjá Icelandair og fór í búðina einu sinni í viku. Annars var ég þess á milli heima með stelpunum mínum. Þessi tími var okkur mæðgum notalegur og dýrmætur. Þessi sveit er líka yndisleg, ég horfði á Vestmannaeyjar úr heita pottinum fyrir utan húsið mitt og Eyjafjallajökul úr svefnherbergisglugganum mínum.“

Eftir að Nadia náði fullum bata einbeitti hún sér að því að lifa lífinu eins eðlilega og hægt er en varð óhjákvæmilega meðvitaðri um matarræðið. „Sykur og mjólkurvörur eru gjarnan talin eldsneyti fyrir krabbameinsfrumurnar. Ósjálfrátt minnkaði ég því mjólkur- og sykurneyslu. Auðvitað verð ég oft hrædd við að krabbameinið taki sig upp aftur en þá er mikilvægt að minna sig á hinn gullna meðalveg, hvorki gleyma heilsunni né lifa lífinu lifandi og hafa gaman. Eins er nauðsynlegt að minna sig á að þetta endalausa áreiti er alls ekki hollt fyrir okkur, þar sem allir hafa stöðugan aðgang að þér í gegnum netið og símann. Það er mikilvægt að halda í hina stóísku ró og minnka áhyggjurnar.“

Hvernig telur þú best að tækla kvíðann fyrir því að greinast aftur?

„Þetta er erfið spurning í ljósi þess að við erum eins misjöfn og við erum mörg. En allt sem stuðlar að andlegu jafnvægi eins og til dæmis hugleiðsla og Kundalini jóga sem miðar að því að ná stjórn á huganum og vera í núinu, virkar vel. Einnig hef ég sjálf farið um það bil einu sinni á ári í meltingarhreinsun eða „detox“. Mér finnst nauðsynlegt að gefa meltingarfærunum reglulega pásu og borða mat sem er auðmeltur og rennur vel í gegnum mig. Ég hef oft heyrt frasann um að dauðinn byrji í ristlinum. Ef þetta er ekki að skila sér daglega þá er það hættulegt fyrir okkur. Ég vanda mig því sérstaklega við að hugsa vel um meltinguna.“

Þegar Nadia er spurð út í hestamennskuna segist hún reyna að vera mikil hestakona og brosir. Hún og Gunnar eiginmaður hennar, sem hún giftist síðastliðinn júlí, hafa sameiginlegan áhuga á hestum. Hann er lögmaður hjá LOGOS lögmannsþjónustu og er með hrossaræktarbú í Hrísdal á Snæfellsnesi.

Voru það kannski hestarnir sem sameinuðu ykkur?

„Nei, reyndar ekki en það er sameiginlegt áhugamál hjá okkur. Ég kynntist honum í gegnum hitt starfið mitt, sem sölufulltrúi fasteigna.“ Nadia og Gunnar giftu sig síðastliðið sumar. „Þetta var æðislegur dagur í alla staði. Við réðumst reyndar ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og ákváðum að gifta okkur fyrir vestan á Snæfellsnesi þar sem hann á jörð. Við breyttum reiðhöll í veislusal og vorum með Great Gatsby þema, fjaðrir, perlur og allan pakkann. Reiðhöllin var skrúbbuð, máluð og nýtt gólf var lagt. Maðurinn minn er alinn upp í Stykkishólmi og mágkona mín sem er prestur gifti okkur í gömlu kirkjunni í bænum. Dagurinn heppnaðist ofsalega vel,“ segir hún skælbrosandi.

Nadia hefur ólíka starfsreynslu, hefur komið víða við og virðist vera óhrædd við að breyta til og hefja ný ævintýri. „Við eigum bara eitt líf í þessum líkama. Ég var atvinnudansari í útlöndum í ellefu ár og eignaðist eldri stelpuna mína úti í Wales þar sem ég dansaði áður en ég flutti heim. Eftir heimkomu fór ég í hönnunarnám í Iðnskólanum í Hafnarfirði, fékk svo fastráðningu sem flugfreyja hjá Icelandair og starfa þar enn í hlutastarfi. Starfið er frábært og hentar mér vel. Þegar ég vinn er vinnudagurinn langur en á móti fæ ég góð vaktafrí. Um tíma ákvað ég að taka að mér þáttastjórn í sjónvarpsþættinum Innlit og útlit á Skjá einum. Það var dásamlegur tími og náði ég að svala mínum óbilandi hönnunaráhuga þar. Í dag vinn ég svo sem sölufulltrúi á fasteignasölunni Landmark og sem sjálfstætt starfandi innanhúss ráðgjafi á milli þess sem ég flýg. Svo er ég á seinna árinu í námi til löggildingar fasteignasala. Mér finnst starf mitt á Landmark alveg frábært, þar nýt ég mín vel bæði í sölu og við að aðstoða mína viðskiptavini við að stílisera fyrir myndatökur og fleira. Mér finnst ég algjörlega á réttum stað í lífinu,“ segir Nadia að lokum.