Evrópska sjúkratrygginga-kortið

Ferðir og ferðalög

  • Kort

Ríkisborgarar Íslands og annarra EES-ríkja sem eru búsettir og sjúkratryggðir hér á landi eiga rétt á að fá evrópskt sjúkratryggingakort. Kortið er notað ef korthafi veikist eða slasast í öðru EES-ríki og staðfestir rétt korthafa til heilbrigðisþjónustu sem verður nauðsynleg meðan á tímabundinni dvöl stendur.

Með framvísun kortsins átt þú rétt á að fá þá aðstoð sem nauðsynleg er í slysa- og veikindatilvikum, meðan dvalist er í EES landi, á sömu kjörum og íbúar viðkomandi lands. Um kortið og notkun þess gilda EES-reglugerðir um almannatryggingar og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Evrópska sjúkratryggingakortið gildir í öllum ríkjum EES og Sviss. Kannið hvers konar tryggingar þið hafið og hvort þær gilda á ferð erlendis. Nauðsynlegt getur verið að kaupa ferðatryggingu hjá tryggingafélögum. Slíkar tryggingar greiða bætur fyrir fleira en almannatryggingar gera, t.d. kostnað vegna heimflutnings.

Evrópska sjúkratryggingakortið gildir eingöngu vegna læknismeðferðar sem veitt er á opinberum sjúkrastofnunum eða af heilbrigðisstarfsmönnum með samning við hið opinbera í landi hverju. Leitið því ávallt slíkra upplýsinga.

Athugið að gefa þarf út evrópskt sjúkratryggingakort fyrir hvern fjölskyldumeðlim.

Sjá nánar á vef   Sjúkratrygginga Íslands.