Eigum við möguleika?

Almenn fræðsla Hreyfing

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum Íslendingi að karlalandslið okkar í knattspyrnu leikur í lokakeppni Evrópumeistaramótsins í sumar, en það er í fyrsta sinn sem landsliðið nær svo langt.

En hvaða væntingar getum við gert OKKUR um árangur á mótinu? Eigum við að vera sátt við það eitt að taka þátt eða eigum við að búast við stórum sigrum og jafnvel verðlaunum? 

Evrópumeistarmótið í knattspyrnu hefur stundum fengið óvæntan endi. Lið sem ekki hafa verið hátt skrifuð hafa nefnilega stundum náð að sigra þetta erfiða mót. Lokakeppni EM hefur verið haldin fjórtán sinnum og í heildina hafa níu þjóðir náð að vinna mótið, sem er býsna mikil dreifing. Spánn og Þýskaland hafa unnið þrisvar hvor þjóð og Frakkar hafa unnið tvisvar. Sex þjóðir hafa unnið einu sinni; Sovétríkin, Ítalía, Tékkóslóvakía, Holland, Danmörk og Grikkland.Landsliðið fagnar marki

Sú staðreynd að miklar knattspyrnuþjóðir á borð við Ítalíu og Holland hafa bara unnið mótið einu sinni sýnir hversu gífurlega erfitt er að ná alla leið á efsta pall. Hins vegar hafa sigrar Danmerkur, Tékkóslóvakíu og Grikklands sýnt að stundum geta litlu þjóðirnar á knattspyrnusviðinu komið á óvart og farið alla leið. Niðurstaðan er því líklega sú að ómögulegt er að spá fyrir um sigurvegara mótsins, og hvað þá árangur Íslands.

Euro 2016Einnig er athyglisvert hvaða þjóðir hafa aldrei unnið Evrópukeppnina; þar á meðal England. Þær þjóðir sem hafa aldrei hampað bikarnum eftirstótta, en náð í úrslitaleikinn og tapað, eru Júgóslavía (1960 og ‘68), Belgía (1980), Tékkland (1996) og Portúgal (2004). Lið Sovétríkjanna sálugu hefur oftast tapað úrslitaleiknum, eða þrisvar, eftir að hafa unnið fyrsta Evrópumótið sem var haldið 1960. 

Tveir óvæntir sigurvegarar

Sigur Danmerkur 1992 var afar eftirminnilegur, ekki síst fyrir þær sakir að Danmörk vann sér ekki sæti í úrslitakeppninni heldur fékk úthlutað sæti Júgóslavíu, þar sem í landinu geisaði borgarastyrjöld. Til að gera langa sögu stutta þá fóru Danir alla leið og sigruðu Þjóðverja í úrslitaleik 2-0. Keppnin fór fram í Svíþjóð og því stutt að fara fyrir stuðningsmenn danska liðsins.

Sigur Grikkja 2004 og Sigur Danmerkur 1992Sigur Grikkja árið 2004 var ekki síður óvæntur. Liðinu gekk þó vel í undankeppninni, þar sem þeir skildu Spánverja eftir með sárt ennið, en var þrátt fyrir það ekki spáð glæstum sigrum í lokakeppninni. Portúgal var á heimavelli í keppninni og var spáð öruggum sigri í úrslitaleiknum. Grikkir blésu á allar hrakspár og unnu úrslitaleikinn 1-0, eins og aðra leiki sína í úrslitakeppninni. Var þetta í fyrsta skipti sem gestgjafar töpuðu úrslitaleik keppninnar.

Getum við unnið?

Líkurnar á því að Ísland sigri Evrópumótið 2016 eru satt að segja afar litlar. Í fyrsta sinn eru 24 þjóðir í lokakeppninni, sem auðveldar ekki málið. Samkvæmt veðbönkum erum við Íslendingar settir í 16. sætið yfir líklega sigurvegara, þannig að við erum þó ekki ólíklegasta liðið til að sigra keppnina. Séu líkur mótherja okkar í F-riðli skoðaðar þá ættum við að komast upp úr riðlinum. Portúgal er talið hafa sjöundu bestu líkur á sigri, Austurríki níundu en Ungverjar eru taldir eiga minni líkur á sigri en við; þeir eru settir í 22. sætið.

Hagfræðingurinn Lars Christensen bendir á að íþróttahagfræði taki margar breytur inn í reikninginn og þar á meðal verga landsframleiðslu á mann. Sé eingöngu horft til þeirrar breytu eigum við von á því að lenda í öðru sæti; munum tapa  úrslitaleiknum fyrir Sviss.

Þjálfarar íslenska landsliðsins, þeir Lars Lagerback og Heimir Hallgrímsson, útiloka ekki þann möguleika að liðið fari alla leið. „Það sem hefur gerst einu sinni getur gerst aftur,“ sagði Heimir Hallgrímsson í viðtali við Fótbolta.net fyrr í vor, heldur leyndardómsfullur. Leikmennirnir sjálfir hafa sagt að þeir fari í hvern leik með það markmið að sigra þann leik, taka einn leik í einu eins og oft er sagt. Landsliðsþjálfararnir hafa þó gefið það út að fyrsta markmið sé að komast upp úr riðlinum. Nánari markmið hópsins sem fer fyrir hönd Íslands á lokakeppnina í Frakklandi hafa ekki verið gefin upp.

Orðatiltækið segir að trúin flytji fjöll. Þess vegna er óhætt að láta sig dreyma.

Leikmenn Íslands

Nánast allir leikmenn íslenska liðsins eru atvinnumenn í knattspyrnu hjá erlendum liðum. Flestir spila á Norðurlöndunum; í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Þá eru leikmenn í hópnum sem leika á Englandi, Ítalíu, í Rússlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Einn leikmaður leikur í úrvalsdeildinni ensku, en það er að sjálfsögðu Gylfi Sigurðsson.

Elsti leikmaður hópsins er Eiður Smári Guðjohnsen, fæddur í september 1978, og sá yngsti er Hjörtur Hermannsson, fæddur í febrúar 1995.  Það er því 17 ára munur á elsta og yngsta leikmanni liðsins.

Þess má geta til gamans að þegar Eiður Smári lék sinn fyrsta landsleik í apríl 1996 var Hjörtur aðeins eins árs, tveggja mánaða og 17 daga gamall.

Leikmenn íslands þeysast um með boltannLeikir Íslands

Ísland leikur í F-riðli með Austurríki, Portúgal og Ungverjalandi. Ísland leikur gegn Portúgal 14. júní í St. Etienne, gegn Ungverjalandi 18. júní í Marseille og gegn Austurríki 22. júní í París, á Stade de France leikvanginum glæsilega.

Þeir Íslendingar sem ætla að fylgja liðinu í Frakklandi þurfa því að ferðast um allt landið til að sjá alla leikina.

Það fer eftir því í hvaða sæti íslenska liðið lendir í riðlinum hverjir verða mótherjar þess og hvar verður leikið. Fari svo að íslenska liðið nái í 16 liða úrslit er líklegt að það leiki í Nice, Lille eða Lens. Ef það kemur öllum á óvart og sigrar riðilinn ferðast íslenski hópurinn hins vegar til Toulouse. Þannig að það er ljóst að ekki er hægt að panta sér gistingu með neinni vissu sé ætlunin að fara á leikinn í 16 liða úrslitunum.

Hvernig komumst við áfram?

Tvö efstu liðin í hverjum hinna sex riðla fara áfram í 16 liða úrslitin. Auk þess komast þau fjögur lið áfram sem eru með besta árangurinn í þriðja sæti síns riðils. Því er alls ekki ólíklegt að Ísland komist áfram, jafnvel þó liðið verði í þriðja sæti síns riðils. Fari svo að við endum í þriðja sæti og komumst áfram leikum við gegn efsta liði C eða D-riðils. Í C-riðli er Þýskaland sigurstranglegasta liðið og því á brattann að sækja fyrir okkur. Í D-riðli eru Spánverjar sigurstranglegastir og því gætum við lent gegn þeim í 16 liða úrslitunum. Ef við endum hins vegar í öðru sæti okkar riðils leikum við í 16 liða úrslitum gegn liðinu sem verður í öðru sæti B-riðils. Þar eru England, Rússland, Slóvakía og Wales og ómögulegt að spá fyrir um hvaða lið verður í öðru sæti riðilsins. Okkur Íslendingum þætti ekki leiðinlegt að leika gegn Englandi og jafnvel slá þá fornfrægu knattspyrnuþjóð út.

Ef allt gengur upp og við vinnum riðilinn þá leikum við gegn liðinu í öðru sæti í E-riðli. Þar eru samankomnar miklar knattspyrnuþjóðir; Ítalía, Svíþjóð, Belgía og Norður-Írland og því gersamlega ómögulegt að spá fyrir um annað sætið.

Það er ansi mörg „ef“ í þessum útreikningum og því ómögulegt að spá fyrir um hvort íslenska liðið fer upp úr riðlinum og fari svo er enn erfiðara að spá fyrir um mótherja í 16 liða úrslitunum.

Sá sem þetta skrifar spáir því að við förum í 16 liða úrslit þar sem við mætum Englendingum og höfum þar sigur. Eftir það getur allt gerst!