Hefur alltaf verið á fartinni

Almenn fræðsla Menning

Göngugarpurinn og gleðisprengjan Reynir Pétur Steinunnarson býr í fallegu húsi á besta stað á Sólheimum. Undanfarin 65 ár hefur hann búið í þessu rólega, sjálfbæra samfélagi í sátt við menn og náttúru og vill hvergi annars staðar vera. Hér ræðir Reynir Pétur uppvaxtarárin, dellurnar, ástina og örlögin.

Hann fæddist í Reykjavík í október árið 1948 og var aðeins um þriggja mánaða gamall þegar hann veiktist alvarlega af heilahimnubólgu. „Í bænum var faraldur. Veikin gleypti sum börnin og skilaði öðrum misvel út í þjóðfélagið. Það hljómar kannski skringilega en miðað við hvað ég var fárveikur þá slapp ég mjög vel. Miðað við lýsingar systur minnar og mömmu þá hefði ég átt að skaddast illa. Þegar ég var rúmlega þriggja ára og mamma fór með mig til læknis, eins og gengur og gerist með börn á þessum aldri, þá ráðlagði læknirinn mömmu að fara með mig í sveit. Það var gert í þá daga.“ Móðir Reynis hafði verið svokallaður sumarkrakki á Sólheimum og þekkti því til staðarins og svo fór að Reynir Pétur var sendur þriggja ára gamall á Sólheima. „Ég er heppinn að hafa komið hingað á Sólheima árið 1952. Það er ekki til neitt sem guð ætlar, það er bara bull. Þetta er allt byggt á aðstæðum,“ segir hann.

Þegar Reynir er spurður um uppvaxtarárin á Sólheimum svarar hann hratt og örugglega. „Maður þekkti eiginlega ekkert annað. Fyrst var ég í gamla Sólheimahúsinu í umsjá Fríðu en hún var fósturdóttir Sesselju sem stofnaði Sólheima. Þegar hún eignaðist svo dóttur sína í febrúar 1954 gat hún ekki lengur sinnt okkur börnunum og fékk ég því nýja fóstru sem var dönsk. Þegar ég var orðinn stálpaðri flutti ég í kjallarann í steinhúsinu en við visst þroskastig var okkur skipt í stráka- og stelpuhópa. Ég skynjaði að það væru reglur í gangi og komst að því með auknum þroska að það var ýmislegt sem ekki mátti, eins og að hitta stelpur. Það var bara þannig. Með tíð og tíma sá ég svo að það var ekki alveg rétta leiðin. Þetta var fáfræði. Eflaust var verið að forða okkur frá því að hitta stelpur því þá hefðu þær getað orðið óléttar. En þá kemur að því sorglegasta við þetta, því miður voru stelpurnar teknar úr sambandi. Auðvitað hefði verið réttara að tala við stúlkurnar og hafa þær með í ráðum,“ segir Reynir alvarlegur í bragði. „Ég eignaðist marga góða vini hér á Sólheimum en fékk auðvitað líka að kenna á því, þetta eru allt plúsar og mínusar. Mér var stundum strítt og fólk er mjög missterkt að taka á móti stríðni. Ég hafði ekki tök á að meðhöndla hana. Engu að síður eignaðist ég vini sem ég deildi dellunum mínum með. Og það var yndislegt.“Reynir Pétur

Dellurnar dreifðu huganum

Þeir sem þekkja til Reynis Péturs hafa eflaust heyrt af þeim fjölmörgu áhugamálum sem hann hefur ræktað í bland við garðyrkjuna í gegnum tíðina. „Ég hef haft fullt af fáránlegum dellum alla mína ævi fyrir ólíkustu hlutum eins og fánum, stærðfræði, flugvélum, tónlist, geimnum og meira að segja rafmagnsstaurum. Rafmagnið kom hingað á Sólheima fyrst haustið 1956 og ég heillaðist gjörsamlega af því og virkni þess. Seinna meir fékk ég alvarlega flugvéladellu. Ég hafði aldrei komið nálægt flugvél fyrr en árið 1956 þegar pabbi Sigga Gísla, vinar míns, lenti lítilli, rauðri og gulri kennsluflugvél hér á túninu fyrir ofan. Það er ógleymanlegt, ég gat ekki haft augun af henni.“ Reynir Pétur lýsir af innlifun fyrstu flugferð sinni árið 1967, þegar hann ásamt nokkrum félögum á Sólheimum fékk far til Reykjavíkur og flaug meðal annars yfir Sólheima. Andlit Reynis ljómar er hann lýsir flugferðinni. Hann leikur flugvélina á miðju stofugólfinu í notalega húsinu sínu en stoppar svo skyndilega, „Hvað um það. Allar þessar dellur björguðu mér frá því hvernig mér leið og dreifðu huganum.“ Reynir Pétur lýsir enn einni dellunni, sem var tónlist. „Ég gerði til dæmis músík sem heitir Delluminningin. Í þá daga var aðeins eitt kassettutæki á hverri deild, ólíkt því sem gengur og gerist um þessar mundir. Í dag eiga börn fullt af öllu. Mér finnst það heldur of langt gengið. Nú leika börn sér líka mun minna heldur en þau gerðu fyrir 30 árum. Um tíma var ég farinn að öfundast svolítið og spurði sjálfan mig af hverju börn í dag fengju miklu fleiri og flottari fermingargjafir en ég fékk á sínum tíma. En þá rifjaði ég upp hvernig þetta var þegar ég fermdist, þá léku börn sér meira úti. Aftur á móti í dag fá börn mikla peninga í fermingargjöf og sitja svo fyrir framan tölvuna allan daginn. Þetta er ekki góð þróun.“

Reyni Pétri er tíðrætt um móður sína og samskiptin við hana á uppvaxtarárum sínum. „Mamma bjó í Reykjavík og ég á Sólheimum. Hún eignaðist mörg börn sem hún þurfti að sinna, eins og gefur að skilja, en þar að auki voru samgöngur erfiðar. Börn sem send eru í sveit upplifa oft misskilning. Þegar ég var lítill, átti ég það til að spá í spilin og spyrja sjálfan mig hvort mömmu þætti raunverulega vænt um mig,“ segir Reynir dapur á svip og lýsir því hvernig hann bar sig og sínar aðstæður saman við annarra á Sólheimum. „Mér fannst þeir sem áttu heima hér á Sólheimum og voru á svipuðu plani og ég fara mun oftar í bæinn að hitta fólkið sitt. Á þessum augnablikum helltust tilfinningarnar yfir mig. Ég man vel eftir því að hafa velt því fyrir mér á fermingardeginum mínum hvort fjölskyldan mín myndi mæta. Í fermingunni sátum við í boga í kirkjunni og allir strákarnir sem fermdust með mér höfðu fengið foreldra sína á staðinn. Þegar ég kíkti aftur fyrir mig til að sjá mitt fólk, sá ég engan nema Sesselju forstöðukonu. Ég skildi ekkert í þessu og varð spældur. Eftir athöfnina fór ég fram, frekar dapur, en sá þá allt í einu Gunnu systur mína koma hlaupandi sem sagði mér að mamma hefði ekki komist. Þá fraus ég bara,“ segir Reynir Pétur og vöknar um augun. „Seinna komst ég að því hvað hafði gerst, bíll mömmu hafði bilað á leiðinni. Ég varð mjög feginn að heyra útskýringuna. Það hlaut að hafa verið maðkur í mysunni,“ segir hann brosandi.

Jólin eftir fékk Reynir Pétur hópmynd af öllum systkinum sínum í jólagjöf. Þá rann raunverulega upp fyrir honum hve stóran systkinahóp hann ætti. „Þessi mynd var góð jólagjöf. Í fyrsta lagi sýndi myndin mér hve ríkur ég væri að eiga öll þessi systkini og í öðru lagi útskýrði myndin fyrir mér hve mikil vinna og tími hafði farið í að sinna öllum þessum börnum. Þá lagði ég saman tvo og tvo og skildi hvers vegna mamma hefði haft skemmri tíma til að sinna mér.“ Reynir rifjar upp eftirminnilegt atvik árið 1967, þá 19 ára gamall, þegar systir hans heimsótti hann á Sólheima. „Ég man að ég freistaðist til að spyrja hana hvort mömmu þætti vænt um mig. „Reynir, þú þarft ekkert að óttast. Mömmu þykir mjög vænt um þig. Ég skal meira að segja þér annað, alltaf þegar hún heimsótti þig fór hún að gráta,“ sagði hún og þá skildi ég betur aðstæður,“ rifjar Reynir upp og vöknar um augun. „Hér á Sólheimum eru nokkrir sem eiga fá systkini en fóru oftar en ég í bæinn, aldrei myndi ég hafa viljað skipta. Mikil lukka fólst í að eignast öll þessi systkini. Þau eru öll yndisleg og ég myndi ekki vilja vera án þeirra í dag.“

Reynir Pétur fer á flug og rifjar upp fleiri æskuminningar og þar á meðal hefðir í kringum jólahald á Sólheimum. „Fyrstu árin á Sólheimum voru jólapakkarnir opnaðir að morgni jóladags. Á aðfangadagskvöld var spiluð músík, lesin jólasaga og svo fengum við engan venjulegan jólamat, heldur rjómatertur, ávexti og kakó í kvöldmat. Það var svakalega kósí. Eftir mat fóru allir heim í deildirnar sínar og þá var nú oft erfitt að sofna og jólanóttin var yfirleitt löng. Daginn eftir fórum við í salinn klukkan tíu um morguninn og hittum jólasveininn. Það var yndisleg stund. Oft hafði nóttin verið erfið og ég legið andvaka og hálfkvíðinn að hitta jólasveinka því hann las upp hvort þú hefðir verið þægur. Ekki vildi ég fá skemmda kartöflu í skóinn,“ útskýrir hann og ræðir í kjölfarið hve skrítið það sé að hóta börnum kartöflum í skóinn séu þau óþæg, því kartöflur séu hollur og góður herramannsmatur. Aftur á móti sé ömurlegt að fá skemmda kartöflu.“

Reynir Pétur gengur aftur

Um þessar mundir eru um þrjátíu ár síðan Reynir Pétur arkaði hringinn í kringum landið og uppskar landsfrægð er þjóðin fylgdist spennt með honum spæna upp malbikið og safna um leið fyrir nýrri byggingu á Sólheimum. Í tilefni af 85 ára afmæli Sólheima í fyrra var sett upp sýning um afrekið síðastliðið sumar á hinni árlegu Menningarveislu Sólheima sem bar heitið Reynir Pétur gengur betur. Í ár er stefnt að því að setja sýninguna upp aftur en að þessu sinni undir nafninu Reynir Pétur gengur aftur. En hvaðan ætli þessi óþrjótandi áhugi Reynis fyrir göngum sé sprottinn?Reynir heldur á Reyni

„Ég fór mikið út að labba þegar ég var barn. Það var skylda að fara með unga krakka út að labba í þá daga. Eitt sinn þegar ég var lítill strákur og úti að labba um vetur fékk ég kul í hendurnar. Það voru bara mistök en þess vegna eru hendurnar mínar svona,“ segir Reynir Pétur og sýnir verklega lófa sína. „Ég fékk miklar dökkar blöðrur og var lengi í meðferð með lófana eftir þetta. Þá höfðu fóstrunar farið með okkur börnin út að labba að venju og ég misst vettlingana. Ég átti það til að borða snjó, vettlingarnir höfðu blotnað og ég hafði tekið þá af mér. Þegar ég byrjaði að væla sáu fóstrurnar hendur mínar sem voru þá þegar mjög illar farnar. En þetta er útúrdúr,“ segir Reynir og heldur áfram. „Ég hef alltaf labbað mikið, var mjög duglegur að sækja póstinn í gamla daga auk þess sem ég var alltaf sendur eftir eggjum á næstu bæi. Ég hef verið á fartinni í gegnum tíðina og farið reglulega í langa göngutúra um sveitina um helgar. Einn félagi minn hér á Sólheimum labbaði einn daginn lengra en ég. Þá ákvað ég að labba enn lengra en hann og gekk þar til ég kom að Minni-Borg. Mér fannst það ekki nógu langt og gekk því alla leið að Stóru-Borg og til baka. Þetta var árið 1971 og þar með var göngudellan hafin.“ Reynir Pétur lét ekki þar við sitja en nokkrum árum síðar áttu hjólreiðar hug hans allan. Nýlega tók Reynir Pétur saman öll þau skipti sem hann hefur ýmist hjólað eða gengið að Minni-Borg og telja þau nú um tvö þúsund.

Vildi breyta viðhorfi til „þessa“ fólks

Tíðar og langar göngur Reynis Péturs höfðu vakið athygli fólks á Sólheimum. Eitt sinn er hann sat í heita pottinum að láta líða úr sér eftir eina gönguna hitti hann tvo menn. Annar þeirra viðrar þá hugmynd við Reyni að ganga hringinn í kringum landið. „Ég hugsaði mig lengi um og leiddi hugann að minni  lífsbraut. Ég þjáðist náttúrlega af minnimáttarkennd og var lítið þekktur. Eftir langa umhugsun ákvað ég því að slá til. Einhver spurði mig hvort ég væri að þessu til að komast á hvíta tjaldið. En það var ekki hugsunin. Ég ákvað að ganga til að breyta viðhorfi fólks svo það myndi koma skynsamlega fram við þá sem eru svolítið öðruvísi. Mig langaði að sýna fram á að við erum bara manneskjur eins og aðrir. Það var stóra kikkið við þetta allt saman. Mér fannst að sjálfsögðu líka freistandi að verða fyrsti maðurinn hér á landi til að ganga hringinn í kringum landið og njóta landslagsins. Svo auðvitað söfnuðust líka peningar til að byggja nýtt húsnæði hér á Sólheimum, en það var bara bónus.“

Reynir Pétur hitti margt fólk á göngu sinni í kringum landið. „Bílar stoppuðu, fólk rétti mér safa, þar sem mikið var röflað í mér um að drekka nóg á labbinu, og stundum gengu krakkar frá bæjunum samferða mér nokkurn spöl. Það var yndislegt að finna nálægð og vinsemd fólksins. Ég hafði fundið til minnimáttarkenndar eftir að hafa verið strítt en þarna hitti ég allt í einu alls konar fólk sem vildi labba með mér. Það gefur auga leið að það er yndislegt að finna að fólk dáist að manni og það hjálpaði mér mikið við að vinna úr minnimáttarkenndinni. Á göngunni hugsaði ég um allt milli himins og jarðar. Og auðvitað saknaði ég Hannýjar, kærustunnar minnar.“

Talið berst að ástinni, en hún hefur ekki alltaf verið sjálfsögð í lífi Reynis Péturs. Hann kynntist Hanný kærustu sinni árið 1984 aðeins fimm árum eftir að reglum, m.a. um ástarsambönd fólks, var breytt á Sólheimum. „Sesselja dó árið 1974, Fríða dóttir hennar tók við forstöðu Sólheima og stýrði allt til ársins 1979. Þá tók Katrín við búi og þá breyttust reglurnar. Mátti þá allt í einu hitta stelpur. Loksins. Hugsaðu þér, þegar þú hleypir beljunum út eftir langan vetur snemma að vori. Þá labba beljurnar ekki út heldur hlaupa með halann upp í loftið,“ segir Reynir.

Nokkrum árum síðar var verið að æfa uppsetningu á leikriti á Sólheimum og komu bæði Reynir og Hanný að uppfærslunni. Farið var með stykkið í leikferð um Norðurlöndin, Hanný fór þó ekki með en Reynir hugsaði sér gott til glóðarinnar þar sem hann hafði aldrei komið til Svíþjóðar, Danmerkur eða Færeyja og skellti sér með. „Ferðin var yndisleg en mér fannst súrt að Hanný færi ekki með, það hefði verið gaman að njóta ferðarinnar með henni. En fljótlega eftir heimkomuna kom hún að heimsækja mig. Allt í einu datt mér þá í hug að spyrja hvort við mættum gista saman um helgar. Við fengum grænt ljós. Einu sinni var einn félagi minn að stríða mér og spurði hvort ég gæti ímyndað mér að vera í sambandi en sleppa innilegasta hlutanum. Þá bað ég hann að ímynda sér reiðhjól og útskýrði, ef það vantaði einn hlekk á keðjuna þá væri þetta ekki reiðhjól og því væri þá ekki hægt að hjóla. Það er nauðsynlegt að hafa alla hlekkina í lagi þegar þú ert í sambandi. Mikilvægt er að vera tillitssamur, vinalegur og gefa af sér í ástarsambandi,“ segir Reynir Pétur einlægur á svip og bætir því við að þau hafi ekki getað eignast börn. „Einu sinni sagði einn kunningi minn við mig að ef ég ætti börn þá gæti ég ekki keypt mér þær tónlistarplötur sem mig langaði í, heldur myndi þurfa að eyða öllu í bleiur. Það er alveg rétt hjá honum.“

Hefði þig langað til að eignast börn?

„Auðvitað hefði ég viljað það, ég hef fullan þroska og skil. Það getur eflaust verið gaman en það er líka mikil vinna; þetta þarf að borða, klæðast, fara í skóla og sækja læknisþjónustu, allan pakkann. Ég hef oft sagt að ég beygði til vinstri en ekki hægri í lífinu. Ef ég hefði ekki veikst, hefði ég eflaust alist upp í bænum eins og systkini mín, örugglega hitt konu og eignast börn. En ég veiktist og sá farvegur var ekki í boði. Á sýningunni í fyrra á Menningarveislu Sólheima þegar ég stóð á miðju sviðinu og hneigði mig fyrir fjöldanum, hugsaði ég með mér; „Ef ég hefði ekki komið hingað á Sólheima þá væri ég ekkert frægur og hefði aldrei fengið allt það sem ég hef í dag. Ég fékk nefnilega svo gott í staðinn. Fyrir vikið get ég varla sagt neitt annað en bara, takk fyrir.“