Landvættir

Hreyfing

  • Topp5_orkugefandi

Frá árinu 2013 hefur Fjölþrautafélagið Landvættir safnað félögum í félagið. Þessi söfnun er óvenjuleg að því leyti að þeir sem fá aðgang verða að uppfylla afar ströng inngönguskilyrði; að ljúka fjórum þrautum á 12 mánuðum.

Ingvar Þóroddsson er einn af upphafsmönnum þessa félagsskapar og segir hann að fyrirmyndin komi frá Svíþjóð. „Í Svíþjóð er svona fjórþraut sem heitir En Svensk Klassiker. Þrautirnar þar eru reyndar heldur viðameiri en okkar. Við fórum af stað 2013 og í raun hefur söfnun félaga gengið mun betur en við bjuggumst við og innganga í félagið verður sífellt eftirsóttari“ segir Ingvar. Þrautirnar eru þó ekki fyrir hvern sem er og því er óhætt að fullyrða að það sé ekki heiglum hent að komast í þennan eftirsótta félagsskap. Til þess að fá aðgang þarf nefnilega að ljúka fjórum þrautum á 12 mánuðum. Þrautirnar fjórar eru haldnar á hverju ári, í hverjum landsfjórðungi fyrir sig og þær eru í erfiðari kantinum. Það þarf að synda, hlaupa, hjóla og ganga á skíðum.

Austurland:

Urriðavatnssundið. Synt er yfir Urriðavatn (rétt fyrir utan Egilsstaði) 2,5 km. Sundið stl. sumar fór fram 23. júlí og voru 118 einstaklingar skráðir í þetta Landvættasund en einungis 100 kláruðu.

Norðurland:

Á norðurlandi er hlaupið og hefur Jökulsárhlaupið, 32,7 km frá Dettifossi til Ásbyrgis, verið Landvættahlaupið. Nú í sumar bættist annað hlaup við, vegna mikillar ásóknar, sem er Þorvaldsdalsskokkið, 25 km óbyggðahlaup eftir endilöngum Þorvaldsdal í Eyjafirði.

Vesturland:

Hér þarf að ganga á skíðum. Landvættagangan er Fossavatnsgangan á Ísafirði, 50 km löng.

Suðurland:

Á suðurlandi taka hjólreiðar við þar sem Landvættir þurfa að hjóla 60 km leið frá Hafnarfirði í Bláa lónið, sem er Blue Lagoon Challange.

„Öllum þessum þrautum þarf að ljúka á 12 mánaða tímabili. Ekki er átt við almanaksárið heldur frá þeim degi sem viðkomandi fer í sína fyrstu þraut. Þannig getur verið skynsamlegt að byrja á þeirri þraut sem viðkomandi finnst erfiðust því að þá gefst annað tækifæri ári síðar að ljúka þrautinni“ segir Ingvar.  Til þessa hafa 160 manns náð að komast í félagið, en miðað við fjöldann sem tók þátt í þrautum sumarsins má reikna með að félagið stækki eitthvað eftir næsta sumar.

Aukafélagar

Vegna mikils og aukins áhuga á að komast í félagið bættust við tveir nýir möguleikar til að komast í félagið; Langvættur og Fjórðungur. Til að verða Langvættur þarf að ljúka sömu þrautum og Landvættur en tímamörkin eru mun lengri, eða 48 mánuðir.

„Til að verða Fjórðungur þarf að synda, hjóla, hlaupa og ganga á skíðum í hverjum landsfjórðungi, en kröfurnar eru mun minni. Að lágmarki skal synda 400 metra, hlaupa 2,5 km, ganga á skíðum 5 km og hjóla 10 km og allt þurfa þetta að vera viðurkenndir viðburðir með tímatöku. Þannig eru þegar komnir fimm fjórðungar í félagið, fjórir Austfirðingafjórðungar og einn Vestfirðinga. Þeir sem svo afreka alla fjórðungana á 12 mánuðum fá nafnbótina Heiðursfjórðungur“ segir Ingvar að lokum og bendir á nánari upplýsingar á www.landvaettur.is.

Grein birtist fyrst í Lifið Heil 3.tölublað 2016