Melatónín

Náttúruvörur

  • Melatonin

Melatónín er hormón sem myndast í heilakönglinum sem er fyrir miðju heilans. Melatónín á þátt í að stilla hina eðlislægu klukku okkar og stuðlar að því að okkur syfjar jafnan á kvöldin og við erum vel vakandi á daginn.

Fræðiheiti
Á ekki við.

Enskt heiti
Melatonin.

Einkunn
2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".

Hvað er melatónín?
Melatónín er hormón sem myndast í heilakönglinum sem er fyrir miðju heilans. Heilaköngullinn byrjar að seyta melatóníni (láta það frá sér) þegar myrkt er orðið og hámarksseyti er um miðja nótt, þ.e. kl. 2-4. Þegar birta tekur dregur úr seyti melatóníns. Á boðstólum eru fæðubótarefni sem innihalda ýmist tilbúið melatónín eða melatónín unnið úr heilaköngli dýra.

Notkun
Melatónín á þátt í að stilla hina eðlislægu klukku okkar og stuðlar að því að okkur syfjar jafnan á kvöldin og við erum vel vakandi á daginn. Náttúrlegt magn melatóníns minnkar með aldri.

Melatónín hefur komist í tísku sem fæðubótarefni sem sagt er koma að gagni gegn dægurvillu (flugþreytu) og svefnleysi. Í mörgum heimildum er einnig staðhæft að efnið geti meðal annars hægt á öldrun, bætt geð og unnið gegn sumum tegundum þunglyndis, verndað líkamann gegn eiturefnum, verkað sem andoxunarefni, dregið úr losun estrógens, örvað ónæmiskerfið og róað líkamann.

Helstu lyfjaform
Hylki, krem (til útvortis notkunar), vökvi, úði, töflur. Til að draga úr hættu á mengun eða smiti er tryggara að velja tilbúið melatónín frekar en melatónín sem er unnið úr dýrum. Í sumum heimildum er mælt með því að melatónín sé jafnan geymt í kæli. 1

Algeng skammtastærð
Algengt er að taka 0,5 til 6,0 millígramma skammta af melatóníni á dag og fer skammtastærð eftir þeim áhrifum sem viðkomandi sækist eftir með inntökunni. Fólki er gjarnan ráðlagt að byrja að taka lítinn skammt af lyfinu og auka hann síðan, sé þess talin þörf. Nota skal tilbúið krem og úðalyf í samræmi við leiðbeiningar á pakkningunum.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Þau áhrif af notkun melatóníns sem hafa verið staðfest vísindalega eru hæfni þess til að flýta svefni og draga úr dægurvillu sem fylgir oft langflugi. Greint hefur verið frá því að þeir, sem þjást af svefnleysi, bæði ungir og gamlir, hafi minna melatónín í blóðinu en eðlilegt má teljast. 2 Þrátt fyrir að engin víðtæk, stýrð langtímarannsókn hafi farið fram á þessu gefa þær niðurstöður, sem þó hafa fengist, til kynna að taka örlítils magns af melatóníni - jafnvel aðeins brots úr millígrammi í sumum tilfellum - geti flýtt svefni þeirra sem þjást af svefnleysi og einnig þeirra sem eiga ekki vanda til svefntruflana. Niðurstöður gefa til kynna að litlir skammtar af melatóníni örvi svefn, en verið getur að stærri skammta þurfi til að hjálpa fólki sem hrekkur oft upp af svefni og á erfitt með að ná löngum og samfelldum svefni. 3

Tvíblind víxlrannsókn leiddi í ljós að þegar sex heilbrigðir sjálfboðaliðar tóku 0,3 til 1 millígramm af melatóníni einum til tveimur klukkutímum áður en þeir tóku venjulega á sig náðir voru þeir fljótari að sofna, þeir náðu dýpri svefni (öðru stigi svefns) fyrr og einnig kviksvefni (REM-svefni). 4 Sjálfboðaliðarnir fundu ekki fyrir höfga daginn eftir. Tólf aldraðir, sem áttu erfitt með svefn, tóku þátt í annarri könnun þar sem melatónín var gefið. Efnið hafði þau áhrif að þeir voru sofnaðir að meðaltali fjórtán mínútum fyrr en áður, það er að segja þegar þeir fengu ekkert melatónín. 5 Þeim fannst þeir ennfremur sofa betur og tíminn, sem þeir lágu andvaka yfir nóttina eftir að þeir sofnuðu fyrst, styttist um tuttugu og fjórar mínútur.

Þessir eiginleikar melatóníns að hafa áhrif á svefn gætu komið blindu fólki sérlega vel. Melatónínframleiðsla þeirra er ekki stillt samkvæmt 24 klukkutíma sólarhring þar sem birta og myrkur hafa ekki sömu áhrif á dægurklukku þeirra og sjáandi manna. Margir blindir þjást af þrálátri syfju yfir daginn og þreytu í kjölfarið. Í einni rannsókn hvarf syfja yfir daginn og svefnleysi á nóttunni hjá blindum körlum sem tóku 5 millígrömm af melatóníni í þrjár vikur áður en þeir lögðust til svefns. 6

Markmiðið með að taka inn melatónín til að fyrirbyggja dægurvillu er að auðvelda 24 klukkutíma lífklukkunni að stilla sig fyrr í takt við nýtt tímabelti. Rannsóknir, sem hafa verið gerðar til að kanna getu hormónsins til að koma í veg fyrir dægurvillu, hafa gefið blendnar niðurstöður, þótt niðurstöður nýlegra rannsókna renni stoðum undir þá kenningu að melatónín komi að gagni gegn dægurvillu ef það er tekið á réttum tíma. 7 Flestir sem hafa prófað melatónín gegn dægurvillu segjast finna síður fyrir þreytu daginn eftir flug, vera skárri til skapsmuna, svefnmynstur þeirra eftir flug truflast minna og þeir jafna sig fyrr í öðru tímabelti. 8 Mismunandi inntaka hefur verið reynd, en enn hefur ekki verið kveðið upp úr um það hvernig heppilegast er að haga henni. Þá þykir ljóst að dægurvilla geti magnast ef melatónín er tekið á röngum tíma.

Nokkrir sérfræðingar mæla með því að taka lítinn skammt, t.a.m. 0,5 mg, á miðjum eftirmiðdegi daginn fyrir flug (úr vestri) í austur, svo að líkaminn geti búið sig undir að myrkur skelli fyrr á. 9 Taka skal lyf aftur brottfarardaginn, en tveimur klukkutímum fyrr en daginn áður, og enn á ný fyrsta heila daginn í eystra tímabeltinu og daginn þar á eftir, en flýta skal inntökunni enn, um eina eða tvær klukkustundir. Mikilvægt er að koma sér út í sólskinið eins fljótt og mögulegt er eftir komu á eystri staðinn. Þegar ferðast er í öfuga átt, þ.e. (úr austri) í vestur skal taka ámóta lítinn skammt af melatóníni að morgni dagsins fyrir brottför og á brottfarardaginn og fyrstu dagana á nýja vestari staðnum, svo að líkaminn lagi sig að seinni sólarupprás. 10 Æskilegt er að eyða að minnsta kosti hálftíma úti við án sólgleraugna þegar líða tekur á komudaginn. 11

Í einni lyfleysustýrðri tilraun á fimmtán sjálfboðaliðum, sem flugu frá Norður-Ameríku til Frakklands, fundu þeir, sem tóku 8 millígrömm af melatóníni um kl.10 að kvöldi á frönskum tíma daginn fyrir flug og á svipuðum tíma næstu þrjá daga í Frakklandi, minna fyrir þreytu en þeir sem fengu lyfleysu. 12 Einkenni dægurvillu, svo sem hve marga daga þurfti til að ná eðlilegu svefnmynstri á ný og hve marga daga þreyta var greinanleg að degi til, voru vægari og stóðu skemur ef melatónín var tekið miðað við lyfleysu meðal tuttugu sjálfboðaliða sem flugu mjög langa vegalengd - frá Nýja-Sjálandi til Lundúna og til baka. 13 Sjálfboðaliðarnir tóku 5 millígrömm af melatóníni einu sinni á dag, fyrst þremur dögum fyrir brottför og síðast þremur dögum eftir komu.

Vísbendingar um að melatónín geti haft áhrif á magn kynhormóna í konum hefur orðið nokkrum rannsakendum hvatning til að kanna hvort nota megi melatónín sem getnaðarvörn. Samkvæmt rannsókn á þrjátíu og tveimur konum, sem tóku melatónín í fjóra mánuði ásamt prógestíni, getur melatónín hindrað egglos. 14

Sumir álíta að orsökin fyrir skammdegisþunglyndi, sem margir finna fyrir langa, dimma vetrarmánuði, geti verið truflun á seyti melatóníns. Í slíkum tilvikum er mælt með fæðubótarefnum með melatóníni. Ekki er þó greint frá rannsóknum á mönnum á þessu sviði í nýlegum læknatímaritum.

Fram hafa komið vísbendingar um að melatónín geti hugsanlega komið að haldi í baráttunni við krabbamein, þótt nauðsynlegt sé að gera fleiri vel útfærðar tilraunir áður en kveða megi upp úr um það. Melatónín virðist örva náttúrulegar drápsfrumur í líkamanum auk þess sem það hefur andoxunarverkun 15. Andoxunarefni eiga þátt í að fjarlægja eitraðar aukaafurðir sem eiga hugsanlega þátt í myndun krabbameinsfrumna. Í rannsókn sem var gerð árið 1995 á sjúklingum með lungnakrabbamein sem hafði sáð sér lifðu fleiri eitt ár eftir meðferð í einstaklingum sem tóku 10 mg af melatóníni en í hópi þeirra sem fengu ekki efnið. 16 Verið er að kanna áhrif hormónsins á æxli af ýmsum tegundum sem hafa annaðhvort ekki svarað annarri meðferð eða hafa sáð sér. 17

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Rannsóknir, sem hafa verið gerðar á mönnum, hafa í fæstum tilvikum sýnt nokkrar aukaverkanir af völdum melatóníns og engar hliðarverkanir ef litlir skammtar eru teknir, þ.e. 3 millígrömm eða minna. Aðeins vægar aukaverkanir komu fram ef teknir voru skammtar allt að 8 millígrömmum, t.d. höfuðverkur, skammvinnt þunglyndi, þyngslatilfinning í höfði 18 og aukið þunglyndi í þunglyndissjúklingum. 19 Algengt er að ráðlagðir skammtar séu minni, oftast 1,5 til 3 millígrömm af melatóníni.

Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður er margt enn á huldu um hugsanlegar aukaverkanir melatóníns, einkum hvað varðar langtímanotkun, og bandaríska lyfjaeftirlitið hefur ekki enn staðið fyrir stöðluðum öryggisrannsóknum. Margt er enn á huldu hvað varðar heppilegustu skammtastærð og hugsanlegar frábendingar að því er varðar önnur lyf. Gagnrýnendur efnisins halda því fram að svo öflugu hormóni hljóti að fylgja óþekkt hætta , einkum ef það er tekið í langan tíma eða í stórum skömmtum. Hreinleiki melatóníns er einnig áhyggjuefni; í einni könnun reyndust vera ógreinanleg óhreinindi í fjórum sýnum af sex sem voru keypt í heilsuvörubúðum. 20

Í mörgum heimildum er barnshafandi konum og þeim sem hafa börn á brjósti ráðlagt að sneiða hjá þessu hormóni. Hið sama má segja um alla sem haldnir eru nýrnasjúkdómi, þunglyndi, flogaveiki, sykursýki og sjálfsofnæmissjúkdómi. Konur sem æskja þess að verða þungaðar ættu að sneiða hjá melatóníni, þar sem það getur verkað sem getnaðarvörn í stórum skömmtum. Engin börn, og raunar engir undir tvítugsaldri, ættu að taka efnið, þar eð fólk í þessum aldurshópi myndar gnægð þess í líkama sínum.

Þeir sem þurfa að aka eða vinna á vélum þurfa að sýna fyllstu aðgæslu hafi þeir tekið inn melatónín, því að syfja getur lagst á þá innan við hálftíma frá töku efnisins í allt að klukkutíma á eftir. 21 Einnig ber að hafa í huga að ef melatónín er tekið við skammsdegisþunglyndi eða geðsveiflum skal hafa samráð við lækni.

Meginheimildir
Brody, J. E. New York Times (30. apríl, 1997): C10. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, janúar 1996. Mayall, M. Off-the-Shelf Natural Health: How to Use Herbs and Nutrients to Stay Well. New York: Bantam Books, 1995.

Tilvísanir
1. M. Mayall. Off-the-Shelf Natural Health: How to Use Herbs and Nutrients to Stay Well. (New York: Bantam Books, 1995). 2. S.M. Webb og M. Puig-Domingo, Clinical Endocrinology, 42 (3) (1995): 221. Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, janúar 1996). 3. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 4. I.V. Zhadanova et al., Clinical Pharmacology and Therapeutics, 57 (1995): 552. 5. D. Garfinkel et al., The Lancet, 346 (1995): 541. 6. R.L. Sack et al., Journal of Biological Rhythms, 6 (1991): 249. 7. R.J. Croughs of T.W. Bruin, Netherlands Journal of Medicine, 49 (4) (1996): 164-166. 8. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 9. J.E. Brody, New York Times (30, apríl, 1997): C10. 10. Ibid. G. Cowley, "Melatonin Mania," Newsweek. (6. nóvember, 1995): 60-63. 11. Brody, sama heimild. 12. B. Claustrat et al., Biological Psychiatry, 32 (1992): 705. 13. K. Petrie et al., British Medical Journal, 298 (1989): 705-707. 14. B.C.G. Voordouw et al., Journal of Clinical Endocrinology, 74 (1992): 108. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 15. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 16. Webb og Puig-Domingo, sama heimild. 17. P. Lissoni et al., Oncology, 52 (1995): 163. P. Lissoni et al., Oncology, 48 (1991): 448. S. Barni et al., Oncology, 52 (1995): 243. 18. J.E. Jan et al., Developmental Medicine and Child Neurology, 36 (1994): 97. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 19. J.S. Carman et al., American Journal of Psychiatry, 133 (10) (1976): 1181-1186. 20. Medical Letter, 37 (962) (1995): 111-112. 21. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.