Óhefðbundnar meðferðir og tónlist

Almenn fræðsla

  • IStock_67597015_SMALL

Óhefðbundin meðferð við ýmis konar vandamálum nýtur mikillar hylli í íslensku samfélagi eins og öðrum.

Talið er að um það bil 20-30% þjóðarinnar leiti sér óhefðbundinnar meðferðar einhvern tíma á lífsleiðinni og vitað er að rúmlega 90% þeirra sem hafa illkynja sjúkdóma sækja í óhefðbundna meðferð.

Árið 2005 voru sett lög á Alþingi um græðara en það er samheiti yfir þá sem leggja stund á óhefðbundna meðferð og eru þar sett ýmis skilyrði fyrir starfsemi þeirra. Meðal annars eru þeir háðir eftirliti eigin samtaka Bandalags íslenskra græðara.

Ýmsum finnst að venjulegir læknar sýni græðurum ekki nægan skilning og þyki stundum ekki nóg til starfsemi þeirra koma. Nauðsynlegt er að efla samskipti lækna og græðara enda eru þeir oft að sinna sömu sjúklingunum. Hins vegar er grundvallarmunur á venjulegri læknisfræði og óhefðbundinni meðferð.

Læknisfræði byggir á vísindum og gagnreyndum rannsóknum og leitast við að efla þekkingu sína sem mest. Leitast er við að beita einungis meðferð sem sýnt hefur verið fram á með vísindalegum aðferðum að geri gagn. Á þetta skortir hjá þeim sem stunda óhefðbundna meðferð og þess vegna skerst í odda. Mýmargar rannsóknir eru til þar sem reynt hefur verið að setja aðferðir óhefðbundinnar meðferðar undir sama mæliker og venjulega læknisfræði. Oftast hefur það hins vegar gengið erfiðlega.

Smáskammtalækningar

Smáskammtalækningar eða homópatía er sennilega ein af útbreiddari greinum innan óhefðbundinna meðferða. Homópatía byggir á því að meðhöndla sjúkdóma með smáminnkandi magni af ýmis konar náttúruefnum sem valda einkennum í heilbrigðu fólki þegar þau eru gefin í sæmilegum skömmtum er líkjast einkennum sjúkdómsins sem reynt er að meðhöndla.

Í nýlegri rannsókn í breska læknablaðinu Lancet var leitast við að meta gagnsemi homópatíu. Höfundarnir litu á 110 rannsóknir þar sem homópatía var borin saman við lyfleysu. Sérhver þessara rannsókna var síðan borin saman við rannsókn með venjulegri læknisfræðilegri meðferð við sama sjúkdómi og homópatíunni var beint að. Endapunktur, eða niðurstaðan sem mæld var í báðum tegundum rannsókna, var sú sama.

Með því að nota tilteknar staðtölulegar aðferðir leiddu höfundarnir í ljós að mun fleiri galla mátti finna á aðferðum og birtingu niðurstaðna hjá homópatíurannsóknunum en hinum. Sérstaklega var horft á stærstu rannsóknirnar sem bestar þóttu í báðum flokkum og kom í ljós að árangur venjubundinnar meðferðar var betri í þeim hópi rannsókna, en enginn munur var á lyfleysu og smáskammtalækningum í hinum flokknum. Þessi rannsókn kastar því verulegri rýrð á vísindalegt gildi homópatíu, enda þykir mörgum erfitt að skilja grunnhugmynd aðferðarinnar.

Nærvera og tónlist draga úr streitu

Hins vegar gengur betur að sýna fram á gagnsemi ýmissa annarra óhefðbundinna eða óvísindalegra meðferðarforma. Í breska læknablaðinu var einnig nýlega greint frá rannsókn þar sem litið var á áhrif meðferða sem hvorki fólu í sér lyf né lækningatæki, en gildi nálægðar og nærvistar fyrir heilsu sjúklinga hefur verið lítið rannsakað.

Höfundarnir störfuðu við níu bandaríska háskólaspítala og rannsökuðu um 750 sjúklinga sem var verið að undirbúa undir hjartaþræðingu eða útvíkkun á kransæðum. Sjúklingunum var skipt í tvo hópa og var annar hópurinn undirbúinn í 40 mínútur með því að starfsmaður lék tónlist sem sjúklingurinn vildi heyra, sjúklingurinn horfði á myndir af fögrum stöðum, haldið var í hönd sjúklingsins o.s.frv. Hinn hópurinn fékk venjulegan undirbúning. Þeir sem nutu þessarar meðferðar sýndu færri streitumerki en hinir. Dánartala þeirra mæld eftir sex mánuði var einnig marktækt lægri en hinna.

Þessum niðurstöðum verður að sjálfsögðu að taka með varúð og mun fleiri rannsókna á þessu sviði er þörf. Eigi að síður er hér um áhugaverða vísbendingu að ræða og sýnir að „óvísindalegar" og óhefðbundnar meðferðarleiðir er unnt að rannsaka með vísindalegum aðferðum. Standist þær það próf ber okkur skylda að nota þær.

Sigurður Guðmundsson
landlæknir

Birtist í Mbl. 21. nóvember 2005.

Grein sótt á embætti landlæknis 

Spurt og svarað

Er til næringarduft á Íslandi sem heitir Adosan?
Skoða nánar