Samskiptamenning á vinnustöðum

Vellíðan Viðtal

  • IStock_65674939_SMALL

Starfsandi getur verið mjög ólíkur á milli vinnustaða og oft getur verið erfitt að byrja í nýrri vinnu þar sem allt önnur vinnustaðamenning er við lýði en maður á að venjast. 

Samskiptahefð getur verið allt önnur og það getur til dæmis skapað erfiðleika við að taka á móti nýju starfsfólki. Lifið heil tók hús á Jóhanni Inga Gunnarssyni sálfræðingi til að forvitnast um hvernig sé hægt að auka andlega vellíðan á vinnustað. Jóhann Ingi hefur aðstoðað fjölda fyrirtækja, einstaklinga og íþróttahópa og haldið fyrirlestra í meira en 30 löndum.

Jóhann Ingi segir að vanlíðan á vinnustað sé algengari en menn halda. „Grundvallarþörf allra einstaklinga, sama á hvaða aldri, er að finna til sín, að finna það að hann skipti máli. Fyrirtæki, yfirmenn og vinnustaðurinn þurfa því að kunna að meta hvern og einn starfsmann.

Fyrsta spurningin er því kannski hvernig umgjörð er á vinnustaðnum. Er umgjörðin, eða vinnustaðamenningin, þannig að allir ná fram sínu besta? Eða er rótgróin menning til staðar sem vinnur gegn þeim markmiðum sem fyrirtækið stefnir að? Stundum er það svo að fortíð og nútíð rekast á, t.d. í rótgrónum fyrirtækjum, sem getur skapað togstreitu og erfiðleika í samskiptum.“

Áherslan á samskipti

„Þegar ég fer inn á vinnustaði þá vil ég að vinnustaðurinn ákveði hvað hann ætlar að leggja áherslu á í samskiptum innan vinnustaðarins. Ég hef kallað það Leiðarljós í samskiptum og það er mikilvægt að starfsfólk komi að þeirri vinnu, að ákveða hvað ber að leggja áherslu á í samskiptum þeirra á milli. Sífellt fleiri fyrirtæki fara einmitt í gegnum einhvers konar slíka vinnu við að ákveða gildi. Í upphafi var í tísku að hafa 5-7 gildi en í dag eru flest fyrirtæki með þrjú gildi. Dæmi um gildi er ábyrgð, samstaða, traust, skammstafað ÁST. Það er mjög gott að vera kominn með þennan ramma, fyrir hvað við viljum standa, en það sem gleymist oft er að þjálfa fólk í gildunum. Það er að segja hvað þýðir orðið samstaða í samskiptum á vinnustaðnum? Gildin mega ekki bara vera flott orð upp á töflu heldur þurfum við að lifa gildin. Algengasta form samskipta er nefnilega misskilningur. Þannig að það þarf að velta þessu fyrir sér og það er gott að byrja á því að ákveða samskiptaáherslur og síðan að þjálfa starfsfólk í þeim áherslum sem eru ákveðnar.

Ef þetta tekst vel þá eykur þetta starfsánægju og minnkar starfsmannaveltu. Það er nefnilega þannig að laun eru ekki það mikilvægasta í hugum okkar sem starfsmanna. Kannanir sýna það aftur og aftur að laun eru oftast í fjórða sæti. Fólki finnst starfsánægja skipta mun meira máli. Rauði þráðurinn í þessu öllu saman er því samskiptamenningin.“Samskipti_02

Einföld formúla

„Hluti af því er að ein öflugasta forvörn hvers einstaklings er að byggja upp góða sjálfsmynd. Því segi ég að það sé jafn mikilvægt að þjálfa sjálfstraust eins og færni á tölvur. Og sjálfstraust er  einmitt hægt að þjálfa, það er líklega mikilvægasti vöðvinn. Vinnuveitendur vilja einmitt starfsfólk með gott sjálfstraust og því þurfa þeir að huga að þessu atriði.

Það er í raun einföld formúla sem vinnuveitendur, einstaklingar, íþróttafólk og fleiri leita eftir. Hún er sú að hæfileikar plús vinnusemi plús gleði jafngildir árangri. Með þessi þrjú atriði nærðu lengra. Og það er ekki síst vinnugleðin sem skiptir hér máli. Konfúsíus orðaði þetta einhvern veginn þannig að ef maður vinnur vinnu sem veitir manni gleði og ánægju þá vinnur maður í raun ekki einn einasta dag ævinnar. Ég hef til dæmis þá einföldu hugarfarsreglu að þegar ég vakna þá bý ég til tilhlökkun, þannig að ég hlakka til einhvers í deginum, svo að ég er strax byrjaður að búa til jákvæðar hugsanir.  Og þetta legg ég ávallt mikla áherslu á, að hver og einn beri ábyrgð á sínu eigin hugarfari, það er að mæta til leiks með kveikt á ljósunum.“

Eins og áður segir hefur Jóhann Ingi komið inn sem ráðgjafi hjá fjölmörgum fyrirtækjum, stórum sem smáum. Hann vill benda á eitt mikilvægt atriði þegar kemur að því að bæta starfsanda. „Að lokum má nefna það að þegar bæta á samskipti á vinnustað og breyta þeirri menningu sem hefur verið við lýði þá er afar mikilvægt að æðstu stjórnendur gefi tóninn. Að þeir taki þátt í vinnunni við að móta samskiptastefnu vinnustaðarins.“