Skemmtileg afþreying með nýburanum í fæðingarorlofinu

Hreyfing Vellíðan

  • Ungaborn_01

Það fer fátt notalegra en að eiga rólega stund einn heima með nýja barninu sínu, það þekkja þeir sem eiga börn. Skoða þetta undur hátt og lágt og finna dásamlega ilminn af glænýja fjölskyldumeðlimnum

Þessar stundir eru sem greiptar í minni allra foreldra. Það er fleira sem gerir þennan stutta dýrmæta tíma eftirminnilegan og gleðilegan og hér er drepið á nokkrum áhugaverðum samverustundum sem eru í boði fyrir foreldra og börn.

 

Mömmujóga og ungbarnanudd

Margrét Skúladóttir eða Maggý hefur boðið uppá vinsæl mömmujóganámskeið í tíu ár. Hún hefur starfað sem jógakennari frá 2003 og bætti við sig meðgöngujógakennarafræðum árið 2006 frá Seattle Holistic Center.

„Þetta er falleg samverustund móður og barns. Það fer vel um barnið á mjúkri dýnu og eru leikgrindur fyrir börnin. Áherslan er á móðurina s.s. æfingar og jógastöður sem styrkja kvið og grindabotn og auðvitað allan líkamann. Barnið fær alla þá athygli sem það þarfnast í tímum. Móðirin getur gert æfingar með barnið í fanginu. Ég býð upp á fyrirlestur með Ebbu Guðnýju sem heitir Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða? og öll fjölskyldan nýtur góðs af. Á námskeiðinu er einn nuddtími fyrir börnin þar sem við styðjumst við góðar ungbarnanuddbækur.“

Upplýsingar um mömmujóga má finna á maggy.is

Tónlistaruppeldi fyrir ungabarnið

Námskeiðin í Tónagulli eru fyrir foreldra og börn frá fæðingu til fimm ára aldurs. Tónagull sérhæfir sig í vönduðum tónlistarnámskeiðum fyrir ungbörn og foreldra.

Tímarnir eru fjölbreyttir og fylgja alltaf ákveðinni röð atburða til þess að börnin læri hvað kemur næst. Í upphafi er alltaf byrjað með söng sem býður alla velkomna með nafni og í lokin er sunginn kveðjusöngur Tónagulls. Þar á milli er unnið með puttaþulur, kroppaþulur, kjöltuleiki, söngdansa, barrokkdans, hringdansa, eggjahristur, litríkar slæður, trommur og barnahljóðfæri. Ungabörn eru miklar vitsmunaverur sem drekka í sig allt sem fram fer í umhverfi þeirra. Máltaka hefst löngu áður en börn byrja að tala og sömuleiðis aðlagast börn tónlist sinnar menningar ótrúlega snemma. Reynslan sýnir að tónlist höfðar gríðarlega sterkt til barna. Í gegnum tónlist gefast tækifæri til að örva þroska barna á mörgum sviðum. Tónlistariðkun í hópi er einstök upplifun fyrir barn sem er að uppgötva umhverfið og læra á veröldina í kringum sig. Í Tónagulli er markvisst unnið með tónlist með aðferðum sem eru við hæfi þessa unga aldurs.

Fróðleik og nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Tónagulls 

Ungaborn_03

Örvun og leikur eða Stimulastik  með Hafdísi Iðjuþálfa

„Tilgangurinn Stimulastik  er að örva börn til að hafa gleði af leik og hreyfingu. Þetta er örvun fyrir jafnvægið, snertiskynið og vöðva og liði. Börnin þroskast líkamlega, félagslega og vitrænt.

Stimulastik er örvun sem undirbýr börnin fyrir þann þroska sem þau eiga eftir að fara í gegnum. Það er t.d mjög mikilvægt fyrir börn að liggja á maganum til að styrkja vöðva í hnakka og baki sem er grunnurinn fyrir alla hreyfingu. Fyrsta árið er hornsteinn fyrir þroska barnsins og það sem eftir er æskunnar.

Þroski barnsins byggist á áreiti sem heilinn fær í gegnum skynfærin. Jafnvægið, snertiskynið og vöðvar og liðir (stoðkerfið) eru þau þrjú skynfæri sem hjálpa okkur til að standa upprétt með tilliti til þyngdaraflsins. Þess vegna er mikið atriði að örva þessi skynfæri.

Snertiskynið leggur grunninn fyrir þroskann vegna þess að það er í gegnum það sem barnið „skynjar heiminn“ og finnur öryggi. Snertiskynið hefur mikla þýðingu fyrir það að við getum haldið okkur beinum og líkamlega öruggum.

Þá er mikilvægt að örva jafnvægisskynið, sem er í innra eyranu. Jafnvægisskynið móttekur hreyfingar og stöðu höfuðsins með tilliti til þyngdaraflsins og breytingum á hreyfingum. Það er jafnvægisskynið sem segir okkur hvort við sitjum, stöndum eða snúum upp eða niður.

Vöðvar og liðir er þriðja skynfærið sem við vinnum með. Þetta skynfæri er í öllum vöðvum og liðum í líkamanum og segir heilanum hvar og hvenær vöðvar og liðir teygja sig og draga sig saman.

Stimulastik er leikur sem örvar börnin til að undirbúa sig fyrir þann þroska sem framundan er. Þetta eru æfingar sem foreldrar geta gert heima með einföldum aðferðum.”

Skoðið mommusetur.is til að fá nánari upplýsingar.

Ungbarnasund

Ungbarnasund er sívinsælt og gefandi fyrir bæði foreldra og börn og stundum ömmur og afa líka. Ungbarnasund er meira en að fara í sund saman. Smám saman geta foreldrar kennt barninu hvað það á að gera ef barnið fer óvænt í kaf. Það er að halda niðri í sér andanum, sparka sér upp á yfirborðið, fara aftur þangað sem það „datt“ út í, grípa í bakkann og klifra upp úr vatninu. Ungbarnasund veitir barninu einnig mikla örvun á mörgum sviðum.


Ungaborn_02Markmið með ungbarnasundi er að gefa foreldrum möguleika á með markvissri 

vinnu að:

  • Venja barn við vatn og köfun, auka sjálfstraust og virðingu barnsins í vatni.
  •  Að barnið finni fyrir öryggi og líði vel í sundi.
  • Venja barn við vatn sem hreyfiumhverfi.
  • Að barnið fái útrás fyrir hreyfiþörf sína og örvi þar með hreyfiþroska og styrk.
  •  Venja barn við ögrandi umhverfi sem hefur örvandi áhrif á sem flest skynfæri      barnsins og hækkun „streituþröskuldar“.
  • Skapa umhverfi þar sem foreldrar og barn geta aukið og syrkt tengslamyndun hvert við annað.
  • Að foreldrar hittist og kynnist öðrum foreldrum með áþekk áhugamál þ.e. uppeldi og velferð barna sinna.
  •  Að barn öðlist þekkingu, skilning og stjórnun á líkamanum í vatni.
  •  Að foreldrar haldi athygli sinn og yfirvegun þegar þau eru í sundi eða í námunda við annað vatnsumhverfi.

Upplýsingar um ungbarnasund í nágrenni við þig er að finna hér.