Acne (bólur)

Húðsjúkdómar

 • Bolur

Acne vulgaris er húðsjúkdómur sem orsakast af breytingum í fitukirtlum húðarinnar. Acne breytingar eru aðallega í andliti, en einnig á bolnum.

Breytingarnar eru af nokkrum gerðum:

 1. Opnir fílapenslar, svartir
 2. Lokaðir fílapenslar, hvítir
 3. Papúlur, rauðar upphækkanir
 4. Pústúlur, eins og graftarbólur
 5. Djúpar breytingar

Acne er algengur sjúkdómur. Hann byrjar oftast á unglingsárum en getur þó hafist mun seinna á ævinni. 35-40 % allra fá acne. Talið er að um 1 % karla og 5 % kvenna hafi umtalsverða acne við 40 ára aldur. Sjúkdómurinn byrjar stundum hjá fullorðnu fólki sem ekki hefur haft breytingar sem unglingar.

Orsakir

 • Erfðaþættir skipta máli.
 • Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að mataræði skipti máli, en sumir sjúklingar upplifa versnun af vissum mat.
 • Óhreinindi í húð orsaka ekki acne. Því er ekki hægt að þvo breytingarnar burt.
 • Beint samband er milli acne og aukinnar fituframleiðslu í húð. Fituframleiðslan í húðinni stjórnast meðal annars af karlhormónum (androgenum). Karlar með acne hafa venjulega ekki aukið magn karlhormóna, en 50-75% kvenna með acne hafa ójafnvægi á kynhormónum.
 • Sýnt hefur verið fram á að útgönguop fitukirtla þrengjast hjá acne sjúklingum vegna aukinnar frumumyndunar þar.
 • Góðkynja húðbakteríur setjast að í fitukirtlunum og fjölga sér (Propinibacterium acnes). Þessar bakteríur gefa frá sér efni sem laða að hvít blóðkorn, og valda þannig bólgubreytingum.

Meðferð
Fyrir milda acne nægir útvortis meðferð. Þær helstu eru : Sýklalyf (Zineryt, Dalacin) sem minnka fjölda baktería í fitukirtlunum. Benzoyl Peroxid (Benoxyl, Panoxyl) sem fækka bakteríum og fjarlægja fílapensla. A-Vítamínsýra ( Retin-A) sem aðallega hefur áhrif á fílapenslana. Azelaic acid (Skinoren) hefur bakteríudrepandi áhrif og einhver áhrif á fílapensla

Við verri acne eru oft gefin sýklalyf til inntöku. Þessi lyf fækka bakteríum í fitukirtlunum og eru einnig bólgueyðandi. Oftast eru gefin afbrigði af tetracýklínum ( Doxytab, Minocin, Tetracyklín). Einnig má gefa erythromycin ( Ery-Bas, Ery-Max) Sýklalyfin eru gefin í langan tíma, því að full virkni kemur oft ekki fram fyrr en eftir 3-4 mánuði.

Fyrir verstu tegund acne og þegar önnur meðferð hefur ekki áhrif er gefið lyfið Isotretinoin (Decutan, Roaccutan). Þetta lyf hefur áhrif á alla þætti acne myndunar. Talsverðar aukaverkanir eru af þessu lyfi, svo sem þurrkur í öllum slímhúðum, vöðvaverkir og ?reyta. Einnig er lyfið skaðlegt fyrir fóstur.

Konum með acne er stunduð gefið hormónalyf sem dregur úr áhrifum karlkynshormóns ( Diane Mite). Þetta lyf ásamt sumum öðrum getnaðarvarnarpillum er því bæði getnaðarvörn og meðferð við bólum.

Fyrir alla meðferð gildir að hafa þolinmæði. Ekki er nóg að nota lyfin í nokkrar vikur og hætta síðan.

Spurt og svarað

Húðvandamál Strákurinn minn 15 ára er með töluvert af bólum í andliti og hefur heyrt að Decutan sé áhrifaríkt á bólur. Er lyfið eitthvað hættulegt eða miklar aukaverkanir sem þarf að hafa áhyggjur af?
Skoða nánar

Steingrímur Davíðsson, húðlæknir.