Gilda sömu áhættuþættir fyrir karla og konur?

Hjarta– og æðakerfið

  • Hjartasjukdomur

Í hinum vestræna heimi deyja flestir úr hjarta- og æðasjúkdómum, sem eru oftast afleiðing æðakölkunar.

Þessir sjúkdómar hafa gengið yfir heiminn eins og farsótt sem byrjaði við upphaf 20. aldar og fór að dvína á 6. -7. áratugnum og hefur verið á hægu undanhaldi síðan. Allt ferli þessara sjúkdóma á öldinni líkist svo mikið farsóttum eins og t.d. svartadauða, stórubólu eða berklum að vísindamenn hafa um nokkurt skeið velt því alvarlega fyrir sér hvort um smitsjúkdóm sé að ræða og liggja vissir sýklar undir grun. Það sem flækir málið er að lengi hafa verið þekktir nokkrir áhættuþættir sem auka hættu á æðakölkun og þar með á hjarta- og æðasjúkdómum en þekktastir þeirra eru sykursýki, hár blóðþrýstingur, reykingar, há blóðfita og fjölskyldusaga um þessa sjúkdóma. Vel gæti verið að um sé að ræða blöndu af þessu öllu, erfðir og áhættuþættir auka líkurnar og sýking hefur síðan úrslitaáhrif á það hvort einstaklingurinn fær æðakölkun eða ekki.

Flestir vita að reykingar, hár blóðþrýstingur og hátt kólesteról í blóði stuðla að æðakölkun og hjarta- og æðasjúkdómum. Þessir sjúkdómar fylgja einnig oft ættum og erfast þess vegna að einhverju leyti. Erfðaþátturinn er sennilega mjög flókinn og talið er að um sé að ræða mörg gen en ennþá er frekar lítið vitað nema að þekktar eru ættir með erfðagalla sem stuðlar að háu kólesteróli í blóði og þar með hjarta- og æðasjúkdómum. Einnig skiptir miklu máli hvað við borðum og hvort við fáum nægjanlega hreyfingu en báðir þessir þættir hafa áhrif á blóðfitu og e.t.v. fleira. Því fleiri sem áhættuþættirnir eru hjá sama einstaklingi þeim mun meiri er áhættan og brýnna að gera eitthvað í málinu. Eitt af því sem gerir málið erfitt er að áhættuþættirnir eru oft einkennalausir; blóðþrýstingur getur verið talsvert hækkaður, kólesteról í blóði getur verið hátt og væg sykursýki til staðar án þess að viðkomandi einstaklingur hafi hugmynd um það. Ef ekkert er að gert, og ef hann kannski reykir í ofanálag, er þessi einstaklingur í mikilli hættu að veikjast alvarlega eða deyja fyrir aldur fram. Stundum er erfitt að sannfæra þessa einstaklinga um að þeir séu veikir eða í mikilli hættu að veikjast og þess vegna erfitt að fá þá til að breyta um lífsstíl eða taka lyf. Þetta kemur m.a. fram í lélegri meðferðarheldni við lyfjameðferð á háum blóðþrýstingi og slökum árangri í baráttunni við offitu (stuðlar að háum blóðþrýstingi og blóðfitu) og reykingar. Eins og áður var nefnt eru hjarta- og æðasjúkdómar á undanhaldi ef litið er á heildina og á það við um kransæðasjúkdóm sem er algengasti sjúkdómurinn í þessum flokki. Þetta á þó ekki við um alla sjúkdómana og eru hjartabilun og slag vaxandi vandamál.

Konur fá hjarta- og æðasjúkdóma um 10 árum seinna á ævinni en karlar og er það sennilega aðalástæða þess að langflestar rannsóknir á áhættuþáttum þessara sjúkdóma hafa verið gerðar á körlum. Nú eru sumir farnir að efast um að sömu áhættuþættir gildi fyrir karla og konur eða a.m.k. að vægi þeirra sé ekki endilega það sama hjá báðum kynjum. Hingað til hafa menn treyst mjög á áhættuþættina og það gildir vafalaust hjá körlum en ekki endilega hjá konum. Í nýrri rannsókn á konum eftir tíðahvörf kom í ljós að um 10% þeirra sem voru yngri en 58 ára höfðu merki um kransæðasjúkdóm þó þær hefðu enga af aðal áhættuþáttunum og hjá þeim sem voru 58 ára og eldri var þessi tala 35%. Þetta bendir til þess að við hefðbundna leit að áhættuþáttum (háum blóðþrýstingi, hárri blóðfitu, sykursýki, o.fl.) missum við af mörgum konum sem eru í hættu að fá kransæðasjúkdóm eða annan hjarta- og æðasjúkdóm. Úr þessu þarf að bæta og hér er þörf á stórefldum rannsóknum.

Magnús Jóhannsson, læknir.