Hósti

Algengir kvillar

Hósti er eðlileg aðferð líkamans til þess að hreinsa slím, framandi agnir eða ertandi efni (t.d. tóbaksreyk) úr öndunarveginum. 

Hósti er eðlileg aðferð líkamans til þess að hreinsa slím, framandi agnir eða ertandi efni (t.d. tóbaksreyk) úr öndunarveginum. Hósti er taugaviðbragð sem hefst eða vaknar vegna ertingar (áreitis) í koki eða öðrum hluta loftvegarins. Hósti er algengur fylgikvilli kvefs en hann getur líka stafað af öðrum orsökum.

SPURNINGAR OG SVÖR

Hvenær á ég að leita til læknis?

  • Ef þú hóstar upp blóðlituðu slími.
  • Ef þú hóstar og ert með hita lengur en í fjóra daga.
  • Ef hóstinn er samfara andnauð og/eða verkjum fyrir brjósti.
  • Ef þér hefur ekki batnað á um þremur vikum.
  • Ef barn yngra en tveggja ára er með ertandi hósta.

Hvað get ég gert?
Drekktu mikinn vökva. Forðastu reykingar, bæði beinar og óbeinar.

Get ég fengið lyf án lyfseðils?
Það eru algerlega eðlileg viðbrögð líkamans við framandi efnum og óhóflegri slímframleiðslu í öndunarveginum að hósta upp slími og að jafnaði á ekki að reyna að draga úr því með lyfjum. Ef hóstinn er hins vegar þurr (engu slími er hóstað upp), harður og ertandi eða raskar nætursvefni kemur vel til greina að taka hóstastillandi lyf. Það slævir sjálft hóstaviðbragðið og dregur úr hóstanum. Hóstastillandi lyf eru til bæði sem töflur og í fljótandi formi (hóstamixtúra) en einungis er hægt að fá mixtúruna án lyfseðils. Aukaverkanir eru fátíðar en stundum finnur fólk fyrir vægri ógleði. Gefðu ekki barni sem er yngra en tveggja ára hóstastillandi lyf nema ráðfæra þig við lækni fyrst.

Ýmsar hóstamixtúrur eru á boðstólum:

Benylan hefur hóstastillandi verkun og er notað við hósta og ofnæmi af ýmsum toga.

Dexomet hóstamixtúra hefur áhrif á hósta sem stafar af minniháttar ertingu í hálsi eða lungnaberkjum. Mixtúran hefur hóstastillandi verkun í líkingu við kódein en engin ávanahætta fylgir notkun þess. Hún er notuð við þurrum hósta, þ.e. hósta án uppgangs.

Pektólín er hóstastillandi og verkar á ofnæmi. Pektólín er árangursríkt við að minnka einkenni kvefs því það losar bæði slím úr stífluðu nefi og stífluðum ennis- og kinnholum. Auk þess er Pektólín gott við þrálátum hnerra því það dregur úr tíðni hans.

Tússól dregur úr tíðni hósta sem slím fylgir með, þ.e. hósta með uppgangi. Auk þess dregur það einnig úr óþægindum fyrir brjósti sem oft vill fylgja þurrum hósta eða hósta með slímuppgangi. Tússól flýtir fyrir slímlosun með því að þynna slímið.

Athugaðu að ef um þungun eða brjóstagjöf er að ræða skal aðeins nota ofangreindar mixtúrur í samráði við lækni.

Athugaðu einnig að ofangreindar mixtúrur henta ekki allar börnum.  

Hóstaðu ekki framan í annað fólk því þá eykur þú líkur á að það smitist með úða eða slímdropum úr vitum þínum.

Fáðu faglega ráðgjöf hjá lyfjafræðingi um val á lyfjum og notkun þeirra.