Húðkrabbamein

Húðsjúkdómar Krabbamein

  • Hudkrabbamein

Aukning á tíðni húðkrabbameins er svo mikil á undanförnum áratugum að henni hefur verið líkt við faraldur.

Á Bretlandseyjum hefur tíðni húðkrabbameins meira en þrefaldast á s.l. 15 árum og í Bandaríkjunum gera menn ráð fyrir að annar hver einstaklingur fái húðkrabbamein fyrir 85 ára aldur. Það sem virðist skipta mestu máli er sólböð og ljósaböð fyrir tvítugsaldur, er setja af stað frumubreytingar sem síðan koma fram sem húðkrabbamein 30-60 árum síðar. Hér skiptir miklu að lífskjör fólks á Vesturlöndum hafa breyst mjög á síðustu 50 árum en það hefur aukið frístundir og möguleika á sól- og ljósaböðum. Einnig skiptir máli að klæðaburður fólks hefur breyst á þann veg að sólarljósið nær til stærri hluta líkamans en áður þekktist. Einnig koma við sögu erfðir og eflaust fleiri þættir sem við skiljum ekki ennþá. Í Ástralíu er tíðni húðkrabbameins einna hæst í heiminum og þar er farið að gera ráðstafanir til að minnka hættuna á þessum sjúkdómi; eitt af því sem gert er víða er að banna skólabörnum að leika sér í sólinni nema vera með síðar ermar og sólhatt.

Húðkrabbamein er af fjórum aðaltegundum, algengast er grunnfrumukrabbamein en síðan koma flöguþekjukrabbamein, sortuæxli og Kaposi-sarkmein. Mikilvægt er að sem flestir hafi hugmynd um hvernig þessi æxli líta út til að fólk geti leitað til læknis í tæka tíð.

Grunnfrumukrabbamein (basal cell carcinoma) geta verið af nokkrum undirflokkum og sama lýsingin á ekki við þá alla, þau eru oftast fáeinir mm að stærð þegar eftir þeim er tekið. Þau geta verið flöt, rauð, hrukkótt, hreistrug og með örsmáum sárum eða þau geta byrjað sem lítil kúla eða bóla sem ekki hverfur og stundum blæðir úr eða þau geta verið flöt og hvít eða gul vegna bandvefsmyndunar. Grunnfrumukrabbamein geta líka verið einhvers konar blanda af þessu en þau hafa alltaf tilhneigingu til að mynda sár sem blæðir úr og þau geta minnkað og stækkað svo aftur. Þessi krabbamein dreifa sér yfirleitt ekki með meinvörpum en þau eru hættuleg ef þau ná að vaxa inn í undirliggjandi vefi eins og t.d. hauskúpu. Meðferð er fólgin í því að fjarlægja æxlið og nánasta umhverfi þess en þessi krabbamein hafa vissa tilhneigingu til að taka sig upp aftur á sama stað.

Flöguþekjukrabbamein (squamous cell carcinoma) er næst algengasta tegund húðkrabbameina. Tæplega 1% af þeim sem fá sjúkdóminn deyja af hans völdum og þó svo að þessi tala kunni að virðast lág, kemur á móti að fjöldi þeirra sem fá þessa krabbameinstegund er mikill. Þetta krabbamein lýsir sér oftast sem þykkni eða útvöxtur (æxli), stærðin getur verið frá örfáum mm upp í nokkra cm, æxlið getur valdið roða og ertingu og það er oft hreistrað og viðkvæmt og við hnjask getur auðveldlega blætt úr því. Meira en helmingur þessara æxla eru á höfði eða hálsi en hin eru dreifð um önnur líkamssvæði sem eru útsett fyrir sólarljósi. Þessi æxli geta dreift sér um líkamann en ef þau eru fjarlægð með skurðaðgerð ásamt nærliggjandi vefjum fá 90% sjúklinganna varanlegan bata eftir fyrstu aðgerð.

Sortuæxli (melanoma) eru sjaldgæfari en jafnframt mun hættulegri en þær tegundir húðkrabbameins sem lýst hefur verið. Tíðni sortuæxla vex einna hraðast allra krabbameina á Vesturlöndum og þessi tegund húðkrabbameins er orðin verulegt heilbrigðisvandamál. Talið er að rekja megi flest sortuæxli til útfjólublás ljóss frá sólinni eða ljósalömpum en einnig virðist vera nokkuð sterkur erfðaþáttur til staðar. Sortuæxli eru sjaldgæf undir 14 ára aldri en verða síðan sífellt algengari með hækkandi aldri. Um helmingur sortuæxla myndast úr fæðingarbletti eða freknu en hinir koma þar sem ekkert slíkt var fyrir. Mörg sortuæxli greinast meðan þau eru mjög lítil, oft minni en 1 mm, og eru þá batahorfur góðar. Nokkur atriði einkenna útlit þessara æxla, þau sem skipta mestu máli er stækkandi blettur með óreglulega lögun og tenntar brúnir, margvíslegir litir (brúnt, svart, blátt og bleikt) sem taka breytingum, smávegis roði og hrúðurmyndun með blæðingum af og til. Sortuæxli eru ekki upphleypt í byrjun en verða það stundum þegar þau stækka. Þessi lýsing getur hjálpað við greiningu á flestum sortuæxlum en ekki má gleyma því að sum sortuæxli passa ekki allskostar við lýsinguna. Mestu máli skiptir að greina þessi æxli nógu snemma og fjarlægja þau ásamt svæðinu umhverfis. Þegar þessi æxli ná að dreifa sér finnast fyrst meinvörp í nálægum eitlum og þess vegna eru slíkir eitlar fjarlægðir ef þeir eru stækkaðir.

Kaposi-sarkmein

er sjaldgæf tegund húðkrabbameins sem hefur fengið aukið vægi á síðari árum vegna þess að það er stundum fylgikvilli alnæmis.

Magnús Jóhannsson, læknir.