Yfirlit um sykursýki 2

Almenn fræðsla Augun Sykursýki

  • Yfirlit-um-sykursyki-2

Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur sem dregur nafn sitt af auknu sykurmagni í blóði. Orsök sykursýki er ekki þekkt og sjúkdómurinn er ólæknandi en með réttri meðhöndlun er hægt er að halda sjúkdómnum í skefjum og forðast fylgikvilla.

Þeir sem hafa sykursýki geta með skynsemi lifað fullkomlega eðlilegu lífi og lært að stjórna meðferðinni algjörlega sjálfir frá degi til dags, stundum með hjálp heimamælinga á blóðsykri. Mikilvægt er þó að vera í reglulegu eftirliti og góðum tengslum við sykursýkisteymi sem yfirleitt er myndað af lækni, hjúkrunarfræðingi og næringarráðgjafa.

Sykursýki greinist í tvær aðaltegundir
Blóðsykurinn (glúkósa) er nauðsynlegt brennsluefni fyrir líkamann. Of hár blóðsykur er þó skaðlegur og því er blóðsykurmagninu haldið á þröngu bili undir eðlilegum kringumstæðum. Blóðsykurmagnið ræðst af samspili fæðuneyslu, líkamsáreynslu, blóðsykurframleiðslu lifrar og magni nokkurra hormóna í blóðinu en þau helstu kallast insúlín og glúkagon. Til að blóðsykurinn nýtist sem orkugjafi þarf hann að komast úr blóðinu inn í frumur líkamans en lykillinn að því er insúlín. Insúlín er framleitt í briskirtlinum og hið aukna sykurmagn í blóði sykursjúkra stafar í grófum dráttum annað hvort af minnkandi framleiðslu insúlíns eða af því að insúlínframleiðsla líkamans nýtist ekki.

Tegund 1 af sykursýki leggst aðallega á ungt fólk sem ekki hefur sterka ættarsögu. Sjúkdómurinn stafar af því að frumurnar sem framleiða insúlín eyðileggjast algjörlega.

Tegund 2 af sykursýki leggst fyrst og fremst á fullorðna sem oft hafa sterka ættarsögu. Um er að ræða röskun á virkni insúlínsins þ.a. það insúlín sem briskirtillinn framleiðir nýtist mjög illa, en auk þess er einnig truflun á starfsemi sjálfs briskirtilsins. Flestir eru reyndar einnig með truflun á efnaskiptum blóðfitu og með háan blóðþrýsting og hefur það verið kallað efnaskiptavilla á íslensku.

Sjúkdómseinkenni
Verði blóðsykurinn of hár skilst hluti út um nýrun og dregur með sér vatn. Því eru einkenni um háan blóðsykur fyrst og fremst þorsti og aukin þvaglát, hvort sem um er að ræða tegund 1 eða tegund 2. Þannig getur tapast mikil orka (blóðsykurinn nýtist ekki) sem veldur þyngdartapi, sérstaklega hjá tegund 1. Slappleiki og þreyta geta einnig verið áberandi.

Hjá tegund 1 er sjúkdómsgangurinn yfirleitt hraður (vikur) og getur auk ofangreinds lýst sér með kviðverkjum, uppköstum, hraðri öndun og sérkennilegri lykt úr vitum. Lyktin stafar af ketónum (asetón) sem myndast vegna niðurbrots fitu sem líkaminn meltir í stað sykursins sem nýtist ekki. Sýrustig líkamans getur raskast og leitt til minnkandi meðvitundar (sýrudá eða Ketoacidosis).

Hjá tegund 2 er svokallað skert sykurþol oft undanfari og einkenni í upphafi vægari en í tegund 1. Það er útbreiddur misskilningur að vandamálið sé þess vegna lítilfjörlegt, en staðreyndin er því miður sú að margir einstaklingar hafa fylgikvilla þegar við greiningu. Auk þorsta og tíðra þvagláta er algengt að finna fyrir sinadrætti, náladofa í fingrum og þrálátum sýkingum á húð. Meðvitundarskerðing getur komið fyrir hér þó ekki komi til sýrudá eins og hjá tegund 1.

Fylgikvillar
Slæm stjórnun blóðsykurs leiðir til fylgikvilla sem herja aðallega á æðakerfið. Þá má flokka í smáæðasjúkdóma og stóræðasjúkdóma. Góðu fréttirnar eru að rannsóknir hafa staðfest að með góðri blóðsykurstjórn má minnka verulega framgang eða koma í veg fyrir fylgikvilla hjá báðum tegundum sykursýki. Ennfremur er nú ljóst að góð blóðþrýstingsstjórn og meðferð við hækkaðri blóðfitu er nauðsynlegur þáttur í baráttunni.

Smáæðasjúkdómar hrjá augnbotna, nýru og úttaugar og geta leitt til blindu, nýrnabilunar og verkja eða skyntruflunar í fótum. Stóræðasjúkdómar hrjá kransæðar, heilaæðar og aðrar slagæðar og geta leitt til kransæðastíflu, heilablóðfalls og blóðrásartruflana í fótum. Það síðasttalda veldur m.a. verkjum við áreynslu, og sambland blóðrásartruflunar og skyntruflunar getur leitt til illvígra sýktra fótasára - aflimun getur orðið óumflýjanleg. Stóræðasjúkdómar eru stærsta vandamálið sem steðjar að einstaklingum með tegund 2 af sykursýki, m.a. vegna þess hve oft háþrýstingur og blóðfitubrengl fylgja.

Meðferð og eftirlit
Mataræði og líkamshreyfing eru hornsteinar meðferðarinnar. Megrunarkúrar eru þó ekki svarið heldur má segja að oft þurfi breytt viðhorf til mataræðis og hreyfingar. Í raun er fæðið ekki mjög frábrugðið þeim hollu neysluvenjum sem allir Íslendingar ættu að temja sér. Megrun bætir þó verulega nýtingu og virkni insúlíns og er því mikilvæg hjá þeim einstaklingum sem eru of þungir. Mataræðismeðferð og megrun bætir einnig blóðþrýsting og blóðfitubrengl. Stundum nægir mataræði hjá tegund 2, en yfirleitt þarf líka töflur og stundum insúlín. Auk mataræðis þarf alltaf insúlín hjá tegund 1. Hreyfing (göngur, golf, skokk, hjólreiðar, sund) stuðlar ekki einungis að betri árangri mataræðismeðferðarinnar, heldur bætir einnig virkni insúlínsins. Þannig er sérstaklega mikilvægt fyrir sykursjúka að fylgja almennum reglum um heilbrigt líferni og reykja ekki, stunda líkamsrækt, drekka vín í hófi og borða reglulega.

Töflur á markaði á Íslandi eru af þremur flokkum. Í fyrsta lagi töflur sem örva framleiðslu brissins á insúlíni. Í öðru lagi töflur sem auka nýtingu insúlíns og í þriðja lagi töflur sem minnka frásog kolvetna (sykurs) úr meltingarvegi. Töflurnar eru teknar 1-3 sinnum á dag og eru eingöngu notaðar hjá tegund 2.

Insúlín er eingöngu hægt að gefa sem stungulyf. Miklar framfarir hafa þó orðið í þessum geira og flestir nota einnota insúlínpenna sem eru einfaldir í notkun. Til eru margar gerðir af insúlíni sem virka mishratt og mislengi, allt eftir þörfum hvers og eins. Með því að sprauta sig allt að 4 sinnum á dag þarf því æ minna að raska venjum og lífsmynstri þeirra sem þurfa insúlínmeðferð.

Eftirlit hjá sykursýkisteymi er mikilvægt til fræðslu og aðstoðar við að ná góðri stjórn á blóðsykri, blóðþrýstingi og blóðfitu. Það er einnig ljóst að hjá flestum með tegund 2 verður hægfara versnun á starfsemi briskirtilsins og þarf þá að aðlaga meðferðina. Það er mikilvægt að þetta uppgötvist snemma til að minnka líkur á fylgikvillum. Komi fylgikvillar fram er einnig mikilvægt að bregðast við á réttan hátt í tíma til að seinka framgangi eða veita meðferð við einkennum fylgikvillanna.

Bráð vandamál tengd meðferð
Blóðsykurfall nefnist það þegar blóðsykurinn verður of lágur. Þó sumar töflur geti valdið þessu er algengast að þetta gerist hjá þeim sem eru meðhöndlaðir með insúlíni. Yfirleitt er um að ræða samspil of mikils insúlíns, óskynsamlegrar eða lítillar fæðuneyslu og stundum mikillar líkamlegrar áreynslu. Áfengisneysla getur einnig verið meðvirkandi en áfengi deyfir einkenni blóðsykurfalls og minnkar hæfileika lifrarinnar til að bregðast við blóðsykurfalli. Það er því sérlega mikilvægt fyrir sykursjúka að umgangast áfengi af skynsemi. 

Einkenni sykurfalls geta verið breytileg eftir einstaklingum og viðkomandi getur misst meðvitund. Helstu einkennin og þau sem koma oft fyrst eru hungurtilfinning, hraður púls, höfuðverkur, skjálfti, kröftugur hjartsláttur, fölvi, kaldur sviti og sjóntruflanir. Meðferð blóðsykurfalls felst í að gefa kolvetni (sykur) og er tvíþætt. Fyrst er gefið hraðvirkt kolvetni t.d. eitt glas af sætum djús, sætum gosdrykk, mjólkurglas, nokkrir sykurmolar eða sætindi. Síðan þarf að gefa langvirkt kolvetni t.d. brauðsneið, banana eða annað. Einkenni hverfa yfirleitt á 5 - 15 mínútum en hafa skal eftirlit með viðkomandi þar til einkenni hverfa alveg og ljóst er að ekki sé hætta á endurtekningu. Stundum þarf hinn sykursjúki aðstoð við ofangreint og einnig eru til lyf í einnota sprautum (glúkagon) til notkunar í neyðartilvikum. Ef hinn sykursjúki missir meðvitund er ráðlegt að leita strax aðstoðar læknis.

Blóðsykurhækkun getur verið vegna hægfara versnunar á tegund 2 en getur einnig gerst tiltölulega hratt (klukkustundir til dagar). Einkennin eru þau sömu og áður eru nefnd. Ástæður bráðrar blóðsykurhækkunar geta verið margar s.s. óskynsamleg matarneysla miðað við insúlíngjöf eða gleymd insúlíngjöf. Einnig veldur aukið álag á líkamann við t.d. sjúkdóma (flensa, sýkingar o.fl.) verri nýtingu insúlíns og getur leitt til verri sykurstjórnar hjá báðum tegundum sykursýki. Við veikindi þarf því yfirleitt að auka insúlínmeðferð, jafnvel um allt að 20%, (þrátt fyrir lystarleysi og minni matarneyslu) og stundum þarf að bregða tímabundið útaf venjulegum neysluvenjum (sætir gosdrykkir geta orðið kjörfæði!). Í þessum tilfellum er rétt að mæla blóðsykurinn oftar en venjulega og hafa samband við lækni ef ástandið lagast ekki. Þeir sem hafa tegund 1 þurfa stundum að meta sýrujafnvægi líkamans með því að mæla ketónur í þvagi undir slíkum kringumstæðum.

Spurt og svarað

Skert langtíma sykurþol Ég er pínu óörugg með lyf sem ég var að fá og byrja að taka. Ég fékk þær niðurstöður úr sykurþolsprófi að ég væri með skert langtíma sykurþol.
Skoða nánar

Rafn Benediktsson.