Byetta

Sykursýkilyf | Verðflokkur: 0 | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Exenatíð

Markaðsleyfishafi: Bristol-Myers Squibb | Skráð: 1. maí, 2007

Byetta inniheldur virka efnið exenatíð og er við sykursýki. Sykursýki stafar af skorti á insúlíni (tegund I, eða insúlínháð sykursýki) eða minnkuðum áhrifum þess (tegund II, eða insúlínóháð sykursýki). Insúlín er hormón sem myndast í briskirtli og þarf að vera til staðar í líkamanum til þess að sykur í blóði komist inn í frumur þar sem hann nýtist sem orkugjafi. Exenatíð er notað við sykursýki af tegund II og er það notað með öðrum sykursýkilyfjum eins og metformín (Glucophage) og/eða súlfónýlúrea lyfjum (lyf sem innihalda virku efnin glípízíð, glíklazíð, glímepíríð og glíbenklamíð) þegar ekki hefur náðst nægilega góð stjórnun á blóðsykrinum þegar þessi lyf voru notuð. Verkunarmáti exenatíð er fernskonar: að örva losun insúlíns frá briskirtli, bindast við ákveðið peptíð sem hefur ýmis áhrif á blóðsykurhækkun, bæla óæskilega seytingu glúkons sem leiðir til minni útskilnaðs á glúkósa frá lifur og að hægja á magatæmingu sem veldur því að glúkósi í fæðunni skilar sér hægar í blóðrásina og lækkar þannig blóðsykurinn.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Stungulyf undir húð.

Venjulegar skammtastærðir:
1 skammtur 2svar á dag. Hver skammtur inniheldur 5 eða 10 míkrógrömm af exenatíði. Gefa þarf lyfið innan 60 mín. fyrir kvöld- og morgunmat eða fyrir tvær aðalmáltíðir dagsins. Lyfið á ekki að gefa eftir máltíð.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Áhrif lyfsins koma fljótt fram.

Verkunartími:
A.m.k. 12 klst.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Breytt mataræði og minnkuð sykurneysla er hluti af meðferð.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum, varið ljósi og á köldum stað (2-8°C) þar sem börn hvorki ná til né sjá. Lyfjapenni í notkun geymist í 30 daga við lægra hitastig en 25°C. Lyfið má ekki frjósa.

Ef skammtur gleymist:
Slepptu þeim skammti sem gleymdist og haltu áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ekki taka tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Sykursýki getur versnað þegar töku lyfsins er hætt. Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Hafðu samband við lækni í öllum tilfellum. Einkenni um lágan blóðsykur eru aukin svitamyndun, hungurtilfinning, hraður hjartsláttur, sjóntruflanir, sljóleiki, rugl, höfuðverkur, kuldatilfinning eða uppköst. Ef sjúklingur missir meðvitund skal leita neyðarhjálpar þegar í stað.

Langtímanotkun:
Takmörkuð reynsla er af langtímanotkun lyfsins. Vegna sykursýkinnar er æskilegt að fylgjast reglulega með sykri í blóði eða þvagi. Einnig getur þurft að fylgjast með sjón og lifrar-, nýrna- og hjartastarfsemi.


Aukaverkanir

Ógleði er algengasta aukaverkun lyfsins en hjá flestum dregur úr henni með tímanum.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Aukin svitamyndun        
Lystarleysi        
Meltingartruflanir, kviðverkir        
Ógleði, uppköst, niðurgangur          
Svimi, höfuðverkur        
Útbrot, kláði, bjúgur og öndunarerfiðleikar    
Vélindabakflæði, uppþemba        
Viðvarandi miklir kviðverkir    
Þróttleysi, taugaspenna        

Milliverkanir

Lyfið getur valdið lækkun á blóðsykri ef það er notað með lyfjum sem innihalda súlfónýlúrea (sjá almennar upplýsingar hér að framan). Einkenni um lágan blóðsykur eru aukin svitamyndun, hungurtilfinning, hraður hjartsláttur, sjóntruflanir, sljóleiki, rugl, höfuðverkur, kuldatilfinning eða uppköst. Sýklalyf og prótónupumpuhemla (lyf sem innihalda virku efnin ómeprazól, lansóprazól, esómeprazól, rabeprazól ) þarf að taka inn a.m.k. 1 klst. fyrir eða 4 klst. eftir inndælingu á lyfinu. Ekki er mælt með samhliða notkun með insúlíni.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með ofnæmi fyrir einhverjum lyfjum
  • þú sért með skerta nýrnastarfsemi
  • þú takir einhver önnur lyf
  • þú hafir alvarleg vandamál við magatæmingu eða meltingu fæðu

Meðganga:
Takmörkuð reynsla er af notkun lyfsins hjá þunguðum konum.

Brjóstagjöf:
Ekki er vitað hvort lyfið berst í brjóstamjólk.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 18 ára.

Eldra fólk:
Fara skal varlega í að auka skammtinn hjá eldra fólki. Takmörkuð reynsla er af notkun lyfsins hjá fólki eldra en 75 ára.

Akstur:
Lyfið hefur ekki áhrif á aksturshæfni en ef merki eru um of lágan blóðsykur ætti ekki að stjórna ökutæki.

Áfengi:
Getur valdið lækkun á blóðsykri. Einkenni um lækkaðan blóðsykur líkjast að sumu leyti áhrifum áfengis en það minnkar líkur á því að einkennin þekkist og að rétt sé brugðist við þeim. Sjúklingar sem nota lyfið ættu því ekki að neyta áfengis.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.