Gliclazíð Krka

Sykursýkilyf | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Glíklazíð

Markaðsleyfishafi: Krka | Skráð: 1. apríl, 2019

Gliclazíð Krka, sem inniheldur virka efnið glíklazíð, er lyf við sykursýki. Sykursýki stafar af skorti á insúlíni (tegund I, eða insúlínháð sykursýki) eða minnkuðum áhrifum þess (tegund II, eða insúlínóháð sykursýki). Insúlín er hormón sem myndast í briskirtli og þarf að vera til staðar í líkamanum til þess að sykur í blóði komist inn í frumur þar sem hann nýtist sem orkugjafi. Glíklazíð er notað við sykursýki af tegund II, en hefur ekki áhrif á insúlínháða sykursýki. Það er aðeins notað ef breytt mataræði hefur ekki haft áhrif á gang sjúkdómsins. Verkunarmáti þess er að auka framleiðslu insúlíns í briskirtli og hugsanlega einnig að auka áhrif insúlíns á vefi líkamans. Alvarlegar aukaverkanir af völdum glíklazíðs eru sjaldgæfar. Helsti galli þess er sá að í stórum skömmtum getur það valdið of mikilli lækkun á blóðsykri, sem getur orðið alvarlegt ástand. Óreglulegar máltíðir, mikil áreynsla og neysla áfengis auka hættuna á þessu.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Töflur með breyttan losunarhraða til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
30-120 mg á dag. Takist rétt fyrir morgunmat. Töflurnar gleypist heilar með vatnsglasi.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Um 30 mín.

Verkunartími:
24 klst. eftir stöðuga skammta.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Breytt mataræði og minnkuð sykurneysla er hluti af meðferð.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú manst eftir því nema læknir hafi ráðlagt annað. Mundu að taka lyfið með mat. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ekki taka tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Sykursýki getur versnað þegar töku lyfsins er hætt. Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Ef sjúklingur missir meðvitund skal hringja á sjúkrabíl. Ef of stór skammtur af lyfinu hefur verið tekinn, eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið skal hafa samband við lækni, sjúkrahús eða eitrunarmiðstöð (sími 543 2222). Einkenni um lítinn blóðsykur eru aukin svitamyndun, hungurtilfinning, hraður hjartsláttur, sjóntruflanir, sljóleiki, rugl, höfuðverkur, kuldatilfinning eða uppköst. Fylgdu fyrirmælum læknis um viðbrögð við of lágum blóðsykri.

Langtímanotkun:
Án vandkvæða. Vegna sykursýkinnar er þó æskilegt að fylgjast reglulega með sykri í blóði eða þvagi. Einnig getur þurft að fylgjast með sjón og lifrar-, nýrna- og hjartastarfsemi.


Aukaverkanir

Lyfið getur valdið of mikilli lækkun á blóðsykri. Einkenni um lágan blóðsykur eru aukin svitamyndun, hungurtilfinning, hraður hjartsláttur, sjóntruflanir, sljóleiki, rugl, höfuðverkur, kuldatilfinning eða uppköst.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Gula          
Hiti, slappleiki, lystarleysi og marblettir        
Kviðverkir, niðurgangur og hægðatregða          
Of lágur blóðsykur          
Ofnæmisviðbrögð, útbrot, kláði og öndunarerfiðleikar      
Ógleði og uppköst          
Sjóntruflanir          
Útbrot eða kláði          

Milliverkanir

Aukin hætta er á of mikilli lækkun blóðsykurs ef lyfið er tekið samtímis öðrum blóðsykurslækkandi lyfjum. Náttúrulyfið Jóhannesarjurt getur haft áhrif á virkni lyfsins.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú takir einhver önnur lyf
  • þú sért með insúlínháða sykursýki (sykursýki af gerð 1)

Meðganga:
Nokkur hætta er á því að lyfið hafi áhrif á fóstur.

Brjóstagjöf:
Ekki er vitað hvort lyfið berst í brjóstamjólk. Ekki ætlað konum með barn á brjósti.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum.

Eldra fólk:
Aukin hætta er á aukaverkunum.

Akstur:
Lyfið hefur ekki áhrif á aksturshæfni en ef merki eru um of lágan blóðsykur ætti ekki að stjórna ökutæki.

Áfengi:
Getur valdið lækkun á blóðsykri. Einkenni um lækkaðan blóðsykur líkjast að sumu leyti áhrifum áfengis. Það minnkar líkur á því að einkennin þekkist og að rétt sé brugðist við þeim. Sjúklingar sem nota lyfið ættu því að forðast áfengi.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.

Annað:
 


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.