Moclobemid ratiopharm (afskráð okt 2022)

Geðdeyfðarlyf | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Móklóbemíð

Markaðsleyfishafi: Ratiopharm | Skráð: 1. febrúar, 2013

Moclobemid ratiopharm er geðdeyfðarlyf. Móklóbemíð, virka efnið í lyfinu, eykur virkni taugaboðefnanna noradrenalíns, serótóníns og dópamíns í heila með því að hindra niðurbrot þeirra. Einkenni geðdeyfðar eru talin stafa af óeðlilega lítilli virkni noradrenalíns og serótóníns. Áhrif móklóbemíðs á þessi boðefni eru því talin skýra virkni lyfsins á geðdeyfð. Móklóbemíð bætir skap geðdeyfðarsjúklinga, eykur líkamlega virkni þeirra, bætir matarlyst og eykur áhuga þeirra á daglegu lífi. Áhrifa gætir aðallega hjá sjúklingum með geðdeyfð en taki heilbrigðir lyfið hefur það lítil örvandi áhrif. Þótt móklóbemíð hafi ekki sjálft róandi áhrif bætir það oft svefn hafi svefntruflanir fylgt geðdeyfðinni. Moclobemid ratiopharm er notað við geðdeyfð og félagsfælni.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Töflur til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
150-600 mg á dag. Töflurnar takist með vatnsglasi eftir máltíð.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
1-4 vikur.

Verkunartími:
Áhrif á boðefni vara í 16 klst. eftir stakan skammt.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Óæskilegt er að neyta fæðu sem inniheldur mikið týramín. Ost, sojabaunir, rauðvín og bjór ætti að varast, sérstaklega ef sjúklingur er með háan blóðþrýsting.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ekki taka tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Sjúkdómseinkenni geta komið fram aftur þegar töku lyfsins er hætt. Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Leitaðu læknis í öllum tilvikum. Ef einkenni eins og vöðvastífleiki, svimi, skjálfti og mikil svitamyndun eða skert meðvitund koma fram skal leita neyðarhjálpar þegar í stað.

Langtímanotkun:
Án vandkvæða.


Aukaverkanir

Algengustu aukaverkanir lyfsins eru svimi, höfuðverkur, óþægindi frá meltingarvegi og svefntruflanir.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Höfuðverkur, svimi        
Ógleði, niðurgangur        
Rugl, æsingur, pirringur        
Svefntruflanir        
Útbrot og mikill kláði        

Milliverkanir

Náttúrulyfið Jóhannesarjurt getur haft áhrif á virkni lyfsins. Náttúrulyfið ginkgo getur aukið líkur á aukaverkunum lyfsins.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú sért með ofvirkan skjaldkirtil
  • þú takir einhver önnur lyf

Meðganga:
Takmörkuð reynsla er af notkun lyfsins hjá þunguðum konum.

Brjóstagjöf:
Lyfið berst í brjóstamjólk en í venjulegum skömmtum er ólíklegt að það hafi áhrif á barnið.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 12 ára.

Eldra fólk:
Venjulegar skammtastærðir.

Akstur:
Lyfið getur dregið úr viðbragðsflýti og skert aksturshæfni. Ekki aka bíl fyrr en reynsla er komin á það hvaða áhrif lyfið hefur.

Áfengi:
Í litlu magni hefur áfengi ekki áhrif á verkun lyfsins. Forðastu þó neyslu rauðvíns og bjórs (sjá hér að ofan). Almennt er mælt gegn því að neyta áfengis samhliða meðferð með geðdeyfðarlyfjum.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.