Zomig Rapimelt

Mígrenilyf | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Zolmítriptan

Markaðsleyfishafi: Astra Zeneca | Skráð: 1. maí, 2001

Zomig Rapimelt er mígrenilyf. Verkirnir sem fylgja mígreni eru taldir stafa af víkkun slagæða í höfði. Zolmítriptan, virka efnið í lyfinu, hefur sérhæfð áhrif á þessar æðar og veldur því að þær dragast saman. Lyfið er notað við mígreniköstum, með eða án fyrirboða. Hins vegar á ekki að nota það sem fyrirbyggjandi meðferð við mígreni. Lyfið skal aðeins nota þegar greining á mígreni hefur verið staðfest og aðrir hugsanlega alvarlegir sjúkdómar útilokaðir.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Munnlausnartöflur til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
Ráðlagður dagskammtur er 2,5 mg, sem skal taka við fyrstu einkenni um verk. Taka má annan skammt ef einkenni koma aftur fram innan 24ra klst. en þó ekki innan 2ja klst. frá upphafsskammti. Heildarskammtur yfir daginn má ekki vera stærri en 10 mg og ekki skal taka lyfið oftar en 2svar á sólarhring. Töflurnar leysast upp á tungunni og þeim er kyngt með munnvatni.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Áhrif fást innan 1 klst.

Verkunartími:
Hámarks áhrif fást eftir 1 klst.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Lyfið er aðeins tekið við mígreniverkjum, ekki að staðaldri.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Lyfið er aðeins tekið á meðan mígreniverkur er að ganga yfir.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Ef teknir eru mjög stórir skammtar eða vart verður við óvenjuleg einkenni skal strax hafa samband við lækni.

Langtímanotkun:
Zolmítriptan er ekki notað að staðaldri heldur aðeins til þess að slá á mígreniköst.


Aukaverkanir

Yfirleitt vægar og tímabundnar og koma venjulega fram innan 4ra klst. Sum einkennin geta tilheyrt mígrenikastinu.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Herpingstilfinning í hálsi, koki, útlimum eða brjósti        
Hitatilfinning, svefnhöfgi, truflun á húðskyni        
Hjartsláttartruflanir, hraður hjartsláttur      
Ógleði, svimi, munnþurrkur        
Útbrot, kláði, bjúgur og öndunarerfiðleikar    
Vöðvaslappleiki, vöðvaverkir        
Þróttleysi, þyngslatilfinning í útlimum        

Milliverkanir

Varasamt er að taka mígrenilyfið ergotamín samtímis zolmítriptani. Zolmítriptan má ekki taka innan 24ra klst. frá því að ergotamín er tekið. Ergotamín má ekki taka innan 6 klst. frá því að zolmítriptan er tekið.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með háan blóðþrýsting
  • þú sért með hjarta- eða æðasjúkdóm
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú hafir fengið hjartaáfall
  • þú takir einhver önnur lyf

Meðganga:
Takmörkuð reynsla er af notkun lyfsins hjá þunguðum konum.

Brjóstagjöf:
Ekki er vitað hvort lyfið berst í brjóstamjólk. Forðast skal brjóstagjöf í sólarhring eftir að lyfið er notað.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 18 ára.

Eldra fólk:
Lyfið er ekki ætlað fólki eldra en 65 ára.

Akstur:
Lyfið getur valdið þreytu eða sljóleika og skert aksturshæfni. Ekki aka bíl fyrr en áhrif lyfsins eru liðin hjá.

Áfengi:
Getur aukið sljóvgandi aukaverkanir lyfsins. Áfengi getur auk þess komið mígrenikasti af stað hjá sumum sjúklingum.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.