Fungyn

Lausasölulyf

Fungyn er hylki til meðferðar við sveppasýkingu í leggöngum. Fungyn inniheldur 150 mg af virka efninu flúkónazól. Flúkónazól er sveppalyf sem hefur sveppaheftandi verkun með því að hamla myndun ergósteróls en ergósteról er mikilvægt byggingarefni í frumuhimnu sveppa.

Fungyn er notað við sveppasýkingum í leggöngum af völdum gersveppsins Candida hjá konum sem áður hafa verið greindar með sveppasýkingu og þekkja þannig einkenni sýkingarinnar. Candida sveppurinn er hluti af eðlilegri flóru í leggöngum kvenna en getur við vissar aðstæður fjölgað sér óeðlilega mikið og þannig valdið óþægindum. Orsakaþættir geta t.d. verið inntaka sýklalyfja, meðganga, hormónagetnaðarvarnir, sykursýki, sápunotkun og fleira. Einkenni sveppasýkinga í leggöngum eru m.a. kláði, sviði og óþægindi á kynfærasvæði, hvít og kekkjótt útferð sem minnir á kotasælu, roði, bólga og brennandi tilfinning við kynlíf. Hafa skal í huga að einkenni frá kynfærum geta komið fram af öðrum orsökum sem geta krafist annarrar meðferðar.

Fungyn inniheldur aðeins eitt hylki til inntöku sem er full meðferð. Gleypa skal hylkið heilt um munn með glasi af vatni. Ekki skiptir máli hvenær lyfið er tekið.

Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins. Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is.