Eineltisstefna

STEFNUYFIRLÝSING LYFJU HF. GEGN EINELTI, KYNFERÐISLEGRI ÁREITNI, KYNBUNDINNI ÁREITNI, OFBELDI OG ANNARRI ÓTILHLÝÐILEGRI HÁTTSEMI

Lyfja hf tekur skýra og afdráttarlausa afstöðu gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi. Allt starfsfólk á sama rétt á því að komið sé fram við það af umhyggju og virðingu. Starfsmaður sem með orðum, látbragði eða atferli, truflar, ögrar eða ógnar samstarfsfélaga, leggur í einelti eða sýnir samstarfsfélaga kynferðislega eða kynbundna áreitni eða ofbeldi, telst brjóta grundvallarreglur samskipta á vinnustaðnum.

Í jafnréttisstefnu Lyfju hf segir:

„Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni og mismunun er með öllu óheimil og er ekki liðin. Telji starfsmaður sig verða fyrir slíku skal hann snúa sér til yfirmanns síns eða mannauðsstjóra sem styðja hlutaðeigandi til að leysa málin. Öll slík hegðun varðar áminningu eða brottrekstur úr starfi og er meðvirkni starfsmanna í slíkum málum fordæmd.“

Jafnréttisstefna Lyfju hf miðar að því að allir starfsmenn njóti jafns réttar og séu metnir á eigin forsendum. Mikil áhersla er lögð á að skapa jákvæðan starfsanda og viðhalda góðu starfsumhverfi þar sem öll samskipti og samvinna einkennast heilindum, virðingu og vandaðri framkomu.

Skýr stefna og verkferlar gegn einelti og áreitni á vinnustaðnum undirstrika áherslur og mikilvægi málaflokksins, en rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að einelti og áreitni á vinnustað getur haft alvarleg áhrif á heilsu og vellíðan þolanda. Samkvæmt Vinnueftirliti Ríkisins benda rannsóknir til þess að skjót og markviss viðbrögð vegna ábendinga um einelti, ofbeldi eða hverskonar áreitni á vinnustaðnum séu einkar mikilvæg. Stefna þessi skal vera aðgengileg öllu starfsfólki, kynnt fyrir nýju starfsfólki og endurskoðuð og uppfærð reglulega.

Stefna þessi er mótuð í samræmi við reglugerð Velferðarráðuneytisins nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Stefna þessi tekur gildi frá og með 5.11 2018.

GILDISSVIÐ OG MARKMIÐ

Eineltisstefna Lyfju hf. varðar allt starfsfólk fyrirtækisins og ber framkvæmdastjóri ábyrgð á framgangi slíkra mála með stuðningi frá mannauðssviði.
Í eineltisstefnu Lyfju hf er lögð fram áætlun um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn einelti og áreitni ásamt verklags- og viðbragðsáætlun til að bregðast við ef mál tengd einelti eða áreitni koma upp.

Lyfja hf skuldbindur sig til að stuðla að öruggu starfsumhverfi sem einkennist af virðingu og samvinnu, án hverskonar mismununar, eineltis eða áreitni.
Með innleiðingu þessarar stefnu og setningu verklagsreglna vegna eineltis og áreitni mun Lyfja hf laða að sé hæfileikaríkt starfsfólk og skapa jákvætt umhverfi fyrir starfsfólk sitt.

SKILGREININGAR

Einelti
Einelti er “ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, það er athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir” (Vinnueftirlit Ríkisins, 2008). Með einelti er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstra, t.d. á milli stjórnanda og starfsmanns (Vinnueftirlit Ríkisins, 2008) (sbr. b. liður. 3. gr. reglugerðar nr. 1009/2015).

Kynferðisleg áreitni
Samkvæmt 22. grein jafnréttislaga er kynferðisleg áreitni bönnuð. Kynferðisleg áreitni er sértæk og alvarleg birtingarmynd áreitni. Kynferðisleg áreitni er öll hegðun af kynferðislegum toga sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þau áhrif eða tilgang að særa, misbjóða, móðga, niðurlægja eða á annan hátt orsaka vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður.

Þolandi metur hvaða framkomu hann umber og frá hverjum. Það er ávallt huglægt mat hans sem ræður því hvort hegðun sé kynferðisleg áreitni eða ekki (Vinnueftirlit Ríkisins, Stjórnarráðið).

Kynbundin áreitni
Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Ofbeldi
Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis.

Lyfja hf gerir þá kröfu til alls starfsfólks að það framfylgi þessari stefnu og styðji framgang hennar í hvívetna.

Allt starfsfólk ber skyldu til að:
  • Fylgja viðmiðum um vönduð samskipti og framkomu sem kemur fram í þessari stefnu.
  • Sýna starfsfólki sem upplifir mismunun, einelti eða áreitni, stuðning. Þ.á.m. að veita upplýsingar um hvert skal snúa sér til að koma ábendingu eða kvörtun á framfæri.
  • Forðast slúður og virða þann trúnað sem er nauðsynlegur við málsmeðferð kvörtunar.
  • Koma fram af heilindum, virðingu og kurteisi, við allt samstarfsfólk.

Skyldur yfirmanna
  • Ganga fram með fordæmi og sýna viðeigandi viðmið um framkomu.
  • Að gera starfsfólki sínu ljóst um hverjar skyldur þeirra eru varðandi framkomu og háttsemi á vinnustaðnum í samræmi við þessa stefnu, vinnuverndarlög og jafnréttislög.
  • Ber að bregðast skjótt við og á viðeigandi hátt ef þeir verða varir við óviðeigandi hegðun undirmanna sinna.
  • Að sýna sanngirni við úrlausn og málsmeðferð, framfylgja samskiptareglum á vinnustaðnum og tryggja að rödd hlutaðeigandi fái að heyrast.
  • Að hjálpa starfsfólki við lausn á óformlegum kvörtunum. 
  • Að tilkynna formlegar kvartanir um hverskonar einelti, áreitni eða ofbeldi til viðeigandi aðila.
  • Að tryggja að starfsfólk sem leggur fram kvörtun líði ekki fyrir það heldur upplifi stuðning og sanngirni.

Lyfja hf hefur sett sér skýra viðbragðsáætlun sem skal fylgja í hvívetna ef upp koma mál vegna eineltis, kynferðislegrar eða kynbundinnar áreitni. Vanda skal móttöku og meðferð ábendinga og meta hvert atvik á hlutlausan hátt útfrá fyrirliggjandi gögnum. 

UPPFÆRT OG YFIRFARIÐ

Stefna og viðbragðsáætlun er skoðuð reglulega og í samræmi við reynslu af vinnslu mála sem upp hafa komið á vinnustaðnum.

Ofangreind stefna var útgefin af mannauðssviði Lyfju hf. þann 5.11.2018.
Stefnan var síðast yfirfarin 5.11.2018 Svövu Þorsteinsdóttur, mannauðsstjóra Lyfju hf. og vottuð og samþykkt af framkvæmdastjóra Lyfju hf., Sigurbirni Gunnarssyni, þann 5.11 2018.

Sigurbjörn Gunnarsson
Framkvæmdastjóri Lyfju hf.