Starfsviðtöl

Starfsviðtal getur bæði vakið upp spennu og óöryggi. Því skiptir máli að undirbúa sig eins vel og kostur er. Góður undirbúningur endurspeglar gjarnan þær vinnuaðferðir sem viðkomandi hefur tamið sér.  Hvort sem umsækjandi er nýr eða reyndur á atvinnumarkaði þá geta eftirfarandi ráð reynst vel.

Tilgangur og markmið viðtals

Markmið viðtalsins er að vinnuveitandi auki við þær upplýsingar sem eru í ferilskránni og í kynningarbréfi, meti hvort viðkomandi ráði við starfið, hvort hann passi inn í vinnustaðarmenninguna, ásamt því að kynna starfið og fyrirtækið. Vinnuveitandi fer yfir ferilskránna og kynningarbréfið og spyr þig aðeins útúr. Vertu tilbúin að svara með dæmum. 

Hvað skal hafa meðferðis í starfsviðtal?

Gott er að hafa útprentað eintak af ferilskrá, kynningarbréfi, meðmælabréfum og prófskírteinum. Athugaðu að vinnuveitendur prenta gjarnan ferilskrár og annað í svarthvítu til að spara blek. Því er kjörið að prenta þetta í lit og skilja eftir í lituðum plastvasa á borðinu. Með því móti getur þú skorið þig úr.  Gott er að hafa meðferðis skriffæri svo þú getir punktað niður minnisatriði og haft spurningar sem þú vilt spyrja tiltækar. 

Góð ráð fyrir starfsviðtal

  • Vertu snyrtilega til fara og mættu á réttum tíma.
  • Heilsaðu og kveddu með öruggu handabandi.
  • Miðlaðu reynslu þinni og þekkingu af sjálfstrausti og öryggi.
  • Ekki gleyma því að þú ert boðuð/aður í viðtal því vinnuveitandi hefur áhuga á að kynnast þér betur.
  • Vertu undirbúin um að svara spurningum sem tengjast styrkleikum þínum og hvernig þeir nýtast í starfinu.
  • Leyfðu persónuleikanum að skína, hér er einnig verið að athuga hvort þú passir inn í hópinn og vinnumenninguna á staðnum.

Kynntu þér fyrirtækið

  • Hver er starfsmannastefnan?
  • Hvað selur fyrirtækið?
  • Er það áberandi í fréttum?

Hvað vilt þú vita um fyrirtækið?

  • Skrifaðu niður nokkur atriði sem þú myndir vilja vita um starfið og fyrirtækið
  • Þetta sýnir að þú sért undirbúin og hefur áhuga á starfinu


Notaðu dæmi um fyrri viðbrögð, verkefni eða árangur

  • Þú þarft að geta fært rök fyrir því afhverju þú hentar betur í starfið heldur en einhver annar.  Hér getur þú vísað í reynslu, hæfni og þekkingu.
  • Gott er að nota dæmi um einhver verkefni eða aðstæður þar sem þú stóðst þig vel. 
  • Hér er verið að kanna hvort þú valdir starfinu og hvort þú eigir auðvelt með að aðlagast að starfinu og vinnustaðnum.


Hvað vakti áhuga þinn á starfinu? 

  • Hér getur þú komið því áleiðis afhverju þú hefur áhuga á umræddu starfi.
  • Vísaðu í þær upplýsingar sem þú hefur um fyrirtækið, starfsemina og starfið og hvernig það tengist áhugasviði þínu og hæfni.


Hver er ég?

  • Vertu viðbúin að lýsa sjálfri/sjálfum þér.  Hér skaltu leggja áherslu á kosti þína, hæfileika og þekkingu sem skiptir máli varðandi umrætt starf.
  • Hafðu svörin hnitmiðuð og skýr.
  • Hafðu í huga að öryggi í tilsvörum endurspeglar sjálfsöryggi.

Hverjir eru styrkleikar þínir?

  • Íhugaðu þetta vel og svaraðu af heiðarleika. Hér er gott að nefna styrkleika/kosti sem þú býrð yfir sem koma sér vel í starfi. 
  • Hér getur þú til dæmis sagt að þú sért skipulögð, jákvæður, stundvís, metnaðarfullur, auðvelt að vinna með fólki og góður í samskiptum. 
  • Það er ekki ráðlegt að tala um veikleika eða galla að fyrra bragði.

Veikleikar

  • Ekki telja upp of marga veikleika eða galla.
  • Hér er ekki verið að leita að ástæðu til að ráða þig ekki heldur er verið að kanna hvort umsækjandi gerir sér grein fyrir veikleikum sínum og hvort viðkomandi hafi gert eitthvað til að styrkja þá.

Til dæmis “ég á stundum erfitt með að muna hluti en held þess vegna skipulagða dagbók og nota Outlook dagatalið til áminningar”.

Erfiðar spurningar

  • Spurningar sem krefjast erfiðra eða neikvæðra svara, til dæmis spurningunni “hefur þú lent í ágreiningi á vinnustaðnum”  getur verið gott að svara með því að gefa dæmi um aðstæður þar sem slíkt kom upp, hvernig umsækjandi brást við og hvað hann lærði af því.


Launamál

  • Það er óæskilegt að spyrja þessu að fyrra bragði og laun eru iðulega ekki rædd í fyrsta viðtali. Ef umsækjandi er spurður að því hvaða launahugmyndir hann er með, þá er betra að vera búin að undirbúa sig, til dæmis með því að skoða launakannanir á netinu og gefa upp raunhæfar launakröfur.
  • Vinnuveitandi er iðulega með eigin launahugmyndir fyrir viðtalið en vill gjarnan heyra frá umsækjanda áður en þær eru gefnar upp. Það er því óráðlegt að neita að gefa upp launahugmyndir eða spyrja tilbaka hvaða hugmyndir vinnuveitandinn sé með.

Algengar spurningar í starfsviðtölum

Góður undirbúningur gerir þér kleift að gefa skýrari svör og öruggari framkomu.

  • Hvaða væntingar hefur þú til starfsins?
  • Hvað vakti áhuga þinn á starfinu?
  • Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú heyrir fyrirtækið nefnt?
  • Hefur þú einhverjar spurningar fyrir okkur?
  • Afhverju ættum við að ráða þig frekar einhvern annan?
  • Afhverju viltu skipta um starf?
  • Hvaða karakter ertu?
  • Hvað pirrar þig mest á vinnustaðnum?
  • Getur þú unnið undir álagi?
  • Hvaða launahugmyndir ertu með?

Eftirfylgni - þakkarpóstur

Einum til tveimur dögum eftir starfsviðtal er kjörið að senda póst á þann/þá aðila sem tóku þig í viðtal.  Hér byrjar umsækjandi á að þakka fyrir viðtalið og lýsa yfir áhuga á starfinu og fyrirtækinu. Hér er hægt að skrifa örstuttan útdrátt úr kynningarbréfinu, minnt á hver þú ert og hvað þú hefur að bjóða. Þetta getur einnig verið tækifæri á að bæta við upplýsingum sem gleymdist að koma á framfæri í viðtalinu. Þakkaðu að lokum fyrir að umsókn þín hafi verið tekin til greina og lýstu yfir áhuga á að kynnast viðkomandi betur.

Mundu að lesa vel yfir póstinn áður en þú sendir hann.