Brjóstagjöf

Almenn fræðsla Móðir og barn

Strax að loknu því krefjandi verkefni að fæða barn taka við ný hlutverk, umönnun, að kynnast nýburanum og brjóstagjöf ef konur kjósa og geta. Við fæðingu fylgjunnar fer af stað magnað og flókið ferli sem ræsir framleiðslu brjóstamjólkur og strax að fæðingu lokinni fara langflest börn beint í fang móður sinnar og brjóstagjöf getur hafist.

Á meðgöngu taka brjóstin breytingum, þau stækka og þrútna og geirvörtur dökkna og stækka. Allt er þetta hluti af þessu fullkomna kerfi sem líkaminn okkar er, vörturnar verða dökkar svo barnið sjái þær! Börn geta svo skriðið sjálf á brjóst fái þau tíma og tækifæri til þess en oftast nær er þeim leiðbeint þangað af móður og/eða ljósmóður og fá þar tækifæri til að byrja að nærast. Oft fara fyrstu mínúturnar í það að barnið átti sig á því hvernig eigi að nota lungun en fljótlega byrja þau að sýna þess merki að þau séu tilbúin að fara á brjóst. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að koma barni á brjóst eða að örva framleiðslu brjóstamjólkur á fyrsta klukkutímanum hefur áhrif á það magn sem mæður framleiða fyrstu vikurnar eftir fæðingu. Það er því til mikils að vinna að hefja brjóstagjöfina sem fyrst. Þessi fyrsti klukkutími er oft kallaður „gullni klukkutíminn“ (e. Golden hour) en á þeim tíma ætti barnið að vera í fangi móður sinnar óáreitt. Bíða ætti með öll inngrip eins og vigtun, sprautur og að klippa naflastreng þennan fyrsta klukkutíma ef það er hægt og veita fjölskyldunni ró og næði til að horfa á og kynnast nýja barninu sínu og leyfa því leggjast á brjóst.

Þegar barn leggst á brjóst ætti það að snúa með maga sinn upp að maga móður sinnar, það skiptir miklu máli að þeim líði vel í þeirri stellingu sem þau eru í. Barnið þarf svo að opna vel munninn og taka geirvörtuna djúpt upp í sig. Það kemur mörgum á óvart hversu djúpt þau taka geirvörtuna en grunnt grip hjá barni leiðir til þess að það nær ekki að flytja næga mjólk og getur sært geirvörtur móðurinnar. Það skiptir því miklu máli að æfa sig vel og vanda sig við álögn barnsins á brjóstið. Brjóstagjöfin á ekki að vera sár. Í upphafi brjóstagjafar eru oft óþægindi þegar börnin eru að taka brjóstið upp í sig sem eiga að líða hjá á fyrstu mínútunni. Ef það gerist ekki skaltu ekki hika við að taka barnið af brjóstinu og koma því betur á.

Fyrstu dagana fær barnið broddmjólkina. Broddurinn er gulleitur seigur vökvi en á ensku er hann oft kallaður „liquid gold“ þar sem hann er svo sannarlega gulls ígildi. Broddurinn spilar mikilvægt hlutverk í að byggja upp ónæmiskerfi barnsins en í honum eru lifandi hvít blóðkorn sem hjálpa börnunum við að berjast við sýkingar. Hann „húðar“ meltingafærin og börnum sem fæðast fyrir tímann er gefinn hann eins og lyf til að vernda þau einnig ver hann börn fyrir öndunarfærasýkingum. Samsetning brjóstamjólkurinnar er breytileg og ef að barn veikist, breytir líkaminn henni til að hjálpa barninu að berjast við sýkingar og jafna sig. Frekar magnað ekki satt?! Í brjóstamjólkinni eru hvít blóðkorn, stofnfrumur, vaxtarþættir, hormón, ensím og góðgerlar. Rannsóknir hafa sýnt fram á að hún dregur úr líkum á sjúkdómum hjá börnum eins og t.d. hvítblæði, sykursýki, astma og hjartasjúkdómum. Þá dregur brjóstamjólkin einnig úr líkum á vöggudauða, eyrnabólgu, tannskemmdum, offitu og bætir vitsmunaþroska svo eitthvað sé nefnt. Móðirin hlýtur líka ávinning af því að hafa barnið á brjósti því brjóstagjöfin er verndandi fyrir þunglyndi, brjóstakrabbameini, krabbameini í eggjastokkum og sykursýki.

Það er því til mikils að vinna að hafa barnið á brjósti en það kemur mörgum á óvart hversu krefjandi brjóstagjöf getur verið. Það verður að gefa sér góðan tíma og eiga til nóg af þolinmæði, sérstaklega þegar konur eru með fyrsta barn. Margar konur eru aumar og þreyttar eftir fæðinguna og rannsóknir sýna að það skiptir mjög miklu máli að konan fái góðan stuðning frá maka sínum og fjölskyldu sinni í brjóstagjöfinni.

Fyrstu dagana þarf fjölskyldan mikla ró og næði en eftir langa og krefjandi fæðingu tekur við ungabarn sem vill helst ekki víkja úr fangi foreldra sinna. Á þessum tíma skiptir máli að vinir og ættingjar sýni skilning og bíði með heimsóknir. Ekki hika við að biðja ykkar nánasta fólk að aðstoða ykkur með matargjöfum og aðstoð við heimilisstörf.

Framleiðsla brjóstarmjólkurinnar er háð því að barnið fjarlægi mjólk úr brjóstunum og sjúgi brjóstin til að örva framleiðslu. Börnin stýra þessu algjörlega og skiptir máli fyrir okkur að treysta líkamanum, rétt eins og við treystum honum á meðgöngu til að þroska barnið okkar og sjá því fyrir næringu. Besti mælikvarðinn á að barn sé að fá nóg er útskilnaður barnsins, barn sem vætir vel bleyjur, kúkar og er vært er að fá nóg að drekka.

Fyrstu dagana eftir fæðingu eiga börn að hafa óheft aðgengi að brjóstum móður sinnar og fá að sjúga brjóst eins og þau vilja. Það er þeim meðfætt að leita eftir brjósti og láta okkur vita þegar þau vilja drekka með því að stinga út tungunni, smjatta og leita að brjósti, þessir fyrstu dagar eru oft mjög krefjandi. Börn eru fædd með birgðir af vökva og sykri til að fleyta sér í gegnum fyrsta sólahringinn og ganga þau á þessar birgðir á þeim tíma. Þau eru oft þreytt fyrsta daginn eftir fæðingu og því er áskorun að halda þeim við efnið þegar kemur að brjóstagjöfinni. Það er hins vegar sjaldan vandamál á öðrum degi en um 24 klukkustundum eftir að barnið fæðist fer forðinn þeirra þverrandi og þau fara þá að sýna mikinn áhuga á brjóstinu og vilja helst bara vera þar. Þessi tími getur reynst foreldrum mjög erfiður en börnin geta orðið mjög óróleg nema þau séu á brjósti, þau vakna oft og gráta sárt nema þau fái að drekka. Þarna er oft freistandi fyrir foreldra að gefa barninu ábót með þurrmjólk en reynið að gera það ekki. Það er gott að byrja strax á því eftir fæðingu að gefa barninu brjóstið, handmjólka svo í teskeið eftir gjöfina og gefa barninu í eftirrétt. Þetta hjálpar þeim að líða betur og eykur mjólkurframleiðsluna. Til þess að auka enn betur framleiðslu er gott að halda á barninu mikið húð við húð og gefa barninu þegar það sýnir merki þess að vilja drekka og vitið til þetta erfiða tímabil er búið áður en þið vitið.

Mjólkin kemur svo á 2-4 degi en hjá konum sem fara í keisara eða blæða mikið í fæðingu seinkar mjólkurmyndunni aðeins. Samsetning mjólkurinnar breytist með barninu þínu og í kringum 1 mánaða aldurinn eru konur farnar að framleiða um 750- 800 ml af mjólk á dag. Oft mjólkar hægra brjóstið meira en það vinstra og magn mjólkur sem kemur er mismunandi eftir tíma dags. Oft er líka munur á magni sem við náum að pumpa á móti því sem barnið nær að drekka en börnin ná oft meira sjálf en pumpan.

Það er algengur misskilningur að mjólkin sé „geymd“ í brjóstunum, vissulega er einhver mjólk í brjóstunum en þegar barnið fer á brjóst er eins og skrúfað sé frá krana. Þá fer af stað framleiðsla mjólkurinnar og hún eykst dag frá degi eftir fæðingu. Eins er það mýta að brjóstamjólkin tengist meltingu móðurinnar en svo er ekki. Mjólkin er mynduð úr blóðvökva, úr honum tekur líkaminn næringarefnin og umbreytir í mjólk. Það er því algengur misskilingur að það megi ekki borða t.d. sterkan mat því hann berist í mjólkina en þá væru börn í Indlandi og Mexíkó í frekar slæmum málum. Það eina sem berst í brjóstamjólk eru áfengi, fíkniefni og lyf.

Mælt er með því að bíða með snuð fyrstu dagana eða þar til brjóstagjöfin er komin vel í gang. Það er svo barnið sé ekki að eyða dýrmætum hitaeiningum sínum í að sjúga snuðið og sé svo búið með orkuna þegar kemur að því að sjúga brjóstið og örva framleiðslu.

Brjóstagjöf er mikilvæg fyrir börnin okkar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) mælir með því að hafa börn á brjósti til að minnsta kosti 2 ára aldurs og lengur ef konur kjósa. Það er ekki rétt að mjólkin sé ekki næringarík eftir að barnið byrjar að borða því mjólkin er rík uppspretta próteins, vítamína og snefilefna sem börnin okkar þurfa áfram. Snilldin við brjóstamjólkina er að hún alltaf tilbúin, rétt samsett fyrir barnið þitt og við rétt hitastig.

Fyrir brjóstagjöfina þarftu ekki að kaupa neitt, nema kannski lekahlífar, þú þarft bara að vera með eitt brjóst meira að segja! En komi til þess að þú þurfir aukahluti eru apótek opin nánast allan sólahringinn.

Ljósmóðirin sem kemur heim til þín mun hjálpa þér með brjóstagjöfina og eru flestar ljósmæður með viðamikla þekkingu og kunnáttu á brjóstagjöf. Ef eitthvað bregður út af eiga konur rétt á brjóstagjafaráðgjafa þrisvar sinnum á fyrsta hálfa ári í lífi barnsins. Stundum gengur brjóstagjöfin ekki upp vegna lyfja sem konur taka eða líkamlegs eða andlegs ástands. Allar erum við að reyna að gera það besta fyrir börnin okkar og það er það sem skiptir höfuðmáli.

Helga Reynisdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi

Heimildir

Brown, A. (2020). The Positive Breastfeeding Book: Everything you need to feed your baby with confidence. Pinter & Martin Ltd.

Gephart, S. M. og Weller, M. (2014). Colostrum as oral immune therapy to promote neonatal health. Advances in neonatal care : official journal of the National Association of Neonatal Nurses, 14(1), 44–51.

Pannaraj, P. S., Li, F., Cerini, C., Bender, J. M., Yang, S., Rollie, A., Adisetiyo, H., Zabih, S., Lincez, P. J., Bittinger, K., Bailey, A., Bushman, F. D., Sleasman, J. W. og Aldrovandi, G. M. (2017). Association Between Breast Milk Bacterial Communities and Establishment and Development of the Infant Gut Microbiome. JAMA pediatrics, 171(7), 647–654.

Parker, L. A., Sullivan, S., Krueger, C., Kelechi, T. og Mueller, M. (2012). Effect of early breast milk expression on milk volume and timing of lactogenesis stage II among mothers of very low birth weight infants: a pilot study. Journal of perinatology : official journal of the California Perinatal Association, 32(3), 205–209.

Parker, L. A., Sullivan, S., Krueger, C. og Mueller, M. (2015). Association of timing of initiation of breastmilk expression on milk volume and timing of lactogenesis stage II among mothers of very low-birth-weight infants. Breastfeeding medicine : the official journal of the Academy of Breastfeeding Medicine, 10(2), 84–91.

Underwood M. A. (2013). Human milk for the premature infant. Pediatric clinics of North America, 60(1), 189–207.

Quigley, M. A., Hockley, C., Carson, C., Kelly, Y., Renfrew, M. J., og Sacker, A. (2012). Breastfeeding is associated with improved child cognitive development: a population-based cohort study. The Journal of pediatrics, 160(1), 25–32.

Victora, C. G., Bahl, R., Barros, A. J., França, G. V., Horton, S., Krasevec, J., Murch, S., Sankar, M. J., Walker, N., Rollins, N. C., & Lancet Breastfeeding Series Group (2016). Breastfeeding in the 21st century: epidemiology, mechanisms, and lifelong effect. Lancet (London, England), 387, 475–490.

Wambach, K. og Spencer, B. (2021). Breastfeeding and Human Lactation (6. útgáfa). Jones & Bartlett Learning.