Quiche með Quinoa botni og svartbaunasalsa

Uppskrift

Þá sjaldan það gefst tækifæri til að setjast út í sól og blíðu, með fjölskyldu, vinum eða bara elskunni, er dásamlegt að gera sér og sínum góða veislu. Bökur eða „quiche“ ljá lautarferðinni skemmtilegan blæ auk þess sem þær eru matarmiklar og ljúffengar. Bökuna má útbúa daginn fyrir notkun eða geyma í frysti. Hún kemur sérlega vel út á köflóttu teppi í náttúru Íslands. 

Lifið heil fór á stúfana og fékk matarbókahöfundinn Fanneyju Rut til að útbúa nesti í lautarferð.„Þegar bakan er útbúin er sniðugt að nýta það sem til er í ísskápnum, um að gera að nota grænmeti og annað góðgæti sem til er. Þannig er lagt örlítið á vogarskálarnar þegar kemur að því að minnka matarsóun. Uppskriftin sem ég deili hér er í miklu uppáhaldi hjá mér en ég hvet ykkur til að prófa ykkur áfram. Bauna-salsa er frábært með bökum og gott að eiga í ísskápnum. Sætur eftirréttur er rúsínan í pylsuendanum og alveg ómissandi í minni fjölskyldu.“

Quinoa botn (skel)

  • 2 bollar eldað quinoa
  • 1 egg
  • 3-4 msk parmesan ostur
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð
Sjóðið quinoa eftir leiðbeiningum og látið kólna. Blandið öllum innihaldsefnunum saman. Þrýstið í botn á formi og bakið í 15 mín á 180°C.

Quiche

  • 1 rauðlaukur, smátt skorinn
  • 3 hvítlauksrif, fínt söxuð
  • 2 lúkur spínat
  • kjúklingur og/eða grænmeti, eldað og skorið í þægilega bita, magn eftir smekk.
  • 6 egg
  • 1 lítil dós kókosmjólk paprikuduft, salt og pipar
  • 1 stk tómatur parmesan eftir smekk

Aðferð
Bræðið kókosolíu á pönnu við miðlungs hita, setjið rauðlaukinn út í og steikið í 5 mínútur. Bætið þá við hvítlauknum og steikið áfram í 5 mínútur.  Setjið spínatið og eldaðan kjúkling (eða grænmeti) saman við og steikið í 5 mínútur.  Hrærið eggin, kókosmjólkina og kryddin vel saman í skál.  Bætið spínatblöndunni saman við eggin smám saman og hrærið á meðan.  Setjið í skelina.  Sneiðið tómatinn og raðið ofan á ásamt Parmesanostinum. Bakið í 40-50 mín við 180°C.

Svartbaunasalsa

  • 1 dós svartar baunir
  • 1 lítil dós gular baunir
  • 1 dós niðurskornir tómatar
  • 1 msk tómatmauk (paste)
  • jalapeno eftir smekk
  • 1 hvítlauksrif, saxað
  • 1 msk agave (má sleppa) salt og pipar eftir smekk.

Aðferð
Hrærið öllu innihaldinu vel saman og setjið í krukkur.

Steikt epli fyrir 4

  • 2 epli
  • 4 msk kanilsykur
  • 1 msk kókosolía til steikingar múslí eða hnetur að eigin vali grísk jógúrt eða vanillu skyr

 

Aðferð

  1. Skerið eplin í litla bita.  Bræðið kókosolíu við miðlungshita á pönnu. Setjið eplin og kanilsykurinn á pönnuna og steikið þar til eplin verða mjúk. Látið kólna.
  2. Setjið múslí í botninn á krukkunni, því næst jógúrt og eplin efst.