CHjarta- og æðasjúkdóma­lyf

Til eru lyf við hvers kyns hjarta- og æðasjúkdómum. Má þar nefna lyf við of háum blóðþrýstingi, hjartsláttaróreglu, hjartabilun, blóðþurrð í hjartavöðva (hjartaöng) og of háu kólesteróli.

C Hjarta- og æðasjúkdómalyf

Til eru lyf við hvers kyns hjarta- og æðasjúkdómum. Má þar nefna lyf við of háum blóðþrýstingi, hjartsláttaróreglu, hjartabilun, blóðþurrð í hjartavöðva (hjartaöng) og of háu kólesteróli.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Hjarta- og æðakerfinu er stjórnað af mörgum flóknum kerfum. Öll eiga það sameiginlegt að stuðla að því að starfsemi hjarta og æða sé sem eðlilegast. Það gera þau meðal annars með því að viðhalda eðlilegum hjartslætti og blóðþrýstingi. Þrýsti- og súrefnisnemar eru um allan líkamann og mæla þrýsting í æðum og súrefnismagn í blóði. Verði breytingar á blóðþrýstingi senda nemarnir boð til heila sem les skilaboðin og sendir því næst boð aftur út í líkamann um það hvernig eigi að bregðast við breytingunum.

Til eru lyf við hvers kyns hjarta- og æðasjúkdómum. Má þar nefna lyf við of háum blóðþrýstingi, hjartsláttaróreglu, hjartabilun, blóðþurrð í hjartavöðva (hjartaöng) og of háu kólesteróli. Lyfjaformin eru mörg, algengast er að lyfin séu til inntöku og þá sem töflur eða hylki. Sum lyfjanna eru eingöngu notuð á sjúkrahúsum í bráðatilfellum, oftast sem stungulyf (í stungulyfsformi) til að fá skjóta verkun.

Hér má líka finna lyf við gyllinæð og æðahnútum og þau eru notuð staðbundið í formi krema og stíla.

Saga
Á 18. öld var byrjað að nota digitoxin við hjarta- og æðasjúkdómum. Það er að finna í plöntunni Digitalis purpurea sem kallast Fingurbjargarblóm á íslensku og er víða að finna í görðum hérna. Fyrst um sinn var notaður drogi plöntunnar en með bættri efnafræðiþekkingu reyndist unnt að einangra virka efnið úr droganum. Núna er digitoxin lítið notað, en plantan Digitalis lanata, sem er náskyld D. purpurea, inniheldur skylt efni, digoxín, sem er mjög mikilvægt lyf til að meðhöndla hjartabilun.

Bylting varð í meðhöndlun á blóðþrýsting seint á 6. áratugnum þegar fyrsti beta-blokkarinn kom á markað. Síðan þá hafa margir fleiri bæst í hópinn og núna eru beta-blokkarar, ásamt þvagræsilyfjum, yfirleitt fyrsta val þegar háþrýstingur er meðhöndlaður. Þeir hafa sannað gildi sitt, eru ódýrir og aukaverkanir af þeim eru fremur sjaldgæfar.

Hin síðari ár hafa ný lyf og nýir lyfjaflokkar bæst hratt í flokk hjarta- og æðasjúkdómalyfja, enda þörfin mikil þar sem hjarta- og æðasjúkdómar er ein algengasta dánarorsök Vesturlandabúa.

Verkunarmáti
Lyfin virka á hjarta- og æðakerfi á margvíslegan hátt. Lyfin sem eru notuð við háum blóðþrýstingi, kransæðasjúkdómum, hjartsláttartruflunum og hjartabilun eru mörg og hvert með sinn verkunarmáta. Sum lyfin hafa beina verkun á hjarta, bæði á samdráttarkraft þess og leiðni boða um rafkerfi þess, önnur hafa áhrif á æðar.

Þvagræsilyf er líka mikilvægur flokkur. Áhrifa þeirra gætir á nýru með þeim hætti að þau auka útskilnað á salti og vatni.

Blóðfitulækkandi lyf hafa sérstöðu að því leyti að þau eru tekin í forvarnarskyni. Ekki er verið að meðhöndla einkenni því að einstaklingur með of hátt kólesteról finnur á engan hátt fyrir því. Þessi lyf eru því eingöngu tekin í forvarnarskyni til að koma í veg fyrir hjarta- og æðasjúkdóma á meðan önnur lyf í þessum flokki eru notuð til að meðhöndla einkenni.

Sjá undirflokka.

Algengar aukaverkanir
Aukaverkanir eru margvíslegar og mismunandi fyrir hvern undirflokk, enda er fjölbreytileiki lyfjanna mikill í flokknum. Algengar aukaverkanir sem lyfjunum fylgja eru óþægindi frá meltingarvegi, einkenni frá miðtaugakerfi og hætta á blóðþrýstingsfalli.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum vel af því að lyfin geta reynst varasöm séu þau ekki tekin rétt. Þá hafa lyfin áhrif á blóðþrýsting og hjartslátt og ofskömmtun eða vanskömmtun getur orðið lífshættuleg. Þetta á þó ekki við um lyf sem eru borin á húð eða kólesteról lækkandi lyf. Hin sömu geta líka valdið aukaverkunum séu þau ekki notuð samkvæmt leiðbeiningum.

Sjá undirflokka.

Hvað ber að varast
Vegna áhrifa lyfjanna á hjarta- og æðakerfi gætu komið fram óæskilegar verkanir eins og of hægur eða hraður hjartsláttur, blóðþrýstingsfall sé staðið snögglega á fætur ásamt ýmsum öðrum aukaverkunum. Aukaverkanir eru misalvarlegar en komi hættulegar aukaverkanir fram eða óþægilegar aukaverkanir fyrir sjúklinginn, væri rétt að huga að skömmtun lyfjanna og breyta þeim í samráði við lækni. Oft gæti verið nauðsynlegt að skipta um lyfjategund því að stundum þarf að prófa nokkur lyf, lyfjasamsetningar og skammta áður en hin rétta lyfjagjöf finnst.

Undirflokkar

C01 Hjartasjúkdómalyf

Í þessum flokki eru lyf sem hafa bein áhrif á hjarta og eru notuð við hjartsláttartruflunum og hjartabilun. Hjartsláttartruflunum er raðað í flokka eftir ákveðnu kerfi, eða eftir því af hvaða toga þær eru. Lyfin við þeim hafa mismunandi áhrif á leiðslukerfi hjartans, allt eftir því hvaða hjartsláttartruflanir er verið að koma reglu á. Nokkur lyfjanna eru einungis notuð á sjúkrahúsum og önnur eru notuð að staðaldri. Aukaverkanir eru frekar algengir fylgifiskar lyfjanna og geta orðið býsna alvarlegar. Hinar helstu eru kviðverkir og ógleði, svimi, höfuðverkur og sjóntruflanir. Lyfin geta líka haft í för með sér leiðslutruflanir, blóðþrýstingsfall og takttruflanir. Sömu einkenni lýsa sér í ofskömmtun.

Digoxín er sérlega gagnlegt lyf við hjartabilun með gáttaflökti og það er líka notað við ákveðinni gerð hjartsláttartruflana. Lyfið eykur samdráttarkraft hjartans og hægir á hjartsláttartíðni. Digoxín hefur mjög langan helmingunartíma, þ.e. líkaminn er lengi að losa sig við það, og því hættir því til að safnast fyrir í líkamanum sem getur leitt til eitrunar. Vegna þessa þarf að mæla reglulega styrk digoxíns í blóði hjá sjúklingum til að stilla skammt lyfsins. Algengt er að lyfið sé tekið inn aðeins 5-6 daga vikunnar. Lyfið hefur svipaðar aukaverkanir við hjartsláttartruflunum og önnur lyf.

Hjartaörvandi lyf falla undir hjartasjúkdómalyf. Hér er aðallega um að ræða stungulyf og eingöngu notuð á sjúkrahúsum við aðgerðir og til meðferðar á losti og hjartastoppi. Lyfin auka samdráttarkraft hjartans, auka útfall þess, minnka mótstöðu í æðum auk þess sem blóðflæðið eykst til nýrna og annarra líffæra. Lyfin geta aukið hjartsláttarhraða, hækkað blóðþrýsting og valdið aukaslögum, allt skammtaháðar aukaverkanir. Þegar frumur hjartavöðvans fá ekki súrefnið sem þær þarfnast finnst verkur fyrir brjósti og hann getur leitt út í báða handleggi, oftast þann vinstri, upp í háls, kjálka og niður í kvið. Þetta gerist ef kransæðarnar eru orðnar þröngar vegna æðakölkunar. Til að sporna við þessu eru gefin kransæðavíkkandi lyf sem nefnast nítröt. Við það að kransæðar víkka eykst blóðstreymi um þær og um leið berst meira súrefni til hjartavöðvans. Lyfin eru notuð eftir þörfum, eða þegar sjúklingurinn fær hjartaöng og þau eru líka tekin að staðaldri til að koma í veg fyrir hjartaöng hjá þeim sem þjást reglulega af hjartaöng. Þegar lyfin eru tekin fyrirbyggjandi er hægt að fá plástra á húð sem skipta þarf um daglega eða forðatöflur sem á að taka einu sinni á dag. Þessi lyf eru lyfseðilsskyld. Tungurótartöflur, sem inniheldur nítröt, er aftur á móti hægt að fá í lausasölu. Þetta er það lyf sem er tekið eftir þörfum þegar einkenna verður vart.

Flestar aukaverkanir af völdum lyfjanna eru tengdar lyfhrifum þeirra og þær eru skammtaháðar. Höfuðverkur gæti gert vart við sig í upphafi meðferðar en hann hverfur oftast við áframhaldandi meðferð. 

C02 Blóðþrýstingslækkandi lyf

Ekki finnast mörg lyf á skrá hérna sem eru eingöngu blóðþrýstingslækkandi en þau eru þó nokkur. Lyfin víkka æðar og samfara því lækkar þrýstingur í æðum. Þessi lyf verða þó aldrei fyrsta val við of háum blóðþrýstingi, nema fyrir karlmenn sem eru líka með góðkynja stækkun í blöðruhálskirtli. Eitt helsta vandamálið samfara góðkynja stækkun í blöðruhálskirtli er það að þvaglát geta orðið erfið og sársaukafull af því að kirtillinn þrengir sér út í þvagrásina. Áhrifa lyfjanna gætir líka í þvagrásinni með því að auðvelda þvagblöðrunni að tæmast. Í svona tilfelli flokkast það til aukaverkana en er að sama skapi gagnlegt fyrir sjúklinginn.

Aukaverkanir blóðþrýstingslækkandi lyfja eru almennt litlar, helst ber að nefna svima og lágan blóðþrýsting í uppréttri stöðu.

C03 Þvagræsilyf

Þvagræsilyf eru notuð við bjúgmyndun, hjartabilun og háþrýstingi. Við hjartabilun skerðist dælugeta hjartans og bjúgur fer að safnast fyrir í hinum ýmsu líffærum og þá eru þvagræsilyf kjörin til að vinna á móti því. Til eru bæði væg og kröftug þvagræsilyf. Styrkleikinn er háður því hvar í nýrnapíplunni lyfin verka. Vægari lyfin eru notuð við háþrýstingi og minni háttar bjúgmyndun á meðan þau sterkari þykja nauðsynleg sé um hjartabilun eða svæsna bjúgmyndun að ræða. Þvagræsilyfin auka útskilnað á vatni og natríum jónum í nýrunum og minnka þar með vatnsmagnið í líkamanum. Ein helsta aukaverkun þvagræsilyfja er sú að samfara útskilnaði á natríum jónum og vatni verður líka útskilnaður á kalíum jónum.

Þeir sem nota þvagræsilyf gætu því fengið kalíumskort ef ekkert er að gert til að bæta líkamanum tapið. Kalíum er nefnilega öllum frumum líkamans nauðsynlegt til að þær geti starfað eðlilega. Ráða má bót á þessu vandamáli með því að gefa kalíum aukalega og það er nauðsynlegt að fylgjast með kalíumbúskap þeirra sem eru á þvagræsilyfjum að staðaldri. Í staðinn fyrir að gefa kalíum er líka hægt að gefa kalíumsparandi lyf, en þau valda því að nýrun taka aftur upp kalíumið sem þau skildu út fyrir tilstuðlan þvagræsilyfjanna. Þvagræsilyf geta aukið magn þvagsýru í líkamanum. Fyrir þá sem eru með þvagsýrugigt gætu þvagræsilyfin verið varasöm og valdið auknum sjúkdómseinkennum. Því ættu þeir ekki að nota þvagræsilyf nema brýna nauðsyn beri til. Þvagræsilyfin geta líka skert sykurþol og gætu því reynst varasöm einstaklingum með sykursýki.

C04 Æðavíkkandi lyf

Eins og er er einungis eitt lyf er skráð í þennan flokk. Lyfið er notað við blóðrásartruflunum í ganglimum. Lyfið minnkar seigju blóðs og um leið eykst meira blóðsteymi til útlimanna. Aukaverkanir af völdum þessa lyfs eru sjaldgæfar.

C05 Æðaverndandi lyf

Í þessum flokki eru meðal annars gyllinæðarlyf sem eru notuð staðbundið á gyllinæð, annað hvort sem smyrsli eða endaþarmsstílar. Í gyllinæðarlyfjum eru oftast sterar til að minnka bólgu og flýta fyrir að sár grói. Þar er líka að finna staðdeyfilyf til að minnka sársauka og líka sýklalyf til að koma í veg fyrir sýkingu í sári. Gyllinæð stafar af víkkun bláæða við endaþarmsop. Talið er að þessi kvilli hrjái um það bil annan hvern mann einhvern tíma ævinnar. Algengasta orsök gyllinæðar er að líkindum hreyfingarleysi ásamt langvarandi harðlífi. Gyllinæð gætir oft hjá þunguðum konum og feitu fólki. Æðahnútar sem liggja grunnt og yfirborðsæðabólgur eru meðhöndlaðir með kremi eða smyrsli sem er borið á svæðið sem meðhöndla á. Lyfið hefur blóðþynningar- og bólguhemjandi áhrif og getur auk þess aukið blóðflæði og vökvafrásog frá bólgnu svæði.

Aukaverkanir af völdum æðaverndandi lyfja eru afar sjaldgæfar. Eins og er fæst smyrsli við gyllinæði í lausasölu í apóteki.

C07 Beta-blokkar

Beta-blokkarar eru líklega sá lyfjaflokkur sem fyrst er leitað til við að meðhöndla háþrýsting. Þeir skiptast í sérhæfða beta-blokkara, sem virka eingöngu í hjarta, og ósérhæfða beta-blokkara með mun víðtækari áhrif. Við inntöku beta-blokkara minnkar samdráttarkraftur hjartans og það slær hægar vegna áhrifanna sem verða á leiðslukerfi þess. Þetta veldur því að hjartað erfiðar minna og það þarf minna súrefni en áður. Blóðþrýstingur lækkar vegna þess að hjartað dælir minna af blóði og þá verður ekki eins mikill þrýstingur í æðum. Vegna verkunar sinnar eru beta-blokkarar notaðir við of háum blóðþrýstingi, kransæðasjúkdómi og ákveðnum tegundum hjartsláttartruflana.

Við notkun á beta-blokkurum hefur komið í ljós að þeir eru líka gagnlegir við fjölda annarra sjúkdóma, s.s. mígreni. Lítið er þó vitað um verkunarmáta þeirra við mígreni en í slíkum tilfellum þykir nauðsynlegt að nota ósérhæfða beta-blokkara, eða þá sem komast í miðtaugakerfið. Beta-blokkarar nýtast við fleiru eins og handskjálfta, einkennum vegna ofvirks skjaldkirtils, fráhvarfi lyfja og áfengis og gláku svo að dæmi séu tekin.

Sérhæfðir beta-blokkarar hafa færri aukaverkanir heldur en þeir ósérhæfðu. Hinar helstu eru berkjusamdráttur hjá þeim sem eru astmaveikir, hand- og fótkuldi auk áhrifa á miðtaugakerfið. Því ber að varast að gefa astmaveikum beta-blokkara og ætti frekar að velja önnur lyf. Það tekur beta-blokkara um tvo mánuði að ná fram fullri verkun því að fyrst um sinn vinnur líkaminn á móti þeim.

C08 Kalsíumgangalokar

Til þess að frumur geti dregist saman þurfa kalsíumjónir að flæða inn í þær. Kalsíumgangalokar loka fyrir kalsíumgangana inn í frumur hjarta- og æðakerfisins og þeir koma í veg fyrir það að þær dragist saman. Við það minnkar samdráttartíðni hjartans, samdráttarkrafturinn verður minni og æðar víkka. Þetta leiðir til minni súrefnisnotkunar hjartans og lægri blóðþrýstings. Kalsíumgangalokar eru gagnlegir við háþrýstingi, kransæðasjúkdómi og ákveðnum tegundum af hjartsláttartruflunum. Ekki hafa allir kalsíumgangalokar áhrif á hjartað. Sumir hafa eingöngu áhrif á æðakerfið. Þá er líka ekki hægt að nota við hjartsláttartruflunum eins og t.d. þá sem hafa áhrif bæði á hjarta- og æðakerfi. Kalsíumgangaloka má alls ekki gefa fólki með hjartabilun af því að það getur leitt til hjartastopps. Þeir hafa engin áhrif á astma, ólíkt beta-blokkurum, og vegna þessa eru kalsíumgangalokar oft notaðir þegar meðhöndla þarf astmasjúklinga við háþrýstingi og kransæðasjúkdómi.

Aukaverkanir af notkun kalsíumgangaloka stafa flestar af æðavíkkuninni sem verður, og eru því háðar verkun lyfsins. Helst ber að nefna roða, hitakennd, bjúg og meltingarfæraóþægindi. Algengt er að kalsíumgangalokar og beta-blokkarar séu notaðir saman.

C09 Lyf með verkun á renínangíótensín kerfið

Renínangíótensínkerfið er boðefnakerfi sem er staðsett í nýrum, en boðefni þess hafa áhrif á æðar alls staðar í líkamanum. Kerfið stýrir blóðþrýstingi með því að þrengja æðar og hafa áhrif á salt- og vökvabúskap líkamans. Lyfin í þessum flokki eru tvenns konar, ACE-hemlar og angiotensin II blokkarar. Lyfin í flokkunum hafa áhrif á sitt hvorn stað í renínangíótensínkerfinu.

ACE-hemlarnir hafa víðtækari áhrif og eru öflugri. Þeir eru gagnlegir við háþrýstingi og hjartabilun og nýlegar rannsóknir sýna að þeir lækka dánartíðni og fækka verulega fylgikvillum sjúklinga með hjartabilun. Helstu aukaverkanir þeirra eru þurr hósti, og við upphaf lyfjameðferðar gæti orðið blóðþrýstingsfall og þá sérstaklega séu þvagræilyf tekin samtímis.

Angiotensin II blokkarnir hafa sértækari verkun en ACE-hemlarnir og eru eingöngu notaðir við háþrýstingi. Þeir hafa einnig vægari aukaverkanir.

Samlegðaráhrif fást ef ACE-hemlar eða angiotensin II blokkarar eru notaðir með þvagræsilyfjum. Margar blöndur þessara lyfja eru á markaði hérlendis.

C10 Blóðfitulækkandi lyf

Til eru nokkrir flokkar lyfja sem lækka kólesterólmagn í blóði en eftir að statin-lyfin svokölluðu komu til sögunnar hefur notkun á öðrum lyfjum minnkað snarlega. Of hátt kólesteról er stór áhættuþáttur kransæðasjúkdóma og þar með annarra hjarta- og æðasjúkdóma. Það gefur því auga leið að mikilvægt sé að kólesterólmagn verði ekki of hátt í líkamanum.

Kólesteróli er skipt niður í HDL (hefur áður verið kallað góða kólesterólið), LDL (hefur áður verið kallað vonda kólesterólið) og þríglýseríð. Statin-lyfin auka magn góðs kólesteróls og minnka magn vonds kólesteróls og þríglýseríða í blóði. Lyfin draga líka úr nýmyndun kólesteróls. Allt þetta hefur áhrif í jákvæða átt til lækkunar á kólesteróli.

Önnur lyf, og eldri en statin-lyfin, eru fíbröt, sem hafa áhrif á myndun kólesteróls í lifur, og gallsýrubindandi efni sem binda gallsýrur í meltingarveginum, en gallsýrur innihalda mikið magn af vondu kólesteróli.

Aukaverkanir kólesteróllækkandi lyfja eru venjulega vægar og ganga til baka. Helst tengjast þær meltingarfærunum eins og kviðverkir, ógleði og hægðatregða.