DHúðlyf

Þessum flokki tilheyra lyf sem notuð eru við ýmsum kvillum í húð, eins og exemi, psoriasis, sveppasýkingum, bakteríusýkingum og bólum. Mörg mismunandi lyfjaform finnast.

D Húðlyf

Þessum flokki tilheyra lyf sem notuð eru við ýmsum kvillum í húð, eins og exemi, psoriasis, sveppasýkingum, bakteríusýkingum og bólum. Mörg mismunandi lyfjaform finnast.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Þessum flokki tilheyra lyf sem notuð eru við ýmsum kvillum í húð, eins og exemi, psoriasis, sveppasýkingum, bakteríusýkingum og bólum. Mörg mismunandi lyfjaform finnast. Þar mætti nefna krem, smyrsli, fljótandi áburðir, sápur, sáralín og töflur til inntöku, svo að einhver dæmi séu nefnd.

Húðin er í rauninni stærsta líffæri líkamans og gegnir margs konar hlutverkum. Hún ver líkamann fyrir utanaðkomandi áreitum af örverum, geislum og framandi efnum og hún tekur þátt í því að viðhalda hita- og rakastigi líkamans. Húðfitan ver líkamann gegn kulda og svitalosun og kemur með því í veg fyrir ofhitnun. Taugar í húðinni nema örvun sem verður af hita, snertingu og þrýstingi og sömuleiðis skynja þær líka sársauka. Húðin býr líka til D-vítamín fyrir áhrif útfjólublás ljóss. Af framantöldu sést hvað það er mikilvægt að húðin sé heilbrigð og heil.

Sum lyfin eru borin á húðina í þeim tilgangi að þau berist inn í blóðrásina og hafi áhrif á aðra hluta líkamans en húðina. Þau lyf tilheyra þó öðrum lyfjaflokkum og má sem dæmi nefna hormónaplástra, en þeir tilheyra flokki G (þvag- og kynfæri og kynhormón).

Saga
Flest lyfin hafa verið þróuð á síðustu áratugum og mörg þeirra eru alveg glæný. Barksterar skipa stærsta hluta húðlyfja og þeir hafa verið að þróast síðastliðin fimmtíu ár. Margir nýir og öflugir barksterar hafa verið búnir til út frá hýdrókortisóni, en það var fyrst búið til á rannsóknarstofu árið 1951. Þróun húðlyfja er hröð og eins og nú er háttað er fjöldi þeirra á lokastigi þróunar og rannsókna. Tilkoma nýrra lyfjaforma hefur einnig töluvert að segja í þróun húðlyfja.

Sjá einnig undirflokka.

Verkunarmáti
Lyfin hafa ýmist beina verkun á húðina, eða á þann stað sem lyfið er borið á, eða almenna verkun þegar lyfið er tekið inn.

Sjá undirflokka.

Algengar aukaverkanir
Algeng aukaverkun lyfjanna er erting á notkunarstað sem kemur fram í kláða, roða og sviða.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Mikilvægt er að fylgja vel leiðbeiningum um notkun lyfjanna, hvort sem um er að ræða leiðbeiningar frá lækni eða leiðarvísi lausasölulyfja. Mjög þýðingarmikið er líka að þvo hendur vel eftir að lyfin hafa verið borin á húðina og gæta þess vandlega að þau berist ekki í augu.

Sjá einnig undirflokka.

Hvað ber að varast
Varast skal að lyfin berist í augu. Komi fram ofnæmi eða erting við notkun lyfjanna ætti strax að hætta meðferð og hafa samband við lækni. Hafa ber í huga að sum lyf kynnu að frásogast í gegnum húðina og inn í blóðrásina. Hafa ætti hugfast að húð á börnum er þynnri en á fullorðnum.

Sjá einnig undirflokka.

Undirflokkar
Allur texti hér að framan á við öll lyf í þessum flokki. Allt sem á sérstaklega við einstaka undirflokka kemur hér á eftir:

D01 Sveppalyf við húðsjúkdómum

Hér er að finna lyf við sveppasýkingum í húð, slímhúð, hársverði og nöglum. Lyfin hafa ýmist sveppaheftandi- eða sveppadrepandi verkun. Fót- og naglsveppasýkingar eru sérstaklega algengar hér á landi. Það mætti ef til vill rekja til tíðra sundferða okkar Íslendinga eða þess að við erum mikið í lokuðum skóm af því að veðurfarið býður oftast nær ekki upp á neitt annað. Önnur sveppalyf, eða þau sem eru ekki eingöngu ætluð við húðsjúkdómum, raðast í flokkinn J02 eða G01. Í flokki G01 eru lyf sem eru notuð við sýkingum í kynfærum kvenna. Hafa ætti í huga að mörg sveppalyf er líka nauðsynlegt að nota í þó nokkurn tíma eftir að einkenni sýkingarinnar eru horfin til þess að fullnægjandi árangur náist.

D02 Mýkjandi og húðverndandi lyf

Undir þennan flokk falla lyf og efni sem notuð eru í þeim tilgangi að mýkja húðina og vernda hana. Þar mætti nefna vaselín og fitur auk verndandi lyfja á móti áhrifum útfjólublárrar geislunar.

D03 Lyf til meðferðar á sárum

Ýmis græðandi smyrsli ættu hér heima en sem stendur eru hér engin skráð sérlyf.

D04 Kláðastillandi lyf, ofnæmislyf og staðdeyfilyf

Eina skráða sérlyfið er staðdeyfilyf, krem sem er borið á húðina og staðdeyfir hana vægt. Öll önnur staðdeyfilyf flokkast til N01. Flest ofnæmislyf og kláðastillandi lyf heyra líka undir annan flokk, eða R06.

D05 Psoriasislyf

Í undirflokkinum eru lyf ætluð til meðhöndlunar á psoriasis. Psoriasis er húðsjúkdómur sem lýsir sér í rauðum, hreistruðum flekkjum á húð. Algengast er að flekkirnir komi fram í hársverði, olnbogabótum og hnésbótum. Psoriasis er ekki smitandi. Í flokkinum eru meðal annars hlaup, smyrsli og húðfroða til meðhöndlunar á sjúkdómnum. Aðeins eitt lyf í þessum flokki er tekið inn um munn við psoriasis. Lyfið er mjög vandmeðfarið og skemmir fóstur, og lengi eftir að notkun þess er hætt. Þess má geta að barksterar í flokki D07, er einnig mikið notaðir við psoriasis.

D06 Sýklalyf við húðsjúkdómum

Í flokknum sýklalyfjum við húðsjúkdómum má finna sýklalyf og veirulyf sem eru notuð staðbundið við sýkingum í húð, en það þýðir að þau eru borin beint á sýkt húðsvæði. Eingöngu er um að ræða útvortis lyfjaform, eða krem, smyrsli og fleira í þeim dúr. Frunsukrem sem fást í lausasölu eru í þessum flokki. Sýklalyf til inntöku eru líka oft gefin við erfiðum sýkingum í húð. Þau flokkast til J01.

D07 Barksterar, húðlyf

Þessum undirflokki tilheyra svokallaðir barksterar og eru notaðir útvortis, ýmist einir sér eða í blöndu með öðrum lyfjum, eins og sýklalyfjum. Barksterar til inntöku eða sem stungulyf tilheyra flokki H02. Barksterar hindra myndun á efnum sem framkalla bólgur og barksterar eru ónæmisbælandi. Þeir hafa almennt sömu áhrif og sterahormón sem myndast í nýrnahettunum. Barksterar eru notaðir við ýmsum húðkvillum eins og til að draga úr bólgu í húð, við exemi og psoriasis. Líka við ofnæmisútbrotum og kláða í húð.

Barksterar sem eru bornir á húð skiptast í fjóra flokka eftir styrkleika. Flokkarnir eru þessir: Í flokki I eru barksterar með væga verkun, flokki II með meðalsterka verkun, flokki III með sterka verkun og flokki IV með mjög sterka verkun. Það er síðan háð sjúkdómsástandi húðar hvaða styrkleiki verður fyrir valinu hverju sinni. Oft er byrjað að meðhöndla húðina með sterkari stera og meðferð síðan haldið áfram með vægari. Einnig skiptir máli hvar á húðina barksterar eru bornir. Ef bera á stera í andlit eru vægustu sterarnir yfirleitt notaðir. Til vægra barkstera telst hýdrókortisón sem myndast í nýrnahettunum. Síðar, eða árið 1951, var það búið til á rannsóknarstofu. Sterkari sterar hafa síðan ætíð verið þróaðir út frá hýdrókortisóni.

Barksterar geta valdið húðþynningu, roða og litarbreytingum í húð. Þeir frásogast gegnum húð og valda almennri steraverkun, sérstaklega lyf í sterkari flokkunum. Hættan á þessu eykst töluvert sé húðin hulin með umbúðum eftir að lyfið hefur verið borið á hana. Langtímanotkun barkstera á húð er ekki æskileg, einkum hjá börnum, þar sem þeir geta bælt starfsemi nýrnahetta. Það kemur til af því að líkaminn, sem skynjar þetta aukna barksteramagn í blóðinu, bregst við því með að draga sjálfur úr eigin framleiðslu í nýrnahettunum. Nýrnahettur fara þó að starfa eðlilega á nýjan leik þegar meðhöndlun með sterunum lýkur.

Flokkur I, barksterar með væga verkun, eru seldir án lyfseðils (hýdrókortisón). Þá er óhætt að nota í nokkra daga í senn, en lagist einkenni ekki á að hafa samband við lækni.

D08 Sótthreinsandi lyf

Hér er að finna ýmis efni sem notuð eru til að sótthreinsa húð, bæði sápur, lausnir og krem.

D09 Lyfjalín

Í þessum undirflokki eru að finna svonefnd sáralín, en það eru grisjur eða umbúðir sem innihalda sýkingalyf og eru sett yfir sár til að meðhöndla eða koma í veg fyrir sýkingu.

D10 Lyf við gelgjubólum

Bólur á húð er hvimleiður kvilli. Ástæður þeirra geta verið margs konar, til dæmis hormónabreytingar eða trufluð starfsemi fitukirtla í húðinni. Lyf í þessum undirflokki eru flest notuð útvortis, beint á bólusvæðið og borin á hreina húðina, en hér er líka að finna öflugt lyf til inntöku við bólum. Lyf þetta er afar vandmeðfarið og getur skemmt fóstur. Áhrifa þessa gætir lengi eftir að notkun þess er hætt. Sýklalyf til inntöku eru líka notuð við erfiðum bólutilfellum, en þau lyf tilheyra flokki J01.

D11 Önnur húðlyf

Undir þennan flokk falla ákveðnar tegundir af flösulyfjum og vörtulyfjum og líka lyf við skallamyndun og exemi.


Nýjungar

Eins og málum er háttað nú á tímum er reynt að einfalda lyfjagjöf á húð sem mest. Í því skyni hafa verið búin til lyfjaform sem þarf að bera sem sjaldnast á húðina og í sem stystan tíma. Ný lyf eru sífellt að skjótast upp á yfirborðið við kvillum sem eitt sinn þekktist engin lækning við, þar mætti nefna sem dæmi ný lyf við skallamyndun. Núna er meira að segja farið að búa til lifandi húð og græða á erfið sár, svo sem fóta- eða brunasár. Með tilkomu hennar er hægt að flýta fyrir bata og jafnvel bjarga á þann hátt mannslífum. Erfðarannsóknir koma líka til með að hafa mikið að segja í framtíðinni, auðvelt aðgengi er að húðinni og hún er ótæmandi brunnur rannsókna.