P Sníklalyf

Í flokki sníklalyfja er að finna lyf sem hafa áhrif á ýmsa sníkla. Sumir sníklarnir eru sjáanlegir berum augum eins og höfuðlús, en frumdýr og amöbur eru minni og sjást ekki nema með smásjá.

P Sníklalyf

Í flokki sníklalyfja er að finna lyf sem hafa áhrif á ýmsa sníkla. Sumir sníklarnir eru sjáanlegir berum augum eins og höfuðlús, en frumdýr og amöbur eru minni og sjást ekki nema með smásjá.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Í flokki sníklalyfja er að finna lyf sem hafa áhrif á ýmsa sníkla. Sumir sníklarnir eru sjáanlegir berum augum eins og höfuðlús, en frumdýr og amöbur eru minni og sjást ekki nema með smásjá. Lús og kláðamaur eru sníklar sem sýkja húð. Þeir eru meðhöndlaðir með lyfjum sem eru borin á húð, með kremi eða áburði og hársápa er líka notuð. Innvortis sýkil þarf að meðhöndla með lyfjum sem eru tekin inn sem töflur eða mixtúra.

Saga
Elst sníklalyfja er eflaust kínín sem unnið er úr berki kínatrés og hefur verið notað í alda raðir. Ýmsar sögur eru til um það hvernig lækningarmáttur kínabarkarins uppgötvaðist, en hvenær það varð veit hins vegar enginn um með vissu. Þó er vitað að Inkar notuðu kínín þegar Spánverjar komu til Ameríku snemma á 17. öld. Kínín er notað við malaríu, landlægum sjúkdómi víða um heim, en áætlað er að 150-200 milljónir manna sýkist af honum árlega. Aukaverkanir kíníns eru þó sumar hverjar hættulegar og af þeim sökum hafa nýrri malaríulyf tekið við til að lækna malaríu. Ekki er þó allt sem sýnist. Margir stofnar sníkilsins eru búnir að mynda ónæmi fyrir nýrri lyfjunum og enn á ný er kínín notað þegar önnur lyf duga ekki til.
Malaríulyf og önnur sníklalyf eru farin að gegna þýðingarmeira hlutverki á Íslandi en áður vegna vaxandi ferðalaga okkar til svæða þar sem sjúkdómar af völdum sníkla eru landlægir.
Flest lyfin sem hér verður fjallað um í flokki sníklalyfja eiga sér langa sögu og sum hver hafa verið notuð áratugum saman. Svo virðist sem nýrri lyfin hafi ekki þá burði til að bera að leysa þau eldri af hólmi, eins og vill oft verða þegar ný lyf koma á markað.

Verkunarmáti
Lyf gegn frumdýrum hafa jafn ólíkan verkunarmáta og þau eru mörg. Eitt eiga þau þó sameiginlegt, en það er að drepa frumdýrin með því að hafa áhrif á starfsemi sníkilsins. Sníkillinn nær ekki að starfa eðlilega og það dregur hann til dauða. Lyfin virka frekar fljótt og oft dugar aleinn skammtur af lyfinu til þess að drepa sníkilinn. Sum lyfin drepa líka í leiðinni loftfælnar bakteríur, en til þess að svo verði kallar það á lengri meðferð.

Algengar aukaverkanir
Ormalyfjum og lyfjum gegn sníkjudýrum á húð fylgja tiltölulega fáar aukaverkanir. Ormalyfin sem eru tekin inn virka í meltingarvegi, þau berast lítið út í blóðrásina og hafa þar af leiðandi aðeins áhrif á meltingarveginn. Þótt aukaverkanir af þeirra völdum séu sjaldgæfar gæti orðið vart við meltingaróþægindi eins og kviðverki og niðurgang. Lyf á húð geta valdið ertingu, roða, ofnæmi eða útbrotum.
Lyf gegn frumdýrum (P01) þurfa að komast í blóðrásina til þess að áhrifa þeirra gætir. Þeim fylgir því fleiri og fjölbreyttari aukaverkanir en með hinum lyfjaflokkunum tveimur (P02 og P03). Hinar helstu aukaverkanir eru kviðverkir, ógleði, niðurgangur og höfuðverkur. Sömu lyf geta einnig haft alvarlegri afleiðingar en hér greindi. Þær aukaverkanir koma niður á miðtaugakerfi og blóðmynd, en sem betur fer er það sjaldgæft.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Hið sama gildir um þessi lyf eins og öll önnur að það er afar mikilvægt að fylgja nákvæmlega ráðleggingum læknis um notkun lyfjanna. Lyfjum í lausasölu við höfuðlús, flatlús, kláðamaur og njálg fylgja góðar leiðbeiningar og til þess að náist sem heilladrýgstur árangur í meðferð ætti að kappkosta að fylgja þeim til hlítar. Þar sem smit berst auðveldlega milli manna skiptir höfuðmáli að bregðast skjótt og rétt við þegar sýkingar af þessu tagi greinast. Rétt er að láta vita af hugsanlegri smithættu eins og í skólum og leikskólum.

Hvað ber að varast
Lyfin ber að nota samkvæmt leiðbeiningum. Röng notkun þeirra getur leitt til þess að sníkillinn þrói með sér ónæmi gegn lyfjunum.

Undirflokkar

P01 Lyf gegn frumdýrum

Malaría er stórt vandamál í heiminum og flestir sem leggja leið sína til malaríusvæða taka inn malaríulyf sem fyrirbyggjandi. Nokkur lyf eru skráð hér á landi við malaríu og það lyf er valið eftir því hvert halda skuli. Lyfjaónæmi er nefnilega vel þekkt hjá malaríusníklinum og þar af leiðandi er það misjafnt eftir svæðum hvaða lyf gagnast og hver ekki. Byrjað er á því að taka lyfin inn nokkru áður en lagt er af stað, kannski viku áður. Lyfin eru svo tekin í um það bil viku til tvo mánuði eftir að heim er komið en það fer eftir því hvaða lyf er um að ræða. Malaríulyfin virka hver á sinn hátt á sníkilinn og öllum er það sameiginlegt að hafa í för með sér einhverjar aukaverkanir. Þær verða þó aldrei stórvægilegar þegar lyfin eru notuð fyrirbyggjandi, en annað er uppi á teningnum þegar meðhöndla á malaríuna sjálfa. Þá þarf að taka stærri skammta og það kallar á aukna hættu á aukaverkunum. Þar ber helst að nefna magaóþægindi, einkenni frá húð, augum og miðtaugakerfi. Hættulegust aukaverkun lyfjanna er sú þegar lyfin hafa áhrif á blóðmyndina og fækka til að mynda hvítum blóðkornum. Slíkt leiðir til lífshættulegs ástands en er sem betur fer afar sjaldgæft.

Malaríulyfin þekkjast sum hver af öðru en því að meðhöndla malaríusýkingar. Kínín er líka hægt að nota við sinadrætti og það hefur örlítil lamandi áhrif á beinagrindarvöðva. Lyfið fékkst í lausasölu til skamms tíma en er í dag orðið lyfseðilsskylt vegna þess hversu alvarlegar aukaverkanir þess geta orðið.

Annað malaríulyf er einnig hægt að nota við iktsýki og rauðum úlfum (Lupus, SLE), sem eru sjálfsofnæmissjúkdómar. Verkunarmáti lyfsins við þessum sjúkdómum er ekki að fullu skilinn. Þó er talið að lyfið sé ónæmisbælandi og það geri það að verkum að það hafi áhrif á sjúkdóminn með því að minnka ofnæmissvar.

Loftfælnar bakteríur kallast þær bakteríur sem þurfa ekki súrefni til að lifa. Þær sýkja oft í munni, meltingarvegi og leggöngum, rétt eins og frumdýr gera. Þær sýkja líka annars staðar í líkamanum eins og í miðtaugakerfi. Það er því óneitanlega góður kostur að vita af lyfi sem virkar á hvoru tveggja, frumdýr og bakteríur. Lyfið (metrónídazól) frásogast í blóð og dreifist vel til allra vefja líkamans, þar með talið í heila- og mænuvökva. Það segir sig sjálft að lyfið nýtist vel til að meðhöndla sýkingar af völdum loftfælinna baktería í miðtaugakerfinu. Lyfið er notað fyrirbyggjandi fyrir skurðaðgerðir þar sem hætta er á smiti þessara baktería og frumdýra. Lyfið virkar einnig á rósroða og amöbusýkingar eins og blóðkreppusótt. Notagildi lyfsins er augljóst, enda er lyfið algengt. Helstu aukaverkanir þess eru kviðverkir og önnur óþægindi frá meltingarvegi, ofnæmiseinkenni, einkenni frá miðtaugakerfi og augum. Forðast ætti áfengisneyslu samtímis töku lyfsins meðan á meðferð stendur og í tvo daga að henni lokinni þar sem hætta er á dísúlfíramlíkum (Antabus) verkunum milli metrónídazóls og alkóhóls. Antabusáhrif lýsa sér í andlitsroða, örari hjartslætti, óþægindatilfinningu, velgju og uppsölu.

P02 Ormalyf

Lyf gegn njálgi og öðrum ormum sem lifa í meltingarvegi heyra til þessa undirflokks sníklalyfja.

Ekki er mikið um ormasýkingar hér á landi, algengast er að meðhöndla njálgsmit. Njálgur smitast auðveldlega milli manna með því að egg hans berast um munn frá smituðum einstaklingi. Oftast berast eggin með fingrum, en þau geta einnig komið með fötum, sængurfötum, leikföngum og öðru. Eggin eru fær um að lifa góðu lífi í umhverfinu við stofuhita í allt að þrjár vikur. Lyf við njálgi fæst í lausasölu, meðferð er af þeim sökum aðgengileg og ætti að byrja hana strax og njálgsins verður vart. Lyfið er til í töflum og lyfjaskammtar ráðast af þyngd. Alla í fjölskyldunni þarf að meðhöndla á sama tíma. Lyfið kæfir njálginn en drepur ekki egg hans svo að nauðsynlegt er að taka inn tvo skammta af lyfinu; hinn fyrri sem drepur lifandi ormana og síðan þann síðari, um tíu dögum seinna, til að drepa ormana sem voru egg þegar fyrri skammturinn var tekinn. Lyfið getur litað föt og saur rauðan, en er að öðru leyti að mestu laust við aukaverkanir.

Einnig er til breiðvirkt ormalyf sem verkar á aðrar ormategundir ásamt njálgi en það er lyfseðilsskylt lyf. Lyfið deyðir ormana með því að trufla meltingarstarfsemi þeirra og hefur auk þess áhrif á þroska eggjanna. Meðferð er mismunandi eftir því hvaða ormategund er verið að meðhöndla. Lyfið er fáanlegt í töfluformi og mixtúru. Skammturinn er sá sami fyrir börn og fullorðna. Sama á við um þetta lyf að meðferðin er endurtekin síðar, um það vil 2 vikum eftir fyrri skammt.

Þessi lyf eiga það öll sameiginlegt að vera nokkuð laus við aukaverkanir, enda heldur lyfið sig aðallega í meltingarvegi og frásogast lítið í blóð. Aukaverkanir eru því aðallega óþægindi í meltingarvegi.

P03 Lyf gegn útvortis sníkjudýrum, þ.á.m. kláðamaurum og skordýraeitur og skordýrafælur

Sníklar sem þrífast hérna eru einkum höfuðlús, flatlús og kláðamaur. Höfuðlús og flatlús lifa í hársverði manna og þar halda þær sér fastri með klóm sem grípa um hárlegginn.

Höfuðlúsin er grágul að lit og er smávaxin, aðeins 2-4 mm löng. Sé hárið kembt með lúsakambi yfir spegli ættu lýsnar að sjást berum augum. Þá má líka greina lítil (minni en 1 mm), gulhvít korn sem eru föst við hárin. Þetta eru egg lúsarinnar og kallast nit.

Flatlús er mun minni en höfuðlúsin, eða að stærð eins og títuprjónshaus. Hún verpir eggjum sínum einkum í nára en eggin er líka að finna undir höndum og í augabrúnum.

Kláðamaur grefur sig aftur á móti undir húðina, sérstaklega þar sem hún er þunn, og verpir þar eggjum sínum. Hann er mjög lítill og sést varla með berum augum en oft sjást svartir dílar þar sem hann hefur verpt. Egg hans orsaka mikinn kláða og óþægindi.

Lyf við lúsasmiti er flest hægt að kaupa í lausasölu. Þeim er ætlað að vinna á nit og lús, en oft drepast nitin ekki af því að lyfin eru ekki eins virk gegn henni og lúsinni. Það getur því þurft að endurtaka meðferðina eftir 1-2 vikur. Lyfið eru til sem áburður. Áburðurinn þykir oft henta betur á nárasvæði.

Þegar kláðamaurssmit uppgötvast þarf að bera krem á allan líkamann, utan höfuðs, og láta standa óhreyft í 12-24 tíma. Gæta þarf þess vel að smyrja vel allan líkamann og gleyma ekki að smyrja kremið á milli táa, í holhönd og nafla. Ein meðferð nægir venjulega en ef þurfa þykir má endurtaka hana eftir eina viku. Kláði getur verið til staðar í allt að 4 vikur þrátt fyrir það að meðferð hafi borið fullan árangur.

Aukaverkanir eru fátíðar. Það stafar af því að lyfin í þessum flokki virka nær eingöngu á sníkjudýrin en hafa ekki áhrif á mannsfrumurnar. Helst væri hægt að nefna óþægindi frá húð eins og sviða eða roða..